HeimiliðSnyrtivörur

Nokkur náttúruleg ráð fyrir húðina

Húðin er stærsta líffærið okkar og það sýnilegasta. Hún gegnir fjölmörgum hlutverkum eins og að verja líffæri gegn meiðslum og sýkingum. Hún ver okkur fyrir sólbruna, ofþornun og hitabreytingum. Hún framleiðir D vítamín og gefur okkur kost á að skynja áferð umhverfisins, hart, mjúkt o.s.frv.

Í húðsnyrtivörum eru yfirleitt fjölmörg tilbúin efni sem eiga að gera kraftaverk fyrir húðina. Virkni þeirra er misjöfn og sumir eru fullir efasemda um að smyrja slíkum efnum á sig. Á pakkningunum eru jafnvel varúðarorð um skaðsemi efnanna séu þau notuð í óhófi eða þau innbyrgð. Sumir setja því spurningarmerki við hvort heilbrigt sé að nudda þeim á húðina, því auðvitað fara efnin smám saman inn í líkamann og geta þau safnast þar upp með slæmum afleiðingum.

Hér eru nokkur ráð um hvernig næra má húðina vel á náttúrulegan, einfaldan og ódýran máta. Þetta á að sjálfsögðu ekki eingöngu við húðina í andlitinu heldur á öllum líkamanum.

Sérstaklega gagnlegt húðinni er að taka inn Omega 3 fitusýrur. Húðin verður mýkri fyrir bragðið og síður þurr. Yfir vetrarmánuðina og í miklum kuldum getur verið gagnlegt að auka inntökuna.

Vökvinn úr Aloe vera plöntunni þykir einkar góður fyrir húðina. Í honum eru um 75 mismunandi næringarefni og vítamín. Flestir þekkja til græðslumáttar vökvans en gott er að setja hann á bruna og fleiðusár. Vökvinn ýtir líka undir framleiðslu collagens og elastins sem eru nauðsynleg fyrir uppbyggingu og teygjanleika húðarinnar.

Kókosolía úr kaldpressuðum kókosolíum er talin gefa húðinni raka og verja hana gegn skaðlegum geislum sólar. Hún ýtir undir uppbyggingu nýrra vefja í húðinni, er græðandi og dregur úr öldrun. Talið er að Kleópatra hafi notað kókosolíu sem fegrunarkrem sitt.

Lífræn Jojoba olía er raunverulega fljótandi vax úr kaldpressuðum plöntum. Olían fer djúpt ofan í húðina og hjálpar við að koma jafnvægi á rakastig hennar. Olían er nærandi og ýtir undir teygjanleika húðarinnar. Hún er almennt mjög viðurkennt fegrunarefni og þykir vinna gegn hrukkumyndun.

Auk þessara ofantöldu náttúrulegu efna eru fjölmargar olíur og efni sem þykja góð húðinni. Þess skal þó gæta að efnin séu hrein og ekki búið að blanda tilbúnum efnum við þau.

Höfundur: Helga Björt Möller

Previous post

Skaðleg efni í "náttúrulegum" snyrtivörum

Next post

Er tannkremið þitt "náttúrulegt"?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *