MataræðiUmhverfiðUmhverfisvernd

Hendum þriðjungi af keyptum mat

 

Í síðasta blaði Neytendasamtakanna var sagt frá niðurstöðum breskrar rannsóknar sem skoðaði sóun á matvælum. Rannsakaður var allur matarúrgangur 2000 heimila í landinu og var hann flokkaður og vigtaður, auk þess sem heimilismenn héldu ítarlegar dagbækur yfir allt sem hent var, með útskýringum á hvers vegna mat var hent.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að fólk hendir um þriðjungi þess matar sem það kemur með inn á heimilið. Þar af eru eingöngu 19% sem alls ekki er hægt að nýta betur, en stærsti hlutinn var óþarfa sóun, eða um 61%.

Það sem ekki er hægt að nýta betur eru til dæmis bein, kaffikorgur og ávaxtahýði. Óþarfa sóunin tók til matvæla sem hefði verið hægt að borða ef betur hefði verið haldið á málum.
Það helsta sem lenti í ruslinu voru kartöflur, bæði soðnar og ósoðnar, mikið af brauði, ávextir og salat. Það sem mest var hent af, eftir eldun, voru kartöflur, hrísgrjón og pasta sem segir okkur að fólk eldar of mikið í einu. En þá er líka um að gera að nýta svona afganga í matreiðslu næsta dag eða frysta þessa afganga og bæta þeim í heita rétti síðar.
Algengasta skýringin sem fólk gaf fyrir því að henda mat var afgangur á diski eftir máltíð. Það segir okkur að fólk fær sér of mikið á diskinn. Ef fólk fengi sér ekki þetta umframmagn á diskinn væri hægt að nýta þessa afganga.
Næst algengasta skýring fólks á því að henda mat var útrunninn vara. Eftir því kom að matvaran leit ekki nógu vel út, t.d. slappt grænmeti, í fjórða sæti var að matur var myglaður og í því fimmta að eldað var of mikið.
Kostnaður við þessa sóun er gríðarlegur og er áætlað að bresk heimili hendi að meðaltali 150 kílóum af mat á ári, sem hefði verið hægt að nýta.

Það má gefa sér að sóun okkar Íslendinga sé ekki minni en Bretanna og er að miklu að vinna ef fólk tileinkar sér meiri hagkvæmni. Mörgum finnst nóg um þann kostnað sem fer í matarinnkaup og ef við áttum okkur á því að jafnvel yfir 30% þess fer beint í ruslið þá blöskrar væntanlega mörgum.
Fyrst er að hafa í huga að kaupa ekki nema það sem stendur til að nota. Gott er að gera matseðla fyrir daginn eða vikuna og versla inn samkvæmt þeim. Það er varasamt að versla eitthvað bara af því það er svo ódýrt.
Annað mikilvægt atriði er að fara reglulega í gegnum ísskápinn því algengt er að við hendum vörum sem týnast aftast í ísskápnum þar til þær eyðileggjast. Gott er að fylgjast með því hvaða mat þarf að nýta áður en hann skemmist og elda þá samkvæmt því.
En það verður alltaf óhjákvæmilegt að henda einhverjum mat en kúnstín er að takmarka það magn eins og kostur er. En gott er að hafa í huga að mikið af þeim mat sem endar í ruslinu er kjörið að nota til moltugerðar til að minnka sorpmagnið.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í nóvember 2008

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Aukinn þrýstingur á erfðabreytt matvæli

Next post

Getum við dregið úr plastnotkun?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *