Greinar um hreyfinguHreyfing

Mikilvægi hreyfingar

Við vitum öll hve nauðsynlegt það er að stunda einhverja hreyfingu. Öll hreyfing er góð og best er, ef að hún er regluleg. Hreyfing, hver svo sem að hún er, á að vera hluti af daglegu lífi hverrar manneskju. Ekki bara til að halda líkamsvigtinni í lagi, heldur og ekki síður til að halda ónæmiskerfinu í góðu jafnvægi.

Ný rannsókn var gerð á 115 konum, þær voru allar komnar yfir breytingaskeiðið, voru í yfirvigt og voru kyrrsetumanneskjur. Var helmingur þeirra settur í reglulega leikfimistíma og hinn helmingurinn í vöðvateygjutíma 1 sinni í viku. Rannsóknin stóð yfir í eitt ár og var gerð með það í huga að finna út tengslin á milli líkamlegrar þjálfunar og áhrif hennar á venjulegt kvef.

Í ljós kom í lok rannsóknarinnar að þær konur sem að höfðu verið í reglulegri þjálfun stóðu af sér kvefpestir helmingi oftar en þær sem að ekki voru í sömu þjálfun. Og þær sem að stóðu sig best í þjálfuninni fengu síst kvef. Ónæmiskerfi þeirra varð sterkara og í betra jafnvægi eftir því sem leið á rannsóknina og sýndi síðasti þriðjungur hennar fram á bestan árangur.

Þessar niðurstöður sýna glögglega, góð áhrif reglulegrar hreyfingar á varnir líkamans gegn pestum. Í raun ætti að horfa á reglulega hreyfingu sem einn af þeim valkostum, fyrir lækna og meðferðaraðila, að skrifa uppá handa skjólstæðingum sínum. Skrifað er uppá sjúkraþjálfun fyrir þá sem þurfa á slíkri meðferð að halda og eins ætti að vera skrifað uppá hreyfingu.

Mikið framboð er af líkamsræktarstöðvum af öllum stærðum og gerðum á Íslandi. Flestar eru þær vel sóttar og er það vel. En hreyfing þarf ekki endilega að vera stunduð í slíkum stöðvum. Ekki er öllum sem að líkar að fara inná fjölmennar stöðvar og kjósa frekar að stunda sína hreyfingu í meiri rólegheitum. Möguleikarnir eru endalausir, það er um að gera að prófa sem flest og finna það sem að hentar hverjum og einum.

Fyrir þó nokkru fór umræða af stað inn á Alþingi um nauðsyn hreyfiseðla fyrir heilbrigðiskerfið. Sennilega var það í kjölfarið á samþykkt Heimsþings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í maí 2004, um að í fyrsta sinn yrði gerð aðgerðaáætlun um næringu, hreyfingu og heilsu sem nær til allra aðildarlanda (Global strategy on diet, physical activity and health.) Þar beindi stofnunin sjónum heims að ótvíræðu vægi góðrar fæðu og hreyfingar fyrir heilsu.

Í áætluninni er hvatt til aukinnar neyslu á grænmeti, ávöxtum, hnetum og baunum, ásamt daglegri hreyfingu í a.m.k. 30 mínútur á dag. Eins er þar brýnt fyrir þjóðum heims að bregðast við offitufaraldrinum sem breiðist út um víða veröld, ekki aðeins meðal ríkra þjóða, heldur einnig fátækra þróunarríkja. Holl næring og næg hreyfing eru þeir umhverfisþættir sem vega hvað þyngst í baráttunni við sjúkdóma.

Enn er þetta að veltast í kerfinu og er verið að flytja tillöguna í þriðja sinn. Verið er að skipa nefnd til að undirbúa þesslags valkost og á nefndin að skila tillögum í júní 2007. Þetta virðist því allavega vera í farvegi og verðum við að trúa því statt og stöðugt að góðir hlutir gerast hægt.

Til að skoða málið frekar: http://www.althingi.is/altext/133/s/0099.html

Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í nóvember 2006

Previous post

Rétt líkamsbeiting

Next post

Hreyfing og mataræði

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *