Reynslusaga

Reynslusaga – Hildur M. Jónsdóttir

Reynslusaga Hildar M. Jónsdóttur (frkv.stj. Heilsubankans).

Ég var í viðtali í útvarpinu um daginn og fór þá inn á sögu mína hvað varðar heilsu eða öllu heldur heilsuleysi mitt lengi framan af ævi minni. Og það kom mér ánægjulega á óvart þau miklu viðbrögð sem ég fékk frá almenningi. Það eru svo gríðarlega margir sem geta fundið samsvörun við sig út frá minni reynslu og vil ég því deila henni með ykkur hér á síðum Heilsubankans ef einhverjum skildi gagnast að heyra um mína leið til bata.

Ævi mín fram að 25 ára aldri einkenndist af tíðum heimsóknum til lækna og af ómældum rannsóknum og blóðprufum. Strax frá fæðingu var ég mikið kveisubarn og stóðu gusurnar upp úr mér út á gólf samkvæmt lýsingum móður minnar, slíkir voru magakramparnir. Þegar ég lít til baka tel ég að ég hafi ekki þolað kúamjólkina sem mér var gefin strax frá upphafi. Móður minni gekk illa með mjólkurframleiðsluna. Mjög fljótlega fór ég einnig að fá stöðugar sýkingar og fékk ég mjög gjarnan eyrnabólgur ásamt öðrum pestum. Ég var endalaust á pensilíni og fékk ég bletti á barnatennurnar af þeim sökum. Í þá daga var mun meiri sykur í pensilíni en nú er.

Ég var aðeins sjö ára þegar móðir mín fór með mig til læknis vegna mikilla verkja í herðum og kom í ljós mikil vöðvabólga í sjö ára barninu. Ég var nýbúin að læra að prjóna og var mömmu ráðlagt að láta mig hætta þeirri iðju.

Um níu ára aldur var ég komin undir læknishendur vegna mikilla verkja í hnjám. Fyrst var talið að annar fóturinn á mér væri styttri en hinn, en þegar búið var að bæta undir skóna mína hækkun fyrir annan fótinn þá fyrst fór ég að haltra um. Þar sem fæturnir voru jafnlangir var ákveðið að senda mig til gigtarlæknis. Þá tók við langur tími sem einkenndist af sífelldum röntgenmyndatökum, blóðrannsóknum og öðru slíku. Þetta stóð yfir með hléum í um 4 ár og á endanum var ég meðal annars tekin út úr leikfimi vegna verkja. Aldrei fannst neitt að mér fyrr en að á unglingsaldrinum fékk ég loks þá sjúkdómsgreiningu að ég væri með rest af barnaliðagigt og einhverja mjög sjaldgæfa gigt sem eingöngu leggðist á konur og væri hún ólæknandi og yrði ég því bara að læra að lifa með henni.

Um ellefu ára aldurinn var farið með mig til læknis vegna slæmra magaverkja og kom í ljós að ég var farin að fá svona slæma ristilkrampa. Ég átti það til að vakna á nóttunni grátandi af verkjum. Þarna fóru í gang tilraunir með matarkúra en allt kom fyrir ekki. Fyrst var ég látin borða uppbleyttar sveskjur á morgnana. Þegar það virkaði ekki var ég látin borða súrmjólk með hörfræjum og loks var mjólkin tekin af mér, en eingöngu nýmjólkin, í staðin átti ég að drekka undanrennu. Fyrir barn með óþol fyrir mjólkursykri þá leysti þetta að sjálfsögðu ekki vandann.

Á unglingsaldrinum kom í ljós að ég var með allt of lágan blóðþrýsting og var ég sett á lyf við því sem ég tók í einhver ár.

18 ára fór ég að vinna sem þjónn með skólanum. Við það fór ég að fá festumein í bakið og slæma höfuðverki vegna vöðvabólgu. Þá var ég sett á sterkar, vöðvaslakandi töflur sem ég bruddi meira og minna yfir langt tímabil.

Eftir stúdentspróf tók ég mér frí frá námi í tvö ár þar sem ég var orðin ófrísk af eldra barninu mínu. Strax á fjórða mánuði meðgöngunnar fór ég að fá slæman bjúg og var mér ráðlagt að draga úr vinnu og á áttunda mánuði þurfti ég að hætta að vinna og sitja helst með lappirnar upp í loft. Fyrir mjög virka manneskju eins og mig var þetta eins og versta pína. En þegar dóttir mín kom í heiminn beið líka fullur fataskápur eftir henni af heimaprjónuðum fötum í öllum stærðum og gerðum. Eftir fæðingarorlofið fór ég að vinna á dagheimili til að geta varið tímanum nálægt dóttur minni og fór þá bakið á mér alveg í lás. Þarna byrjaði þrautaganga mín á milli sjúkraþjálfara og sjúkranuddara sem rétt náðu að halda mér gangandi.

Þegar dóttir mín var orðin eins árs var ég skorin upp vegna blöðrumyndana utan á skjaldkirtli þar sem erfitt var orðið fyrir mig að anda þegar ég lá útaf. Áður en ég var skorin var ég búin að vera á hormónalyfjum á annað ár til að reyna að halda þessu í skefjum. Þegar að ég var skorin kom í ljós að æxli var farið að myndast utan í kirtlinum.

Tuttugu og fimm ára gömul, þegar ég var búin að eiga mitt annað barn, var heilsan orðin svo léleg að ég var orðin eins og farlama gamalmenni. Ég var með stöðuga verki í hnjám, úlnliðum og axlarliðum, þannig að ég vaknaði upp á nóttunni vegna verkja. Ég var með stöðuga hægðartregðu og liðu oft fleiri, fleiri dagar án þess að ég færi á klósettið. Þar af leiðandi var ég með stöðug ónot, uppblásin og inn á milli með mikla krampa. Ég fékk mjög mikla höfuðverki og eitt sinn var ég svo slæm að ég var flutt niður á bráðamóttöku þar sem ég réð ekki lengur við kvalirnar. Ég átti það til að fá mjög mikil hjartsláttarköst þannig að oft stóð mér ekki á sama. Og það sem var verst af öllu var algjört kraftleysi. Ég þurfti að beita mig hörðu til að koma mér í einföldustu verk, eins og matseld og uppvask. Ég var orðin undirlögð af verkjum, orkuleysi, þreytu og vanlíðan.

Þarna fór ég að velta fyrir mér að það hlyti eitthvað að geta skýrt þetta ástand mitt. Það gæti ekki verið eðlilegt að svona ung kona væri orðin algjör sjúklingur. Ég fór að tengja að þetta hlyti að hafa eitthvað að gera með mataræði. Ég fór að spyrjast fyrir og var bent á Helga Valdimarsson sem var nýfarinn að tala um fæðuóþol og Candida sveppasýkingar.

Þegar ég fór til Helga breyttist líf mitt algjörlega og ég fór að kynnast því hvernig væri að lifa án verkja og með fulla orku. Það fyrsta sem ég gerði var að hætta að borða allan sykur, allt hvítt mjöl og ger. Seinna fann ég út að ég þoldi ekki mjólkurvörur og kjöt fór einnig illa í mig, þannig að það var látið fjúka.

Á örfáum mánuðum losnaði ég við allt það sem hafði hrjáð mig og fór ég að lifa sem fullfrísk manneskja. Á næstu tíu árum eftir þetta leitaði ég ekki læknis og þurfti ekki á heilbrigðisþjónustunni að halda, þar til að ég lenti í slæmu bílslysi. Slysið leiddi mig inn í annan hring um heilbrigðiskerfið þar sem ég ráfaði um óáttuð og ráðvillt þar til ég tók málin í mínar hendur. En sú saga fær að bíða þar til síðar.

Að lokum vil ég telja upp fyrir ykkur þau einkenni sem ég losnaði við eftir að ég breytti mínu mataræði til hins betra.

  • Flasa í hári
  • Þurrkablettir í andliti, aðallega fyrir ofan augabrúnir, kringum nasavængi og í kringum munnvik
  • Slæm húð í andliti, gjörn á að fá bólur og mikla fílapensla
  • Litlar rauðar bólur á bringunni
  • Andremma
  • Þurrkur í augum
  • Hraður og oft óreglulegur hjartsláttur
  • Sárir stingir í brjóstholi í kringum hjarta
  • Grunn öndun, fannst oft ég þurfa að grípa andann á lofti – saup hveljur
  • Liðverkir í hnjám, úlnliðum og öxlum
  • Vöðvabólga
  • Bakverkir og festumein í baki
  • Höfuðverkir
  • Brjóstsviði
  • Ristilkrampi og uppþembdur magi
  • Hægðatregða
  • Sveppasýkingar í leggöngum
  • Síþreyta
  • Miklir tíðarverkir
  • Bjúgsöfnun, sérstaklega fyrir blæðingar
  • Þroti í andliti

Um Heilsubankann

Previous post

Gersveppaóþol

Next post

Reynslusaga: Nútímahetja

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *