Greinar um hreyfinguHreyfing

Hjólreiðar

Með hækkandi sól og gróðurangan í lofti, sjást fleiri og fleiri hjól á götunum. Nú er um að gera að láta verða af því að dusta rykið af jálknum eða fjárfesta í hjólinu sem alltaf stóð til að kaupa. Og skella sér svo af stað með börnunum, makanum eða hjólafélaganum.

Hjólreiðar geta verið margþættur gleðigjafi. Þær veita okkur tækifæri til útiveru, þær geta staðið fyrir skemmtilegum samverustundum fyrir fjölskylduna, þær eru úrvals íþrótt til að koma sér og halda sér í formi og svo er ekki amalegt að geta lagt bílnum um stund og sparað á þann hátt sífellt hækkandi kostnað við eldsneytiskaup.

Frá árinu 2003 hefur Íþrótta- Ólympíusamband Íslands staðið fyrir heilsu- og hvatningarverkefninu “Hjólað í vinnuna”. Markmið verkefnisins er að vekja athygli á þessum virka, heilsusamlega, umhverfisvæna og hagkvæma ferðamáta. Átakið fer fram í þrjár vikur í maí ár hvert. Hér getið þið lesið meira um átakið. (https://www.hjoladivinnuna.is/um-hjolad/)

Það er með hjólreiðar eins og allar aðrar íþróttir, að það gildir að byrja rólega og byggja upp styrk og þol. Gott er að stefna að því að geta hjólað þrisvar í viku í 90 mínútur í senn, án þess að taka sér hvíld. Það tekur fólk mislangan tíma að ná þessu markmiði. Aðalatriðið er að byrja hægt.

Ef þið eruð að fjárfesta í nýju hjóli skuluð þið fá starfsmann í versluninni til að aðstoða ykkur við að stilla hnakkinn og stýrið í rétta hæð og stöðu fyrir ykkur. Hæðin á hnakknum miðast venjulega við það að þið getið hvílt hælinn á fótstiginu í neðstu stöðu þegar þið sitjið í hnakknum. Staðan á fótleggnum á að vera rétt niður frá hné, ef ekki þá þarf að færa hnakkinn fram eða aftur.

Álagið við hjólreiðar er á fótleggjunum og hreyfingarnar eiga sér stað í mjöðmum og fótleggjum. Mikilvægt er að slaka á í efri hluta líkamans og fyrirbyggja óeðlilega spennu, sérstaklega í hálsi og herðum. Ef þið fylgist vel með önduninni, að hún sé regluleg og óspennt, getur það hjálpað til við að ná réttri slökun. Varist að hnén leiti út til hliðanna þegar hjólað er. Þau eiga að vera í beinni línu upp frá fótstiginu. Munið einnig að teygja vel í lokin eins og eftir allar aðrar æfingar. Teygjurnar koma í veg fyrir eymsli og meiðsli.

Svo er bara að muna að það er aldrei veðrið sem stoppar mann frá því að fara út að hjóla, það er bara spurning um að vera rétt klæddur. Og munið eftir hjálminum!

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir 

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Hinn sanni jólaandi og jógaiðkun

Next post

Endorfín - vímuefni líkamans

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *