MataræðiUppskriftirÝmis ráð

Heitasta heilsuhráefnið 2008

Pistill frá Sollu

Græna völvan opnar sig…….

Skyggn fyrirsæta
Þegar ég var yngri þá elskaði ég allt sem snéri að spádómum. Ég man þegar það var lesið í lófann á mér í fyrsta skiptið. Þá var ég 6 ára gömul og stödd upp í Kerlingarfjöllum. Verið var að mynda útlenskan tískuþátt með skíðafötum og þarna var þessi guðdómlega fallega fyrirsæta sem átti að leika mömmu mína í tískuþættinum (fyrsta og eina fyrirsætustarfið mitt). Í einni pásunni grípur hún um hendina mína og rýnir í litla lófann minn og fer að segja eitthvað á útlensku með ótrúlega seiðandi röddu. Á þeirri stundu ákvað ég að verða skyggn fyrirsæta þegar ég yrði stór.

“Þú verður mjög gömul kona, hraust og hamingusöm” sagði hún og horfði síðan lengi í litla lófann. “En það er eins og líf þitt verði í 2 hlutum, mér sýnist þú deyja en svo lifnarðu við aftur og eignast alveg nýtt líf og verður mjög gömul og hamingjusöm.” Þetta olli litla ljósa kollinum mínum miklu hugarangri og ég spurði pabba oft hvort hægt væri að deyja og lifna við aftur og aftur. “Þetta er bara táknrænt elskan mín” sagði pabbi og reyndi að róa litla viðkvæma taugakerfið og útskýra af sinni einskæru lagni hvað táknrænt þýddi.

Þegar ég lít yfir líf mitt rúmum 40 árum síðar þá sé ég að fyrirsætan bjó yfir dulrænum hæfileikum. Líf mitt breyttist t.d. algjörlega þegar ég breytti um mataræði á sínum tíma. Ég fékk algjörlega nýtt líf……

“Það kom svo sterkt til mín”
Þegar ég kynntist hveitigrasinu, fyrir um 12 árum síðan, þá var ég viss um að þetta væri það nýjasta sem myndi tröllríða heilsuheiminum. Það bara kom svona ótrúlega sterkt til mín…… Ég kom heim og byrjaði á að rífa út eldhúsinnréttinguna mina og setja upp gróðurhillur og fór að rækta hveitigras sem ég seldi á Grænum Kosti við mikinn fögnuð fárra en traustra fastakúnna. Meðal þeirra voru Jakob Frímann stuðmaður, Landsbankahjónin Þóra og Björgólfur og útvarpsmaðurinn þjóðkunni Jónas Jónasson.

Fljótlega fór ræktunin að vefja upp á sig og um leið að vaxa mér í augum og eftir nokkra mánuði hafði ég samband við Hafberg vin minn í Lambhaga og bað hann að fara að rækta hveitigras, þetta væri nýjasta æðið í heilsuheiminum. Hann þyrfti að vera viðbúinn að þurfa jafnvel að stækka við sig gróðurhúsin þegar landinn tæki við sér….. Hafberg er opinn og góður maður og ákvað að fara að rækta hveitigras fyrir mig. Hann hringdi í mig svona 2svar á ári næstu 8 árin og spurði mig hvort landinn væri nú ekki að fara að taka við sér. “Þetta er alveg að fara að bresta á Hafberg minn” sagði ég alltaf jafn viss, “það bara kemur svoooo sterkt til mín.”

Og viti menn, allt í einu brast æðið á, landinn tók við sér og nú hefur Hafberg vart undan…… Það er pressað hveitigras hægri vinstri út um allan bæ. Ókei, mér skeikaði nú kannski um nokkur ár, en þetta kom og er aldeilis komið til að vera. Það er enn að koma ýmislegt til mín. Ég hef reyndar velt því fyrir mér hvort ég ætti ekki að fara í smá starfsnám hjá Völvunni, til að geta verið aðeins nákvæmari með tímasetningarnar.

 

Árið 2008

Aldrei verða fleiri sem byrja árið á grænum hristingum. Eins og okkur íslendingum einum er lagið, sláum við met í spínatinntöku. klettasalat og grænkál verða eitt af fyrstu orðunum sem lítil börn læra á eftir pabbi, mamma og datt. Græna alkalive duftið mun verða ótrúlegt “hæp”, við sjáum fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins skottast um með grænan vökva á endurnýttum ½ lítra gosflöskum. Jafnvel á kaffistofu Aþingis verður hægt að fá sér grænt í glas sem er blanda af hveitigrasi, grænu dufti og grænu tei, og þingmenn þjóðarinnar munu brillera, þeir verða skýrari í kollinum og geta því stytt mál sitt til mikilla muna án þess að innihaldið rýrist.

Þeir sem ekki treysta sér í græna litinn verða húkkt á kókosvatninu og nota það jafnt í sejika sem í svaladrykki. Kornsafinn mun “massa það” og fólk fara að brugga hann í lítravís og yngjast í kjölfarið. Í febrúar munu Goji berin koma sterk inn, þessi andoxunarbomba verður nýjasta snakkið, við sjáum glitta í poka með þessum rauðu berjum í vasa jafnt smábarna sem stórlaxa. Þegar líða tekur að páskum mun kakónibbsið mæta til leiks og della grípur landann í að búa til sín eigin páskaegg úr heimagerðu ekta súkkulaði – fæði guðanna – þar sem blandað er kakónibbsi útí, bæði möluðu og í litlum bitum. Þeir sem ekki treysta sér í páskaeggjagerðina munu slá í gegn með frumlegum konfektmolum, sem hafa þá eiginleika að viðkomandi grennist við að borða þá. Hr. Hagkaup þeytist sveittur á milli búsáhaldasýninga í að leita að því nýjasta og heitasta í konfektforma heiminum.

Eftir páska byrjum við á basafæði til að koma jafnvægi á sýrustig kroppsins og til að komast í bikiníið og þeir hörðustu borða salat með spírum allt að 6 sinnum á dag. Þær fréttir koma frá Lýðheilsustofnun að kaldpressaða kókosolían sé glimrandi í hófi. Í sumar fara fáir í fjallgöngur án þess að vera með chia fræin í litu boxi í vasanum. Indjánarnir fóru aldrei án þessara orkugefandi fræja í sínar ferðir. Í haust mun verða skemmtilega mikið úrval af íslensku lífrænt ræktuðu grænmeti, bara aldrei verið meira og hvert sölumetið slegið á fætur öðru í sölu á bæði gúrkum, gulrótum og grænkáli.

Eitthvað er sambandið við framtíðina að rofna, enda kannski kominn tími til að setja punkt. Ég mun í næstu pistlum fræða ykkur nánar um ýmislegt það hráefni sem “kom til” grænu völvunnar…….

Hlakkið til, en þangað til getið þið dundað ykkur við að gera tilraunir og rækta hveitigras, ef það mistekst þá hefur Hafberg í Lambhaga aldrei verið duglegri við að rækta og þið getið skroppið í bíltúr til hans og kippt með ykkur bakka heim.

Gangi ykkur sem allra best
Kær kveðja

Solla

 

Hveitigras

Kornsafi

Þessi grein birtist fyrst á vefnum 21. januar 2008
http://www.heilsubankinn.is/vefur/index.php?option=com_content&task=view&id=1098&Itemid=99999999

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Áhrif gosdrykkju

Next post

Undur hráfæðis

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *