Fengum eftirfarandi fyrirspurn frá konu sem er orðin langþreytt á vanlíðan og lyfjaáti með takmörkuðum árangri.
Til Hildar M. Jónsdóttur.
Sæl, mig langar að leita til þín eftir að ég las grein þína um sveppaóþol. Málið er að þegar ég var unglingur þá fór ég einu sinni fyrir tilviljun í rannsókn hjá lækni vegna sóriassis í ættinni. Þegar hann sá mig sagði hann við mig, "Ég sé það að þú ert með sveppi". Ég var ung þá og var ekkert að spá í þetta....var bara með mína rauðu bletti í kring um nef og höku, sem fóru og komu.
Á unglingsárum fékk ég varla bólu en það kom aldeilis í bakið á mér eftir 25 ára aldur. Þá varð ég mjög slæm af bólum og roða í andliti. Þessu fylgir sviði, kláði og óþægindi. Ég leitaði lækninga og fór á lyfið roaccutan tvisvar sinnum. Náði ágætis bata í einhvern tíma en þetta kom aftur. Á þessum tíma var ég farin að finna fyrir óþægindum í maga þegar ég borðaði mjólkurvörur og þá sérstaklega skyr og jógúrt. Þarmaflóran fór í algjört rugl og fl.
Andlitið á mér lagaðist ekkert, þannig að ég fór á Ery-max í nokkra mánuði. Það fór illa í mig þannig að ég fór á doxytap í háft ár.
Ástandið á mér er orðið þannig að ég er með sífelldar sýkingar að neðan, einnig mikinn kláða í endaþarmi.
Ég er farin að finna að ég þoli ekki að borða sætindi, kökur og fl. þar sem mér verður illt í maga, fæ sviða og innantöku. Einnig verð ég mjög slæm daginn eftir að ég drekk áfengi.
Nú er ég algjörlega ráðþrota í þessu ástandi mínu. Ég er komin í vítahring, því þessi lyf duga mér skammt.
Nú langar mig að taka í gegn mataræðið hjá mér og kasta út öllu sem lætur mér líða svona illa. Einnig er ég orðin ansi hrædd um að þessi húðsúkdómur í andlitinu á mér stafi af einhverju óþoli.
Þess vegna langar mig að leita ráða hjá þér og spyrja þig hvar á ég að byrja? og hvernig?
Þetta mataræði vex mér í augum.
Með von um góð ráð
Ein ráðþrota.
Sæl og til hamingju með að vera komin á þennan punkt.
Þú ert greinilega á mjög svipuðum stað og ég var þegar ég sá að vanlíðan mín og endalaus sjúkrasaga hlyti að hafa eitthvað með það að gera hvernig ég lifði mínu lífi hvað varðar val á næringu og lífsstíl.
Málið er að öll þessi lyf sem þú hefur verið að taka eru eingöngu til að halda niðri einkennum en ekki til þess fallin að ráðast að rót vandans. Rótin liggur í meltingarveginum, eins og þú ert sjálf búin að komast að.
Það góða í þessu öllu er að það hefur margt breyst frá því ég var að ganga í gegnum þessar breytingar fyrir 16 árum. Nú er úrvalið af góðum vörum orðið svo miklu meira og fullt af góðu fólki sem getur leitt mann áfram í gegnum frumskóginn.
Það sem er í raun erfiðast í þessu öllu er að maður þarf að búa sér til algjörlega nýjar venjur og siði. Og við þurfum að endurforrita meltingarkerfið og ekki síst bragðlaukana. En ég get sagt þér sem dæmi að þegar ég smakkaði fyrst pressaðan gulrótarsafa þá fannst mér hann með öllu bragðlaus og ef eitthvað bragð var af honum þá var það helst ógeðslegt moldarbragð. Skömmu síðar fannst mér gulrótarsafinn dísætur og frískandi og vissi fátt betra.
Þú segir að þetta vaxi þér í augum og það er engin furða. Þetta hefur oft í för með sér gríðarlegar breytingar en ég get glatt þig með því að þessar breytingar munu gefa þér nýja og betri líðan sem þú átt eflaust erfitt með að gera þér í hugarlund í dag.
Málið er að gera þetta á þeim hraða sem þú ræður við svo þú gefist ekki upp. Það væri frábært fyrir þig að fara til næringarþerapista og fá góða leiðsögn og handleiðslu í gegnum ferlið. Mestu máli skiptir að taka út þær fæðutegundir sem viðhalda ójafnvæginu í líkamanum og þeim sem kveikja stöðuga löngun í eitthvað sem er ekki gott fyrir þig.
Með hjálp næringarþerapista getur þú ákvarðað hversu hratt þú treystir þér í að fara af stað og hann getur leiðbeint þér með hvað væri gott að taka út og hvaða matartegundir er mikilvægt að taka inn í staðinn. Eins getur næringarþerapisti leiðbeint þér með fæðubótarefni sem hjálpa til í ferlinu.
Það sem ég byrjaði á persónulega var að taka út allt sem nærði gersveppaóþolið - allan viðbættan sykur, hvítt mjöl, ger og fleira. Seinna fékk rautt kjöt að fljúga út, svo kom kaffið, mjólkurvörurnar, öll aukaefni og að lokum gerðist ég alveg grænmetisæta og nú síðast sleppti ég út öllu glúteini. En þú verður að athuga að þetta gerðist á mörgum árum og ég er enn að læra inn á sjálfa mig og hvað mér er fyrir bestu.
Við erum öll ólík og það er mjög misjafnt hvað hver þolir og hvað er best fyrir hvern og einn. Það eru þó vissir þættir sem ég tel að allir ættu að hafa gott af að huga að. Það er að hafa mikið og gott úrval af grænmeti og ávöxtum inni í mataræðinu, sneiða hjá öllum viðbættum sykri, borða sem mest óunnið hráefni og drekka mikið vatn og góð te og safa.
Hér getur þú fundið þá næringarþerapista sem eru listaðir hjá okkur. Ég mæli einnig með að fara til hómópata til að fá remedíur sem geta styrkt þig í þessu ferli öllu saman. Margir þeirra eru líka með vél sem mælir alls kyns óþol og getur verið áhugavert fyrir þig að sjá niðurstöðu úr slíku prófi.
Eins og þú hefur eflaust komist að, þá er mikið efni hér á Heilsubankanum sem gæti hjálpað þér og bendi ég þér á að nota leitarvélina efst í hægri dálki síðunnar ef þú leitar að einhverju sérstöku.
Gangi þér rosalega vel og ég gef þér öll mín bestu hvatningarorð því ég veit að þú hefur að miklu að vinna.
Hildur M. Jónsdóttir
frkv.stj. Heilsubankans
|