UmhverfiðUmhverfisvernd

Af hverju fer kaffiverð hækkandi?

Það óar kannski mörgum við því hve poki af kaffibaunum er orðinn dýr. En það er ekki eingöngu græðgi kaffibaunaræktenda, skattar og álagning sem því veldur. Aðstæður til kaffiræktunar hafa breyst á síðustu árum og það ekki til batnaðar.

Helstu ræktunarsvæði kaffibauna eru í Mið-Ameríku, Brasilíu, Afríku og á Indlandi. Á þessum svæðum hefur veður breyst umtalsvert á síðustu árum og allt bendir til að þær breytingar megi rekja til gróðurhúsaáhrifanna.

Á vorin og fram á sumar þarfnast kaffibaunaplantan mikils raka og rigninga til að næra fræin sín. Þegar haustar þarf plantan þurrk til að fræin geti harðnað og þroskast. Hins vegar hefur rigningartíðin snúist við þannig að vorin og sumrin hafa reynst þurr en haustin of vætusöm.

Þessar breytingar á veðráttu hafa sett kaffibaunaræktendur í mikinn vanda. Uppskeran er orðin minni og fjöldi plantna drepst. Lítið er hægt að gera til að sporna á móti þessari þróun á meðan veðurskilyrði eru á þennan veg.

Það er því ekkert furðulegt að verðið á kaffibaunum hækki og þannig rekum við okkur enn á hve gróðurhúsaáhrifin eru farin að snerta hið daglega líf okkar.

Það sorglega er að sömu sögu má segja um nauðsynjavöru eins og mjöl og korn. Verð á þessum vörum hefur hækkað svo mikið að fólk sem býr við mikla fátækt getur ekki lengur keypt þessar nauðsynjavörur og útlit er fyrir gríðarlegar hörmungar ef alþjóða samfélagið bregst ekki hratt og örugglega við.

Höfundar: Helga Björt Möller og Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Fair Trade vörur

Next post

Fræsafn

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *