MataræðiUmhverfiðUmhverfisvernd

Aukinn þrýstingur á erfðabreytt matvæli

Það kom fram í Bændablaðinu um daginn að aukinn þrýstingur er nú innan Bændasamtaka Evrópu að skoða aukna nýtingu á erfðabreyttum mat- og fóðurjurtum.

Þetta kom fram á 50 ára afmælisþingi Bændasamtaka Evrópu í Brussel um síðustu mánaðarmót. Talað var um að fyrir fáum árum hafi helsta vandamál samtakanna verið offramleiðsla á landbúnaðarvörum en nú standa samtökin frammi fyrir þeirri spurningu hvernig landbúnaðurinn komi til með að leysa það vandamál að ná að brauðfæða sívaxandi mannfjölda í heiminum.

Mikil fjölgun og vaxandi þjóðartekjur í löndum eins og Kína og Indlandi hefur haft í för með sér mikla aukningu á eftirspurn eftir hefðbundnum landbúnaðarvörum. Því var spáð á ráðstefnunni að það þyrfti að brjóta til ræktunar 15 – 20 milljónir hektara árlega á næstu árum til að mæta aukinni eftirspurn og fjölgun jarðarbúa. Það svæði samsvarar tvöfaldri stærð Íslands alls.

Og það kom fram á ráðstefnunni að ef til vill lægi framtíðin í að nýta meira erfðabreyttar mat- og fóðurjurtir, vegna þess að þær skila mun meiri uppskeru.

Nú er það þannig að Evrópa hefur staðið mjög fast á móti erfðabreyttum matvælum og hafa lönd innan Evrópu staðið sig best í að setja lög um merkingar á erfðabreyttum matvælum og jafnvel bann við innflutningi á þeim.

Í Bandaríkjunum hins vegar eru erfðabreyttar matjurtir mjög algengar í matvöru og er engin skylda að merkja þær sérstaklega. Til Íslands er til dæmis mikið flutt inn af þessum vörum og hafa neytendur á Íslandi enga möguleika á að fylgjast með því hvort þeir séu að versla erfðabreytt matvæli, því engin löggjöf er heldur hér á landi um merkingar á þessum vörum.
Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í nóvember 2008

Previous post

Íslensk jólatré

Next post

Hendum þriðjungi af keyptum mat

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *