FæðuóþolMataræði

Spelt eða hveiti, hvað er betra?

Sitt sýnist hverjum í þessum efnum sem og öðrum sem koma að næringu og hollustu. Það er endalaust rökrætt um hvað er betra og hollara.

Hér koma mínar hugleiðingar.

Það skiptir auðvitað öllu máli hvað við erum að bera saman. Til að fá eðlilegan samanburð er nauðsynlegt að hafa speltið og hveitið úr sama flokki, þ.e. lífrænt ræktað. Við berum því saman gæðavöru. Næringarinnihald spelts jafnt og hveitis getur nefninlega verið mjög misjafnt eftir því hve ríkur jarðvegurinn er af næringarefnum og í lífrænni ræktun er þess gætt að svo sé.

Við viljum líka bera saman vöru sem er ekki genabreytt. Genabreytingar eru þónokkuð mikið notaðar meðal þeirra sem rækta ólífrænt spelt. Þá er speltið oft genabætt með hefðbundnu hveiti til að fá fram hraðari vöxt og auðveldari vinnslu. Spelt er nefninlega mjög hægsprottið, sem einmitt er talinn vera einn af kostum þess, þar sem hægsprottnara korn mun hafa meiri möguleika á að byggja upp góðan næringarforða en fljótsprottið. Speltið er líka erfitt í vinnslu sökum þess hve hart það er í sér og því hafa menn séð sér leik á borði og auðveldað vinnsluna með genabreytingum.

En hvað með rannsakanlegt næringarinnihald? Speltið er þónokkuð ríkara af ákveðnum b vítamínum en hveiti og inniheldur meira mangan. Annað er svipað í spelti og hveiti. Gróft heilkorna spelt er næringarríkara en það sigtaða, líkt og heilhveiti er næringarríkara en hveiti.

Þeir sem hafa glutenóþol þola ekki spelt. Spelt inniheldur glúten líkt og venjulegt hveiti. Þó eru til margir sem ekki þola hveiti sem þola vel spelt og getur það stafað af ýmsum ástæðum.
Þekkt er að glútenið í spelti hagar sér öðruvísi en glúten í hveiti, t.d.í bakstri. Það er uppleysanlegra og það þarf að passa að hnoða spelt ekki of mikið sökum þessa. Margir vilja því meina að þessi munur á glúteni spelts og hveitis sé að einhverju leiti það sem veldur því að speltið þolist betur.

Einnig eru uppi kenningar um, að það sé vegna þess að hefðbundna hveitið hefur verið gróflega ofnotað lengi. Fólk borðar hveiti oft á dag alla daga ársins og því aukast líkur á einhverskonar óþoli. Því oftar sem við borðum ákveðnar fæðutegundir því hættara er á að við myndum óþol við fæðunni.
Í öllu falli er fjöldinn allur af fólki sem er sammála um að því líður betur af spelti en hefðbundnu hveiti. Hvers vegna ættum við ekki að taka mark á því? Það er margt sem við vitum ekki um starfsemi mannslíkamans og þó að margar góðar rannsóknir liggi fyrir þá er margt enn órannsakað. Þetta er ekkert öðruvísi í hefðbundinni læknisfræði. Þar eru menn að gera flóknar, áhættusamar og dýrar aðgerðir á fólki, án þess að hafa hugmynd um hvers vegna þær virka. Þær virka bara og þessvegna eru þær gerðar!
Við erum öll ólík, þó við séum sömu tegundar. Það sem er hollt og gott fyrir einn er það ekki endilega fyrir annan. Það er svo margt sem hefur áhrif á líf okkar og líðan sem enginn getur sannað eða afsannað á vísindalegan hátt.

Öll umræða er góð, en gæta þarf þess að vera ekki með sleggjudóma á hvorn veginn sem er, með eða á móti spelti. Hræðsla við hið óþekkta og ókannaða er undirrót þess að dæma aðra. Víkkum sjóndeildarhringinn og prófum nýja hluti, hvort sem það er í mataræði eða öðru. Verum víðsýn en gagnrýnin.

Með kærri heilsukveðju,
Inga næringarþerapisti
Höfundur: Inga Kristjánsdóttir

Previous post

Fróðleikur um vítamín

Next post

Deildar meiningar um hollustugildi mjólkur

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *