Heilsa

Fylgikvillar magahjáveituaðgerða

Fyrr í vikunni birtum við grein um helstu kosti magahjáveituaðgerða sem byggð var á viðtali í Morgunblaðinu við Hjört G. Gíslason skurðlækni. Ekkert var talað um mikla fylgikvilla og alvarleika þessarar stóru aðgerðar og vil ég bæta úr því hér.

Á vef Reykjalundar er að finna ítarlegan bækling um allt er snýr að þessari aðgerð, undirbúningi hennar og eftirköst og er margt fróðlegt sem kemur þar fram (https://www.reykjalundur.is/).

Í bæklingnum er lögð áhersla á að magahjáveituaðgerð sé algjört neyðarúrræði og er sjúklingum ekki hleypt í þessa aðgerð fyrr en þeir hafi sýnt vilja og færni til að framkvæma þær lífsstílsbreytingar sem nauðsynlegar eru ef aðgerðin á að skila langtíma árangri.

Í bæklingnum segir að “Auk aðgerðarinnar verða að koma til lífsháttabreytingar af svipuðum toga og við áhrifaríka megrun án aðgerðar”

Nokkrar staðreyndir um magahjáveituaðgerðir:

 • Þyngdartap er mest fyrstu mánuðina eftir aðgerð og hættir það oftast um 18 mánuðum eftir aðgerð.
 • Eftir 18 mánuði hafa sjúklingar misst að jafnaði um 80% af umframþyngd (BMI >25)
 • Eftir 18 mánuði þyngjast flestir eitthvað aftur og þá er hættan mest að lenda í sama farinu og fyrir aðgerð.
 • Með aðgerð er hætta á fylgikvillum allnokkur (sjá hér á eftir)
 • Til að aðgerð skili virkilegum ávinningi þurfa lífsstílsbreytingar að ganga eftir.
 • Þeir sem ekki ná að koma inn reglulegri hreyfingu inn í lífsstíl sinn eftir aðgerð er hættara við að þyngjast aftur.
 • Erlendar rannsóknir hafa sýnt að sjúklingum sem tekst ekki að sýna árangur fyrir aðgerð, gagnast aðgerðin verst og fá flest vandamál eftir aðgerð. Þessir sjúklingar sinna auk þess yfirleitt ekki eftirliti sem skyldi eftir aðgerð.
 • Reynsla af þessum aðgerðum er að jafnaði góð en enn vantar allar langtímaniðurstöður.
 • Til að einstaklingur sé samþykktur í aðgerð þarf hann fyrst að fara í undirbúningsmeðferð á Reykjalundi (eða á öðrum sambærilegum stofnunum).
 • Fólk byrjar í göngudeildarmeðferð og er ætlast til að fólk sýni að það sé tilbúið að takast á við þær lífsstílsbreytingar sem nauðsynlegar eru til að árangur náist. Gert er ráð fyrir að fólk nái af sér að lágmarki 5% líkamsþyngdar áður en það byrjar fulla meðferð.
 • Fólk fer í gegnum 5 vikna meðferð fyrir aðgerð.
 • Eftirfylgni er í formi viðtala á göngudeild, um er að ræða 7 heimsóknir sem ná yfir 2 ár.
 • Viðmið sem farið er eftir til að velja þá sem komast í aðgerð eru að einstaklingur hafi verið með BMI yfir 45 stig og sé yngri en 60 ára. Einnig er þó litið til annarra þátta eins og áhættuþátta vegna sjúkdóma sem eru afleiðing offitu.

Mögulegir fylgikvillar eftir aðgerð:

Tíðni fylgikvilla strax eftir aðgerð 5 – 7%:

 • Leki á samtengingu milli maga og garna sem veldur lífhimnubólgu, getur verið lífshættulegt – líkur 2,5%
 • Blæðing sem getur valdið því að gera þarf aðra aðgerð – 1 til 2% líkur
 • Sárasýkingar – 1 til 2% líkur
 • Blóðtappi í lungum
 • Lungnabólga

Síðkomnir fylgikvillar:

 • 15% fá magasár fyrsta árið eftir aðgerð
 • 20 – 30% kvenna á barneignaraldri þurfa að taka inn járntöflur reglulega eða fá járngjöf í æð í eina til tvær vikur á ári
 • 10 – 15% nýta ekki nægjanlega B12 vítamín úr fæðunni og þurfa að fá sprautu í vöðva á 2ja mánaða fresti til æviloka
 • Nýting á kalki minnkar og þarf að fylgjast með því ævilangt
 • Um 1% fá kviðslit sem þarf að gera við með aðgerð. Ef hjáveituaðgerðin hefur verið opin eru líkurnar á kviðsliti 15 – 20%.

Aðrir erfiðleikar og fylgikvillar:

 • 20 – 30% þeirra sem léttast hratt fá gallsteina
 • Eftir aðgerð er ekki hægt að magaspegla þann hluta magans sem tengt er framhjá, um 95% magasvæðisins.
 • Ekki er hægt að framkvæma gallrásarrannsókn með speglun eftir aðgerð.
 • Töluvert líti getur orðið vegna umframhúðar því húðin minnkar ekki í takt við þyngdartapið.
 • Fyrstu vikurnar eftir aðgerð geta verið erfiðar og þarf sjúklingur oft að takast á við ógleði, uppköst, kviðverki, hægðartregðu og niðurgang.
 • Blóðsykuróregla er mun meiri og alvarlegri hjá sjúklingum eftir aðgerð. Þeir þurfa því að sneiða algjörlega hjá sykri, sætindum og alkóhóli.
 • Margir verða fyrir töluverðu hárlosi fyrstu mánuðina eftir aðgerð vegna vannæringar. Hárið vex aftur þegar sjúklingur hættir að léttast.
 • Mælt er gegn því að sjúklingur verði barnshafandi fyrstu tvö árin eftir aðgerð vegna vannæringarinnar sem sjúklingur verður óhjákvæmilega fyrir.
 • Fiturík fæða orsakar niðurgang eftir aðgerð
 • Hægt er að framkvæma svokallaða svuntuaðgerð ca. tveimur árum eftir aðgerð, til að fjarlægja umframhúð eða húðfellingar. Þessi aðgerð er á kostnað sjúklingsins sjálfs í dag og er allveruleg
 • Fita meltist illa og veldur meltingaróþægindum, niðurgangi og verkjum. Sjúklingar þurfa því að vera á fitulitlu fæði til frambúðar.
 • Eftir aðgerð er hætta á vökvaskorti og ofþornun ef fólk er ekki nógu duglegt að drekka jafnt og þétt en þó lítið í einu. Því getur fylgt höfuðverkir, ógleði, þreyta og mögulega ruglástand.
 • Sjúklingar þurfa yfirleitt að taka inn ævilangt: fjölvítamín, steinefni, B12 vítamín, fólinsýru, járn og kalk.
 • Margir eiga erfitt með að venja sig á að tyggja nógu vel og borða hægt og lítið í einu. Ef drukkið er eða borðað of hratt þá getur komið mikil ógleði með uppköstum og hætta er á að samtenging maga og garna geti rifnað með alvarlegum afleiðingum.
 • Sykur veldur óþægindum, kviðverkjum og niðurgangi og þarf að sneiða hjá öllum sykri og sætum vörum.

Fæðutegundir sem ber að varast eftir aðgerð eru meðal annars:

 • Djúpsteiktur matur
 • Franskar kartöflur
 • Feitt kjöt
 • Unnar kjötvörur
 • Unnar fiskivörur
 • Rjómi
 • Gervirjómi
 • 18 – 36% sýrður rjómi
 • Rjómaís
 • Jurtaís
 • Jógúrtís
 • Smjör
 • Smjörlíki
 • Olíur
 • Kartöfluflögur
 • Snakk
 • Kökur og tertur
 • Kex
 • Brauðtertur
 • Rjómatertur
 • Súkkulaði
 • Lakkrís
 • Sælgæti
 • Feitar sósur
 • Uppbakaðar sósur
 • Pakkasósur
 • Majones
 • Pítusósur
 • Remoulaði
 • Bearnaiesesósu
 • Rjómalagaðar súpur
 • Smjörbættar súpur
 • Sætir gosdrykkir
 • Sykurskertir gosdrykkir
 • Áfengi
 • Bjór

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Fullorðið fólk líklegra að hljóta beinbrot vegna inntöku þunglyndislyfja

Next post

Fylgni mjólkurneyslu við krabbamein

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *