MataræðiÝmis ráð

Vangaveltur um hráfæði

Við birtum hér skemmtilegar vangaveltur sem Einar Sigvaldason skrifaði inn á bloggið sitt:

Margir hafa spurt mig hvort hráfæði sé málið, eftir að ég rak ásamt fleirum hráfæðis veitingastað í Ingólfsstræti síðasta sumar.

Mitt svar er: Í fyrsta lagi hlustaðu á líkamann þinn. Frekar en að borða með huganum. Í öðru lagi, ef þú ert eins og ég, ekki mjög góður í að hlusta á líkamann, viðaðu þá að þér fróðleik. En notaðu innsæið til að meta hvað er réttast, ekki trúa í blindni því sem einhver annar segir.
Ég elda stundum og stundum ekki. En þegar ég reyni að meta hvað er allra best fyrir mig ímynda ég mér að ég sé í náttúrulegu umhverfi eins og villt dýr, á eyðieyju fyrir mörgum árum, löngu fyrir iðn- og markaðsbyltingar nútímans. Ég hef nógan tíma til að borða og tygg lengi. Ég hita ekki matinn umfram það sem ég myndi meiða mig sjálfur ef ég hitaði sjálfan mig. Ég borða yfirleitt einfalt, eitthvað eitt í einu, grænmeti, ávöxt, hnetu, fræ eða korn. Ég borða ekki dýr af því að ég finn ekki beinlínis hvötina til að drepa þau og borða svo. Má vera að aðrir geri það samt. Ég fæ hins vegar vatn í munninn við að sjá litríkt grænmeti eða ávöxt. Ég drekk mikið vatn. Ég leggst ekki undir spenann á beljunni og reyni að sjúga úr henni mjólkina sem ætluð er kálfinum hennar. Í fyrsta lagi hef ég ekki hugmyndaflug í að það sé hægt, myndi finnast það slímugt og ógeðslegt. Í öðru lagi veit ég að mjólkin er eingöngu til staðar meðan afkvæmin eru smá og því nokkuð augljóst að hún er ætluð þeim en ekki fullorðnum.

Þá sjaldan að ég næ að fylgja þessu vel þá líður mér vel. Betur en ella. Eins og þegar ég dvaldi í AnnWigmore skólanum í Puerto Rico á síðasta ári. Þeirra nálgun er sú að færa okkur sem næst náttúrunni og að flestir nútímasjúkdómar og vanlíðan komi vegna langvarandi misnotkunar á einhverju smáræði andstætt náttúrunni.

Lausnin þeirra felst aðallega í þrennu. Að maturinn sé sem auðmeltanlegastur. Minni líkamsorka fer í að melta matinn. Við notum orkuna í staðin til að berjast við sjúkdóma eða lifa lífinu aðeins meira lifandi. Teppur myndast síður og smáþarmatoturnar ná að draga réttu efnin inn í blóðið. Auk þess nær ristillinn að sinna sínu hreinsunarhlutverki í stað þess að seita uppsöfnuðum rotnandi efnum í blóðið. Að maturinn sé frekar basa- en sýrumyndandi. Það kemur til af því að flestir eru of súrir þar sem vestræn fæða er að mestu leyti súr, en það veikir ónæmiskerfið. Að maturinn sé sem minnst slímmyndandi þar sem óþarfa slím í líkamanum heftir eðlilegt hreinsunar- og dreififerli.

Þannig er eldaður matur sýrumyndandi og verr meltanlegur en óeldaður þar sem einhver meltingarenzým eyðileggjast alltaf við eldun. Auk þess er eldaður matur augljóslega ekki eins ferskur sem þýðir minni (lífs)orku í kroppinn. Mjólkurvörur eru slímmyndandi. Kjöt, fugl og fiskur eru meira sýru- en basamyndandi og verr meltanleg en grænmeti og ávextir. Sama má reyndar segja um mjög hart grænmeti eins og brokkolí og gulrætur en þá getur verið sniðugt að for-melta í blandara eða djúsa. Sítróna er súr en samt er hún basamyndandi í líkamanum ef hún er tínd þroskuð. Dýr éta fræ, hnetur og korn í þeim tilgangi að skíta þeim óskertum og búa til plöntur. Það er hluti af náttúrunni. Ef við ætlum að fá eitthvað út úr fræjum og hnetum þarf að leggja í bleyti og láta spíra. Þar með leysum við um náttúrulega vörn fræsins sem annars varnar því að það leysist upp í þörmum dýranna, og okkar.

Ég minni samt á að matarræði er bara einn af grunnþáttunum. Það skiptir litlu hvað við borðum ef við klikkum á að sofa, hreyfa okkur, anda og slaka á. Að ég tali nú ekki um að dæla í lungun nikótínsýru 20 sinnum á dag, dag eftir dag, ár eftir ár. Þannig að útilokað er að líkaminn nái að jafna sig á milli.

Einar Sigvaldason
áhugamaður um hollustu og heilbrigði

Þessi grein var fyrst birt á vefnum 6. febrúar 2008

Previous post

Glænýjir grænir sjeikar

Next post

Áhrif gosdrykkju

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *