MataræðiUppskriftirÝmis ráð

Meðlætissalöt – með öllum mat

Um daginn sat ég á kaffihúsi með 10 konum, við vorum bara að “tjilla” og rabba. Síðan berst talið að mataræði. Það kom í ljós að flestar þessar konur voru virkilega að spá í mataræðið sitt. Þær lögðu sig fram við að lesa utan á umbúðir, spá í hráefnið, hvað væri nauðsynlegt að hafa lífrænt og ýmislegt fleira.

“Mér finnst að allir ávextir verði að vera lífrænir” sagði ein. “Mér finnst allir ávextir sem maður borðar með hýðinu verða að vera lífrænir, en kannski ekki þeir sem þú hvort sem er afhýðir” sagði önnur. Einni fannst að það ætti að banna að selja kál sem væri ekki rekjanlegt og ósprautað á meðan stöllu hennar fannst að auka yrði úrvalið á káli almennt.

Mér fannst ótrúlega gaman að sitja og fylgjast með, var ekkert mikið að “kommentera” heldur bara að hlusta. Þessar flottu konur voru óþreytandi að hafa skoðanir og spjalla um mataræði og mat og ég áttaði mig á því að það eru ekki eftir margar manneskjur á okkar litla landi sem spá ekkert í hvað þær eru að setja oní sig og sína. Þessar konur voru reyndar staddar á mjög misjöfnum stað með sjálfa sig og familiuna hvað mataræði og hráefni varðar. En eitt áttu þær sameiginlegt. Þeim fannst þær vanta uppskriftir af fjölbreyttu meðlæti eða meðlætissalötum með mat.

“Mér finnst ekkert mál að elda baunabuff fyrir mig og hakkabuff fyrir þau” sagði ein, “en mér finnst ótrúlega flókið að finna gott meðlæti sem við öll getum borðað annað en hrísgrjón og grænt salat.” Og viðbrögðin létu ekki á sér standa. “Gæti ekki verið meira sammála, ég hendi oft einhverju hakki á pönnuna fyrir þau og gufusýð smá laxabita fyrir okkur, en er ótrúlega geld með meðlætið.” Þá snéri sér ein að mér og spurði hvað ég gerði?

Það sem mér fannst merkilegt við þessar umræður var að það hafði ýmislegt breyst. Því fyrir nokkrum árum var aðalrétturinn vandamálið. Þá var bara soðin hrísgrjón, kartöflur eða kartöflumús, búið til salat og málið dautt hvað meðlæti varðar. Vandamálið var aðalrétturinn. Það þótti þvílíkt flókið að elda fisk oní einn og grænmeti oní annan eða kjötrétt í einn og grænmetisrétt í annan.

Það sem þetta segir mér er m.a. að fræðslan hefur skilað sér og úrvalið hefur aukist. Það þykir ekkert tiltökumál að ekki allir vilji kjöt eða fisk eða grænmetisrétt. Hver og einn hefur sína hentisemi þar, það er orðið svo mikið úrval bæði af tilbúnum réttum og einföldum uppskriftum að við setjum þetta ekkert fyrir okkur, meira að segja reiknum með þessu í sumum tilfellum. Hins vegar var það merkilegt að heyra að núna var það meðlætið sem var að flækjast fyrir fólki. “Ég geri alltaf sama salatið” sagði ein. “Ég er líka svona” sagði önnur, “svo gjörsamlega hugmyndasnauð þegar kemur að þessu.”

Þegar ég er að matreiða fyrir okkur fjölskylduna þá hef ég vanið mig á að vera alltaf með grænt salat, alltaf. Og það salat er bara grænt, nema það sé aðalrétturinn og þá er það matmikið salat sem er í matinn. Ástæðan er sú að mér finnst græna salatið verða svo sjúskað ef ég geri stóra skál fulla af salati með matnum, set út í það fullt af skornu grænmeti og svo er ekki allt klárað og þá geymist þetta mjög illa. Ef aftur á móti við höfum græna salatið alveg sér þá er mikið auðveldara að nota það aftur daginn eftir það sem ekki var borðað.

Í staðin bý ég mikið til meðlætissalat. Það getur verið af ýmsum toga. Mín fjölskylda hefur t.d. tekið ástfóstri við marinerað grænmeti, og ef það er ekki klárað á mánudegi þá geymist það vel í loftþéttu íláti og er fínt á miðvikudeginum eða fimmtudeginum……. Sama gildir með græna salatið. Mér finnst nefnilega að þegar við erum farin að spá meira í hráefnið, hafa það af sem bestu gæðum þá skiptir máli að nýta það sem best og láta sem minnst fara til spillis. Ég er svo oft spurð að því hvort ég eyði ekki formúum í matarinnkaupin, lífræn sem ég er.
Svarið mitt er: Góð uppskrift – krydduð með hagkvæmni + útsjónarsemi = himnesk hollusta fyrir kroppinn og pyngjuna…..

Ég ætla að gefa ykkur nokkrar hugmyndir af góðu meðlæti og ég hvet ykkur til að vera aðlaga þær að ykkar bragðlaukum og hráefni.

Gangi ykkur sem allra best.
Solla

Marinerað salat með tamari fræjum

Tamarifræ

Eplasalat

Speltpastasalat m/pestó + sólþurrkuðum tómötum

Heimatilbúið pestó

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Spergilkál í lið með ónæmiskerfinu

Next post

Að léttast með hunangi

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *