Mengun og mengunarvarldarUmhverfið

Plast í náttúrunni

Síðastliðið haust fjallaði Snorri Sigurðsson um áhrif plasts á jörðina í grein sinni “Það sem ekki hverfur” er birtist á Vefritinu. Grein hans vekur upp hugsanir hvert við stefnum í hinni gífurlegu plastnotkun.

Það er umhugsunarvert að skoða þau gífurlegu áhrif sem plastið hefur á lífríki jarðar. Plast er fjölliður og einkennist af því að vera sterkt, sveigjanlegt og endingargott. Vissulega hentar það vel í allskonar umbúðir því það er létt og ódýrt. Vandinn er hins vegar sá að plast brotnar nánast ekkert niður í náttúrunni. Það hafa engar örverur fundist sem brjóta það niður og þar liggur vandinn. Sorphirða plasts felst að mestu í að fela það, þ.e. urða það en þá liggur það í jörðu og breytist ekki mikið í áranna rás. Gífurlega mikið magn plasts fýkur í burtu og mesti hluti þess rusls sem finnst á víðavangi er plast.

Eins og Snorri bendir á gera fæstir sér þó grein fyrir hvert meginþorri plastruslsins fer. Plastið fer nefnilega á haf út, sjórinn brýtur það niður í misstórar einingar og mikið af því leitar til flennistórra, afskekktra hafsvæða. Þeir fáu sjómenn sem fara í gegnum slík svæði segja að það minni helst á að sigla um hafíssvæði að komast þar áfram nema þú siglir í rusli en ekki ís.

Fljótandi plast á afskekktum hafsvæðum er þó ekki nærri því allt vandamálið. Fjöldinn allur af sjávarlífverum innbyrgða þetta plast og magn þess í innyflum fiska og sjófugla eykst með hverju ári. Mörg skaðleg efni eru í plastinu auk þess sem það er gjarnan tengt fleiri hættulegum efnum svo sem þungamálmum.

Einungis 50 ár eru síðan plast komst í almenna notkun. Nú í dag er það orðið svo stórt vandamál að þrátt fyrir að framleiðslu þess yrði hætt strax væri ekki vitað hvernig ætti að losna við það allt saman á umhverfisvænan máta eða hver langtímaáhrif þess verða á náttúruna.

Gott ráð til að draga gríðarlega úr notkun plasts er að hætta að nota plastpoka undir innkaupin en notast frekar við fjölnota burðarpoka. Notið einnig frekar margnota plastbox undir matarafgangana, frekar en plastfilmu og nestið börnin í skólann með gamla góða nestisboxinu, frekar en nestispokum.

 

Höfundur: Helga Björt Möller, greinin birtist fyrst á vefnum í febrúar 2008

Previous post

Skaðsemi farsímanotkunar

Next post

Reykjavíkurborg bregst við mikilli svifryksmengun

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *