Jólapappírinn
Það er gríðarlegt auka pappírsflóð sem myndast í kringum jólahátíðina. Endurvinnslustöðvarnar byrja að finna fyrir auknu álagi strax í október þegar verslanirnar fara að taka upp jólavörurnar og allar umbúðirnar fara að fljóta inn á Sorpu.
Gríðarlegt magn alls kyns prentaðs efnis fer í umferð og sem betur fer fara alltaf fleiri og fleiri með þessa auglýsingabæklinga og snepla í endurvinnslu.
Mikið af pappír og umbúðum falla til á hverju heimili þegar búið er að taka upp jólapakkana á aðfangadagskvöld. Varist að láta jólapappírinn í endurvinnslu. Hann þarf að fara með venjulegu heimilissorpi þar sem hann er ekki endurvinnanlegur.
Hins vegar er fólki bent á að allar aðrar umbúðir utan af jólagjöfunum eru yfirleitt endurvinnanlegar, svo sem pappaumbúðir, plast og bylgjupappi. Um að gera að koma því á endurvinnslustöðvarnar.
Svo er góð hugmynd að nota endurvinnanlegan pappír utan um jólagjafirnar. Góð leið er að nota brúna umbúðarpappírinn sem hægt er að versla í öllum ritfangaverslunum, skreyta hann með því að teikna, mála eða stimpla á hann með fallegum litum og skreyta hann með borðum og slaufum. Á þennan hátt verða gjafirnar miklu persónulegri og meira spennandi.
Svo rakst ég á prýðisgóða ábendingu á blogginu þar sem kona bendir á að endurnýta jólapappírinn. Bara að taka gjafirnar upp á varfærinn hátt þennig að pappírinn rifni ekki og svo er gott að geyma hann með merkimiðunum til næstu jóla þannig að sami pappír rati ekki í sömu hendur aftur.
Ef þið farið þessa leið þá er um að gera að geyma pappírshólkana innan úr pappírsrúllunum sem notaðar eru og vefja notaða pappírnum upp á þær. Þannig geymist pappírinn sérlega vel og verður sléttur og fallegur að ári.
Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir
No Comment