FjölskyldanHeimiliðSjálfsrækt

Hamingjan – Hér og Nú

Þegar ég er spurð hvert ég stefni í lífinu og hvert markmið mitt sé þá svara ég ,,að vera hamingjusöm”. Sumum finnst þetta háleitt markmið, öðrum finnst þetta frekja og enn öðrum finnst það of opið og almennt. Mín skoðun er að þetta er einfalt ef nálgunin er rétt.

Allt of margir setja hamingjuna á langtímaplanið og merkja hana sem útkomu og afleiðingu. Þeir ætla að verða hamingjusamir þegar þeir eru búnir að vinna sig upp í fyrirtækinu, búnir að kaupa sér uppþvottavél, þegar þeir verða komnir á draumabílinn, þegar þeir komast í draumaferðina til Karíbahafsins, þegar börnin eru komin á legg, þegar makinn hættir að drekka, þegar fólk verður farið að skilja hver ég er í raun og veru o.s.frv., o.s.frv., o.s.frv. Þ.e. einhverntíma í framtíðinni.

Ef þetta er viðhorf okkar þá er ég hrædd um að við verðum aldrei hamingjusöm. Því þegar við loksins náum markmiðinu að eignast nýja eldhúsinnréttingu eða nýtt golfsett þá erum við ekki mett, það er enn einhver tómleikatilfinning sem við þurfum að fylla upp í, núna með ,,ef ég bara myndi drulla mér í líkamsrækt þá liði mér svo miklu betur og yrði hamingjusöm”.

Ef okkur langar að vera hamingjusöm þá getum við ekki látið hamingjuna vera háða einhverjum skilyrðum og við getum ekki sett hana sem afleiðingu einhvers annars sem þarf að gerast fyrst. Nei, ef við viljum verða hamingjusöm þá snýst það um að vera hamingjusamur hér og nú. Hamingjan er ekki eitthvað lokatakmark heldur leiðin sjálf.

Í lífinu erum við alltaf að stefna að einhverju, eigum okkur drauma og erum alltaf að horfa til framtíðar. En við getum ekki látið hamingjuna gjalda alls þess sem við ætlum að framkvæma eða vera háða því hvort draumar okkar verða að veruleika eða ekki. Við verðum að hafa hamingjuna sem markmið í sjálfu sér og nota hana sem mælistiku til að átta okkur betur á hvernig okkur líður núna og hvernig við viljum lifa lífinu.

Ef við njótum ekki andartaksins núna þá missum við af því og það kemur ekki aftur. Við getum ekki notið einhvers sem er í framtíðinni, við getum eingöngu notið þess sem er hér og nú.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Heilbrigði og hamingja!

Next post

Litlu atriðin og aukakílóin

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *