HómópatíaMeðferðir

Breytingaskeið kvenna og hómópatía

Breytingaskeið kvenna veldur oft miklum andlegum, tilfinningalegum og líkamlegum óþægindum.  Þetta skeið lífsins sýnir óumflýjanleg merki þess að konan sé að eldast.  Það eitt getur verið erfitt fyrir marga konuna.  Oft kemur þetta skeið einnig á svipuðum tíma og börnin eru að flytjast að heiman og er lífsmynstrið því að breytast samfara því. Sumar konur upplifa mikinn söknuð þegar að barnið hennar flytur frá henni.  Oft líður henni sem að hún sé alein og yfirgefin.  Hún finnur fyrir höfnun, finnst að hún sitji eftir og hennar hlutverki sé lokið. 

Einkennin eru misjöfn eftir einstaklingum.  Sumar konur upplifa miklar breytingar bæði andlega og líkamlega, aðrar eingöngu líkamlegar og svo enn aðrar eingöngu andlegar. Skapbreytingar eru algengar og oft miklar skapsveiflur og jafnvel þunglyndi.  Hitakóf og kaldur sviti, oft til skiptis, óreglulegur tíðahringur, stundum stutt á milli blæðinga og stundum langt á milli. Allt eru þetta algeng einkenni sem að geta komið á þessu tímabili.  Auk þessa verða konur oft á tíðum fyrir miklum svefntruflunum.

Sumar konur vakna oft upp á nóttunni, sumar gegndrepa af svita, aðrar einungis vegna hita.  Algengara er að svitakófin komi á nóttunni en margar konur þurfa líka að glíma við þau yfir daginn. Misjafnt er hversu hratt eða hægt þetta tímabil gengur yfir hjá konum, allt frá fáum mánuðum upp í nokkur ár.  Það fer allt eftir því hvernig hver og ein kona og hennar líkami nær að aðlagast breytingunum.

Líkami konunnar hefur með mánaðarlegum blæðingum sínum, yfir að ráða einum besta hreinsunarbúnaði sem hugsast getur.  Þegar síðan breytingaskeiðið byrjar og blæðingar fara að verða óreglulegar og stoppa síðan alveg, finnur líkaminn sér nýja hreinsunarleið.  Hitaköstin koma af stað uppgufun í gegnum húðina og svo er það öll svitalosunin.  Ef, að hægt er að horfa jákvætt á þetta dásamlega hreinsunarkerfi líkamans, hlýtur að verða minna um ergelsi og pirring vegna þessarra einkenna.

Með einföldum ráðum er hægt að gera sér þetta tímabil þolanlegra.  Jákvæðni og almenn gleði og ánægja með lífið og líkama sinn getur hjálpað mikið til, við að yfirstíga það.  Undirbúningur fyrir næturnar er mikilvægur fyrir þær sem að þurfa að þola miklar öfgar í hita og kuldaköstum.  Hafa hitann í herberginu rétt stilltan.  Hafa í eða við rúmið tvær ábreiður, eina þykka og hlýja og aðra þynnri.  Einnig skal hafa við rúmstokkinn, auka svefntreyju og handklæði til að þurrka sér.  Mikill munur er á, að þurfa ekki að rjúka uppúr rúminu, heldur hafa allt það sem þarf að nota við hendina.  Það hjálpar til við að konan nái að sofna aftur, fyrr en ella.  Það að ná að sofa eins vel og mögulegt er, hjálpar svo aftur við pirringsköst og skapsveiflur næsta dags.

Eins og alltaf er vatnsdrykkja mjög mikilvæg, hjálpar mikið til við hreinsun líkamans.  Regluleg hreyfing er líka nauðsynleg og gott mataræði.  Líka félagsleg virkni, þ.e. að láta ekki þessi einkenni stoppa sig í að hafa gaman af lífinu.  Þessi einkenni geta vera hvimleið, en alls ekki þarf að skammast sín fyrir þau.  Flest allar konur ganga í gegnum svipaða reynslu og því er skilningur á milli kvenna mikill á þessu skeiði lífsins. 

Best er að sætta sig við og tala um einkennin, hér þarf ekkert að fela.  Þetta er eðlilegt ferli, fylgir því að vera kona.  Njótum þess yfir þetta tímabil jafnt sem önnur æviskeið.  Það er frábært að vera kona!

Hér að neðan eru nokkrar af helstu hómópatísku remedíunum sem að hafa gagnast vel vegna einkenna breytingaskeiðs kvenna, en tekið skal fram að ávallt er heillavænlegast að leita sér aðstoðar hjá reyndum hómópata, til að auka líkur á að rétt remedía sé valin: 

Belladonna:  Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að hitakóf á breytingaskeiði eru mjög skyndileg og mjög yfirgengileg.  Púlserandi einkenni koma fram einhversstaðar í líkamanum þó sérstaklega í höfðinu.  Öðru hvoru eru blæðingar mjög miklar og oft heitar.  Þó að konan sé að jafnaði í góðu tilfinningalegu jafnvægi gæti hún átt til að fá reiðisköst í höfuðverkjaköstum og/eða ef undir miklu álagi. Mígreni, blóðþrýstingsójafnvægi og löngun í sítrónur eða ávaxtasafa eru oft einkenni hjá þeim sem að þurfa þessa remedíu.

Calcarea carbonica:  Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að kona hefur miklar blæðingar, mikinn nætursvita og hitakóf (þó hún sé frekar kaldfeng), og hefur fundið fyrir þyngdaraukningu á breytingaskeiðinu.  Fólk sem að þarf þessa remedíu er venjulega harðduglegt og ábyrgðarfullt, en samt frekar hægt til verka og þreytist auðveldlega.  Kvíðið fólk sem að á erfitt með að höndla mikið stress og álag.  Stífir liðir og krampar í fótum, ásamt löngun í egg og sætindi eru oft einkenni hjá þeim sem að þurfa þessa remedíu.

Glonoinum:  Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að kona hefur yfirgengileg hitaköst með miklum roða á breytingaskeiði.  Blæðing getur byrjað og svo stoppað mjög fljótlega, með hjartsláttartruflunum eða höfuðverki. Konan verður pirruð og niðurdregin.  Einkenni geta ágerst ef henni verður of heitt eða ef hún er of lengi úti í sólinni, einnig er hún verri við að leggjast niður.

Graphites:  Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að kona er kaldfeng, föl og finnur fyrir sljóleika ásamt því að eiga erfitt með einbeita sér.  Hefur fundið fyrir þyngdaraukningu á meðan og á eftir breytingaskeiði.  Hitakóf og nætursviti eru algeng.  Fólk sem að þarf þessa remedíu hefur oft mjög viðkvæma húð, oft sprungna húð sem að seytlar frá.  Eru oft lengi að vakna á morgnana.

Ignatia:  Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að kona upplifir miklar tilfinningasveiflur  á breytingaskeiði.  Hún er mjög viðkvæm, en á það til að fela það hvernig henni líður.  Er mjög á verði, fýlugjörn og hysterísk.  Fær höfuðverki, vöðvakrampa og túrverki/krampa og óreglulegar blæðingar.  Þyngsli yfir brjóstinu og er gjörn á að andvarpa og geispa. Einnig skyndileg grátköst og hlátur til skiptis.

Lachesis:  Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að kona upplifir mjög mikil hitakóf, með roða og jafnvel fjólubláum litbrigðum.  Hjartslætti, þrýstings- og þrengslatilfinningu, jafnvel stíflutilfinningu.  Háls er sérstaklega viðkvæmur og konan þolir ekki ef þrengir um hann, né um mitti. Hún talar oftast mikið og með miklum tilfinningum.  Oft frekar afbrýðisöm og tortryggin.

Lillium tigrinum:  Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að kona upplifir sig alltaf á síðustu stundu, er alltaf að flýta sér.  Er kvíðin og tilfinningalega mjög viðkvæm.  Á það til að fá mjög mikil reiðiköst og fær fólk í kringum sig til að tipla á tánum.  Oft tilfinning um þrengsli yfir brjóstkassa og tilfinning um niðurþrýsting á kynfærum sem fær hana til að setjast og krossleggja fætur.

Natrium muriaticum:  Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að kona er fálát og dul, lokar allar tilfinningar inní sér.  Oft er um að ræða djúpa sorg og oft er hún föst í gömlu, góðu tímunum og syrgir þann tíma.  Oft særð eða hefur orðið fyrir miklum vonbrigðum.  Á breytingaskeiðinu geta blæðingar verið óreglulegar með bakverkjum eða höfuðverkjum.  Mikil löngun í salt og líður verr í sólskini.

Pulsatilla: Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að kona er mjög tilfinningarík og mild, skiptir oft skapi og tárast auðveldlega. Mjög sterk fjölskyldubönd og á mjög erfitt með að horfa á eftir börnunum úr hreiðrinu.  Verður óörugg við tilhugsunina um að verða gömul.  Sækir í eftirrétti og smjör, sem leiðir oft til þyngdaraukningar.  Skapbreytingar, óreglulegar blæðingar, klígjugirni, hiti og kuldi til skiptis og lítill þorsti.  Verður verri í þungu lofti og betri við opna glugga.

Sepia: Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að blæðingar eru stundum seinar og litlar, en stundum mjög miklar.  Tilfinning um að leg sé sigið og veikt.  Sækir í edik og súran mat.  Oft þreyttar, útbrunnar konur sem eru pirraðar, sérstaklega gagnvart eigin börnum og maka.  Það að æfa og dansa hjálpar henni að ná upp fyrri orku.

Staphysagria: Þessiremedía getur verið hjálpleg ef að kona er feimin og hlédræg, en hefur mikið af bældum tilfinningum.  Á breytingaskeiðinu getur hún orðið þunglynd eða ofsareið.

Sulphur:  Þessi remedía getur verið hjálpleg ef að kona upplifir hitakóf á breytingaskeiðinu og vaknar upp snemma morguns og hendir af sér sænginni.  Oft kvíðin, grætur og hefur áhyggjur af eigin heilsu.  Verður verri við hita.

Previous post

Smáskammta - meðhöndlun, að lækna líkt með líku

Next post

Hvað felst í hómópatía?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *