Börn og unglingarFjölskyldanHeimilið

Foreldrasáttmálinn

Við fengum þessa grein til birtingar frá henni Helgu Margréti hjá Heimili og skóla. Ég hef alltaf verið mjög hlynnt þessum foreldrasamningum og tel að þeir séu frábær grundvöllur fyrir samræður á milli foreldra, um hvað sé best fyrir börnin þeirra. Þegar ég tók þátt í svona starfi í gegnum skóla barnanna minna var eingöngu foreldrasamningur í boði fyrir foreldra unglinga og talaði þá fólk um að það væri nauðsynlegt að byrja þessa vinnu strax í upphafi skólagöngu barnanna. Ég fagna því að sjá, að nú er búið er að bæta við samningi fyrir foreldra í yngstu bekkjunum.

 

Foreldrasáttmálinn er árangursrík leið

Rannsóknir sýna að því yngri sem börn hefja neyslu áfengis og annarra vímuefna þeim mun hættara er við að það valdi þeim erfiðleikum og hafi neikvæð áhrif á líf þeirra og allrar fjölskyldunnar. Við hvert ár sem byrjunaraldurinn hækkar minnka líkur á misnotkun um 14 %.

Foreldrar þurfa að vita hvað er í húfi svo þeir geti rætt við börnin sín og brugðist rétt við.

Félagsgerð grenndarsamfélagsins sem barnið elst upp í og jafningjahópurinn hefur mikil áhrif. Samstaða foreldra í þessu sambandi hefur líka mikið að segja og foreldrar þurfa að sýna börnum sínum umhyggju, aðhald og eftirlit.

Heimili og skóli – landssamtök foreldra hafa þróað Foreldrasamninginn sem forvarnarverkefni fyrir foreldra. Samningurinn er tvískiptur og er annars vegar fyrir 1.-5. bekk og hins vegar fyrir 6.-10. bekk. Foreldrasamningurinn hefur verið endurútgefinn og heitir nú foreldrasátt-máli. Sáttmálinn höfðar til samábyrgðar foreldra um uppeldisleg gildi t.d. hvað varðar einelti og reglur um notkun á tækni eins og tölvuleikjum, aðgengi að netinu og farsímum.

Verkefnið leggur grunn að umræðum á milli foreldra um þau atriði er skipta máli fyrir farsælt uppeldi. Foreldrasáttmálinn er í eðli sínu forvarnarverkefni gegn hvers konar neikvæðum lífsstíl hjá börnum og unglingum.

Þar sem verkefnið hefur verið vel kynnt og góð samstaða foreldra hefur náðst um ákveðna þætti í uppeldinu, er það samdóma álit allra sem að koma, að sáttmálinn skili óumdeilanlega góðum árangri. Þeir sem eru í uppreisn við ríkjandi gildi í þjóðfélaginu láta oft mest til sín heyra. Foreldrasáttmálinn er kjörið mótvægi við slíkar raddir.

Okkar reynsla hjá Heimili og skóla er sú að úti í þjóðfélaginu er stærsti hluti foreldra fylgjandi því að halda vel utan um börnin sín, veita þeim væntumþykju og sýna þeim virðingu. Með því að skapa umræðuvettvang fyrir foreldra til að ræða mikilvæg uppeldisleg atriði aukast líkur á viðhorfsbreytingu og minnkuðu umburðarlyndi foreldra sem og samfélagsins í heild gagnvart neikvæðum lífsstíl barna. Við teljum að ein árangursríkasta leið sem við höfum til að vekja vitund foreldra um hættur sem kunna að steðja að börnum þeirra, sé að fá þá til að hittast og ræða málin yfir verkefni sem krefst virkrar þátttöku þeirra eins og Foreldrasáttmálinn gerir.

Við teljum að þáttur foreldra í forvörnum sé gróflega vanmetinn, og viljum sjá meiri fjármunum veitt til fræðslu foreldra, þannig að þeir geti síðan frætt sín börn og verið þeim góð fyrirmynd.. Bestu leið til að ná til forelda teljum við vera í gegnum fundi þar sem foreldrar barna á svipuðum aldri hittast og skiptast á skoðunum. Jafnframt teljum við að auka þurfi vitund foreldra um mikilvægi foreldrasamstarfs í skólum og utan þeirra.

Heimili og skóli eru ein af þeim félagasamtökum sem standa að Vímuvarnavikunni ár hvert og stóð hún yfir dagana 13 -20. október síðastliðinn. Vímuvarnavikan er samstarfsvettvangur 20 félagasamtaka í landinu til að vekja athygli á áfengis- og vímuefnamálum, einkum forvörnum meðal barna og unglinga og varpa ljósi á forvarnastarf sem unnið er á vettvangi félagasamtaka eins og t.d. foreldrafélaga. Þetta er fjórða árið í röð sem efnt er til viku af þessu tagi.

Að þessu sinni var foreldrahlutverkið dregið fram sem mikilvægur forvarnarþáttur um upphafsaldur áfengisneyslu unglinga og hvað sé í húfi fyrir börn og unglinga að neyta ekki áfengis og/eða fresta því sem lengst að hefja áfengisneyslu kjósi þau að gera það á annað borð. Við hvetjum foreldra til að kynna sér vel þær upplýsingar sem hin ýmsu félagasamtök komu á framfæri á Vímuvarnarvikunni í ár þar sem vakin var athygli á mikilvægi þess að stuðlað sé að því að börn og unglingar neyti ekki áfengis og ábyrgð alls samfélagsins í því skyni.

Helga Margrét Guðmundsdóttir, Verkefnastjóri hjá Heimili og skóla – landssamtökum foreldra

Previous post

ADHD - Athyglisbrestur / Ofvirkni

Next post

Unglingadrykkja

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *