Heilsa

Tengsl lífsstíls og krabbameins – LÍKAMSÞYNGD

Skýrslan sem við höfum verið að fjalla um hér á Heilsubankanum setur fram nokkrar ráðleggingar sem gefast best í forvörnum við krabbameini.

Fyrsta ráðleggingin snýr að líkamsþyngd:

  • Verið eins grönn og ykkur er mögulegt, innan eðlilegra marka.
  • Miðgildi hverrar þjóðar ætti að vera á milli 21 og 23 á BMI skalanum.
  • Hlutfall þjóðarinnar sem er í yfirvigt, ætti ekki að aukast á næstu 10 árum og helst ætti það að minnka.
  • Tryggið að líkamsþyngd barna og ungmenna endurspegli neðri mörk BMI staðalsins þegar barnið mun hafa náð 21 árs aldri.
  • Viðhaldið líkamþyngd innan eðlilegra marka frá 21 árs aldri.
  • Forðist þyngdaraukningu og aukið mittismál í gegnum fullorðinsárin.

Aukin líkamsþyngd getur orsakað krabbamein í ristli, vélinda, eitlum, legi, brisi, nýrum og brjóstakrabbamein hjá konum eftir breytingaskeið. Líklegt er einnig að það geti valdið krabbameini í gallblöðru.

Kviðfita getur valdið krabbameini í ristli og líklegt er að hún geti valdið krabbameini í brisi og legi og brjóstakrabbameini eftir breytingaskeið.

Viðhald á eðlilegri líkamsþyngd í gegnum lífsskeiðið er mögulega ein besta forvörn gegn krabbameini. Og að auki verndar það mann fyrir allnokkrum öðrum alvarlegum sjúkdómum.

Hlutfall þeirra sem þjást af ofþyngd í hinum vestræna heimi tvöfaldaðist frá árinu 1990 fram til ársins 2005. Þeir sem þjást af offitu eða eru of þungir, auka hættuna á því að fá allnokkrar tegundir krabbameina. Þeir auka einnig áhættuna á öðrum sjúkdómum, svo sem skjúkdómum tengdum blóðfitu. Of há líkamsþyngd getur valdið of háum blóðþrýstingi og heilablóðfalli.  Fólk í yfirþyngd eykur einnig hættuna á að fá sykursýki 2 og kransæðasjúkdóma.

Of mikil líkamsþyngd í æsku er líkleg til að fylgi fólki inn á fullorðinsárin.

Talað hefur verið um að fólk væri í eðlilegum holdum ef það væri á milli 18,5 og 25 stigum á BMI kvarðanum. Skýrsluhöfundar benda hins vegar á að ekki hefur verið sýnt fram á að það sé einhver krítísk mörk við 25 stigin. Þeir benda á að þeim mun lægra sem fólk er á kvarðanum, þeim mun minni líkur eru á að það þrói með sér áhættu á krabbameini.

Þeir vilja þó ekki endilega vera að hvetja heilbrigt fólk til að fara að grenna sig til að komast neðar á kvarðanum ef það er innan eðlilegra marka. Hins vegar hvetja skýrsluhöfundar fólk sem hefur bætt á sig kílóum, þrátt fyrir að það sé innan þessara marka, að stefna að því að ná fyrri líkamsþyngd.

Fólk sem er staðsett yfir eðlilegum mörkum á BMI kvarðanum er hvatt til að fækka kílóunum þannig að það nálgist það að vera innan eðlilegra þyngdarmarka.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur sett fram viðmiðun fyrir mittismáli sem er 94 cm. hjá karlmönnum og 80 cm. hjá konum.

Sjá einnig: Tengsl lífsstíls og krabbameins

Previous post

Tengsl lífsstíls og krabbameins

Next post

Tungan - gluggi líffæranna

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *