MataræðiUppskriftirÝmis ráð

Ofurfæða – Ofurmömmur

Pistill frá Sollu

Þegar ég var lítil passaði mamma alltaf vel uppá hvað ég borðaði. Hún gaf mér gjarnan söl (föðurættin mín er úr Eyjum), krækiberjasafa, mjólkursýrt grænmeti, fjallagrasasúpu, baunabuff, möndlur, jurtate, krúska (búið til úr heilum höfrum) brokkolí, hundasúru og fíflasalat, sýrðar rauðrófur, rifnar gulrætur, spírur og fleira í þessum dúr.

Henni var mikið í mun að ég fengi minn skammt daglega enda var ég lítið, mjótt og viðkvæmt strá. Ég var með ofnæmi fyrir lýsi og mamma var ekki mikið fyrir að gefa okkur vitamin, fannst við eiga að geta fengið allt úr matnum. Flest af þessum mat var heimaræktað, “heimatínt” eða heimagert. Enda tíðkaðist að fara til berja, tína jurtir og grös, rækta grænmeti, láta spíra o.fl.

“Heimilistækið” var forlát hrærivél sem var hægt að breyta í hakkavél, hnoðara, safapressu, vanilluhringjavél m.m. Þessi vél var notuð til að búa til krækiberjasafann, hnoða brauðið, hakka baunirnar, búa til smákökudeigið, já hún var hreinlega notuð í allt.

Þegar ég lít til baka í dag sé ég að mamma var ekki bara að gefa mér ofurfæðu sins tíma, heldur var hún ofurmamma. Hún fór til berja og sultaði og saftaði, tíndi sveppi sem hún bæði þurrkaði og smjörsteikti, ræktaði grænmeti, frysti það og sýrði, tíndi jurtir og grös í seiði og te, bakaði brauð, kökur og pítsur, hakkaði baunir í buff og búðinga, kenndi á hljóðfæri í fullu starfi, saumaði fötin á okkur systkinin, hlúði að heimilisblómunum og fór í sund og frönskutíma.

Það er skrýtið til þess að hugsa að á sama tíma og mamma var að sýsla þetta hér uppi á Íslandi þá var kynsystir hennar að gera eitthvað svipað í Perú, nema að sú var að rækta macarót, þurrka hana og mala, og í Kína var einhver frú Ling Lang að verka Gojiber samhliða fatasaumi og frönskutímum.

 

Hvað er ofurfæða?

Skilgreiningin á ofurfæðu er sú að hún hafi meiri næringu en gerist og gengur með venjulegar fæðutegundir. Bláber flokkast t.d. undir ofurfæðu eða ofurávexti vegna þess hve einstaklega rík þau eru af andoxunarefnum, þráavarnarefnum, c-vítamíni, magnesium og trefjum sem sögð eru nauðsynleg heilsu okkar.

Það eru fullt af fæðutegundum sem við þekkjum og borðum dags daglega sem eru flokkaðar sem ofurfæða, t.d.:
alfalfa spírur, avókadó, baunir, brenninetla, brokkolí, engiferrót, graskersfræ, grænt te, heilir hafrar, hörfræolía, krækiber, möndlur, rauðrófa, sellerí, sesamfræ, spínat, steinselja, tómatar, vatnakarsi svo eitthvað sé nefnt. Þetta þekkjum við flest öll og ég gæti best trúað því að um 80% af venjulegu fólki nota um 50% af þessum fæðutegundum reglulega og er það bara mjög gott mál fyrir kropp og koll, við verðum bara hraustari við þessa neyslu svo framarlega sem við pössum okkur á að borða fjölbreytt.

Síðan eru nokkrar ofurfæðutegundir sem eru orðnar soldið þekktar eins og: aloa vera, bee pollen, himalayakristals salt, hrátt hunang, hveitigras, kaldpressuð kókosolia, kókosvatn, sítrónugras, spírulína, söl, Þeim fer fjölgandi sem kannast við þessar fæðutegundir.

Færri þekkja aftur á móti camu camu, chiafræ, durian, fjólublátt maísduft. gojiber, hampoliu, kakó nibs, lucumaduft, maca, mesquiduft.

Þeir sem þetta þekkja eru flestir einhverskonar heilsunördar. Þetta hráefni er reyndar afar þekkt í sínu “heimalandi” og stóran part af þessu nota “innfæddir ” daglega sem part af sínu mataræði. Alveg á sama hátt og við notum krækiberin, fjallagrösin og sölin okkar. Ekkert af þessu hráefni er eitthvað dularfullt eða skrýtið, en það sem við ekki þekkjum erum við eðlilega soldið hikandi gagnvart. Það þarf bara meiri fræðslu. Mjög algengt er að borða hráefnið beint sbr. Gojiberin eða búa úr því eitthvað annað hollt og gott.

 

Allt hefur 2 hliðar

Eins gott og mikið gagn þetta gerir fyrir kroppinn þá hefur allt 2 hliðar. Við erum komin inn á grátt svæði þar sem matur og náttúruleg fæðubótarefni krossast. Það þurfum við að hafa hugfast þegar við borðum þetta því margt af þessum fæðutegundum er mjög kröftugt svo það borgar sig að gæta hófs. Ef við t.d. borðum 3 pakka af sölvum þá er líklegt að við fáum niðurgang, eða ef við drekkum 3 glös af hveitigrasi þá gubbum við lungum og lifur og verðum jafn græn í framan og grasadjúsið.

Ég ætla að fræða ykkur um nokkrar af þessum svo kölluðu ofurfæðutegundum og gefa ykkur uppskrift og hugmyndir af því hvernig hægt er að nota það.

Gangi ykkur sem allra best
Solla

Maca – Lepidium Peruvianum Chacon
Macaduftið er unnið úr maca rótinni sem vex í hæstu hæðum Andesfjalla. Rótin er þurrkuð og möluð og úr verður þetta sérstaklega næringarríka duft enda er maca oft líkt við ginseng og kallað perú-ginseng eða brasilíu-ginseng, en það á ekkert skilt við ginseng annað en áhrifin á kropp og koll.

Maca er mjög orkugefandi, eykur einbeitingu og úthald. Einnig er það algjör snilld fyrir okkur konurnar sem erum farnar að verða eins og bilaður ofn….. sérstaklega þegar breytingarskeiðið bankar uppá. Margar konur tala um að maca duftið haldi þessum einkennum í skefjun. Innfæddir segja það vera vegna þess að þegar rótin er að vaxa þarf hún bæði að þola mikla hita og mikinn kulda og hefur því þá eiginleika að koma á jafnvægi. Auk þess er maca stútfullt af vítamínum, stein og snefilefnum, ensýmum og aminosýrum. Það inniheldur mikið af b-vítamínum m.a.b-12, c-vítamín, kalk, járn, magnesium, sink, auk proteins, góðrar fitu og trefja. Að auki inniheldur maca 17 lífsnauðsynlegar aminosýrur.

Ráðlagður dagsskammtur er frá 1tsk upp í 8tsk, alltaf að byrja á litlu magni og síðan auka það smá saman. Ég nota það aðallega í sjeika, konfekt og súkkulaði. Því miður fæst það ekki hér á landi eins og er en vonandi verður bætt úr því fljótlega, en þangað til þurfið þið að hafa augun opin í heilsu og whole foods búðum erlendis.

Gojiber – Úlfaber – Lycium Barbarum
Talið er að uppruni þessara berja sé í Tíbet, Himalaya og Kína. Enda þekkir hvert mannsbarn þessi ber þar. Gojiber eru sögð vera einn sá næringarríkasti ávöxtur í jarðarkringlunni, stútfull af andoxunarefnum, yfir 15% protein, a,b,c-vítamín í stórum skömmtum, 18 amínósýrur, 21 stein og snefilefni svo eitthvað sé neft.

Kínverjar hafa vitað um þessi “göldróttu” ber frá örófi alda og hafa þeir notað þau í þúsundir ára, bæði til lækningar og manneldis. Mikið magn andoxunarefna m.a. polysaccaharides hafi þau áhrif á kroppinn að ónæmiskerfið styrkist hratt og örugglega og því ráðlegt að auka skammtinn af berjunum þegar kvef eða flensueinkenni gera vart við sig. Þau eru sögð auka orku, einbeitingu og vellíðan.

Mælt er með að við borðum um 5 g af þessum berjum daglega. Gojiberin vaxa á stórum runnum, þar eru þau látin þroskast og síðan eru runnarnir hristir og berin detta á jörðina og sólþurrkast. Þá fyrst eru þau tínd. Hægt er að nota þau á ótal vegu, sem snakk, út í súkkulaði, útí múslí, búa til úr þeim búðing eða desert, strá þeim út á salat, nota í dressingar eða sósur eða ……
Möndlumjólk með macadufti
Ávaxtasalat
Gojiberja chutney

Previous post

Glútenlaust

Next post

Skaðleg efni í elduðum mat

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *