FæðuóþolMataræði

Gersveppaóþol – hvað má eiginlega borða?

Lára sendi okkur þessa fyrirspurn:

Mig langar að spyrja varðandi gersveppaóþolið. Ég er 25 ára gömul og hef þjáðst af síþreytu og vöðvabólgu frá því … fyrir löngu siðan. Einnig er ég yfirleitt með kláðabólur og jafnvel útbrot á bringunni og í andliti (svo eitthvað sé nefnt).

Ég hef mikinn hug á að taka þetta gersveppaóþol fyrir og athuga hvort það hafi áhrif að breyta um lífstíl en ég veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér… Hvernig veit ég hvort það sé ger eða ekki í vörunni… Er t.d. ger í öllum ostum og öllum kæfum? Þið segið hvítt hveiti, er spelt, rúgmjöl og annað slíkt talið með? Hvað í ósköpunum getur maður borðað? Ég er frekar týnd.

Bestu kveðjur og með von um frekari upplýsingar, Lára

Sæl Lára og gaman að heyra frá þér. Ég skil svo vel hvernig þér líður því ég man svo vel þegar ég var að taka mín fyrstu skref í átt að bættu og breyttu mataræði fyrir 15 árum eða svo. Þetta kallar oft á algjöra umbyltingu á því sem við höfum átt að venjast.

Ég var t.d. alin upp við frekar litla neyslu á grænmeti og ávöxtum. Þannig að ég þurfti að venja mig á að borða þessa fæðuflokka. Og í byrjun fannst mér margt af þessu hreinlega ekkert gott. En góðu fréttirnar eru þær að með breytingunni þá byrjum við hægt og rólega að endurforrita bragðlaukana og smekkur okkar breytist hægt og sígandi.

Einnig man ég eftir því, eins og þú talar um, hvað ég var týnd í upphafi. Mér fannst ég hreinlega ekki mega borða neitt. Það var sykur, hvítt hveiti og ger í nær öllu sem ég fann í skápunum hjá mér. Það leynist t.d. mjög víða sykur í niðursuðudósum og nær algilt er að sykri er bætt í kjötálegg.

En ekki láta bugast, maður þarf bara að læra upp á nýtt og læra inn á nýjar vörur. Ég lofa þér því að ef þú heldur út í þrjá mánuði áttu eftir að upplifa þig sem algjörlega nýja manneskju. (Þú mátt endilega senda okkur línu þegar þar að kemur og deila með okkur reynslu þinni af breytingunni).

Nokkrar ábendingar:

Brauð: Hægt er að versla súrdeigsbrauð í Brauðhúsinu í Grímsbæ. Brauðin fást einnig í heilsubúðum og í einhverjum stórmörkuðum, eins og Hagkaupum. Varastu gerlaus brauð í bakaríum því þau innihalda langoftast sykur.

Álegg: Þú spyrð um kæfur og osta. Kæfur innihalda gjarnan ger eða sykur. Hægt er að fá gerlausar kæfur í heilsuverslunum. Einnig skaltu varast að oft er mikið af e-efnum í kæfum en þau ættir þú að forðast sem mest. Það er ágætis þumalfingursregla að kaupa ekki vörur sem eru með fleiri en tveimur e-efnum. Hvað ostana varðar þá ráðlegg ég þér að prófa þig áfram. Sumir þola brauðost en varastu alla mygluosta, þ.á.m. osta með hvítri myglu, eins og brie og camembert. Vertu dugleg að skera þér grænmeti ofan á brauð. Í heilsubúðum færðu ljúffeng hnetu- og möndlusmjör sem eru án sykurs. Einnig finnst mér hummusinn alltaf ljúffengur. Það er kæfa sem er búin til úr kjúklingabaunum. Þú finnur uppskrift af hummus hér á síðunni.

Matreiðsla: Eldaðu úr óunnu hráefni. Keyptu ferskan fisk og óunnið kjöt. Svo er líka gaman að prófa sig áfram í grænmetisréttum. Varastu kryddblöndur nema frá Pottagöldrum en passaðu þig samt að lesa innihaldslýsingu. Einnig er hægt að finna úrval góðra krydda í heilsuverslunum. Þar geturðu einnig keypt gerlausan grænmetiskraft í stað teninganna sem þú ert sennilega vön að nota. Þú færð líka gerlausa kraftinn í stórmörkuðum sem eru með heilsuvörur.

Pasta: Hættu alveg að kaupa hvítt pasta og skiptu yfir í spelt- eða heilhveitipasta. Einnig er hægt að kaupa pasta úr t.d. bókhveiti og hrísgrjónum.

Hrísgrjón: Hættu að nota hvít grjón og skiptu alfarið yfir í híðishrísgrjón.

Mjöl: Hvítt hveiti skaltu hætta að nota. Í staðinn getur þú notað gróft spelt, rúgmjöl, heilhveiti, kjúklingabaunamjöl og svona má lengi telja.

Svo er bara að vera dugleg að hafa fjölbreytni í fæðuvali. Nota fjölbreyttar tegundir grænmetis og búa t.d. til morgungraut til að falla ekki í það að borða brauð í öll mál.

Ég bendi þér að lokum á að lesa geinina Nánar um mataræði við gersveppaóþoli.

Gangi þér vel í átt að betri líðan og bættri heilsu.

Hildur M. Jónsdóttir.

Previous post

Glútenóþol

Next post

Nánar um mataræði við gersveppaóþoli

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *