MataræðiÝmis ráð

Grænmeti er HOLLT, en misbragðgott

Ertu að borða eins mikið af grænmeti og ávöxtum á dag og mælt er með?  Dagleg neysla ætti að vera allavega 5 skammtar.  Þetta er auðvelt markmið ef að þér líkar bragðið og finnst ávextir og grænmeti gott.  En hvað, ef að þér líkar ekki bragðið og finnst þessir flokkar mataræðisins hreinlega bragðvondir?

Þá eru slæmu fréttirnar þær, að þú svíkur líkama þinn um lífsnauðsynleg næringarefni, ef að þú sleppir þessum flokkum.  En góðu fréttirnar eru, að þú getur kennt bragðlaukunum að líka bragðið og njóta þessa að borða þessa hollu fæðuflokka.

Öll þekkjum við að finnast hitt og þetta gott eftir að við erum komin á fullorðins aldurinn, sem að við gátum alls ekki borðað þegar við vorum börn.  Bragðlaukarnir þroskast eins og við sem manneskjur.  Ekki er óeðlilegt að fullorðinni manneskju þyki t.d. rósakál gott, þó að sú hin sama hafi hreinlega kúgast yfir því, þegar að hún var 5 ára.  Minningin um rósakálið frá því við 5 ára aldurinn getur setið föst og því sneyðir viðkomandi alltaf framhjá því, þegar það er í boði.  En það er alveg þess virði að prófa aftur, því að upplifunin gæti orðið sú að þessi fæða verði hreint ein af þínum uppáhalds.

Sumir eru þannig að um leið og minnst er á orðið grænmeti, snúa þeir uppá nefið og segja ojbara – ég borða ekki svona gras!!!  Og láta svo oft fylgja – þetta er matur fyrir dýrin ekki okkur mannfólkið.  Sem betur fer, fækkar þeim stöðugt sem að hugsa og segja svona.  Úrvalið er orðið svo gott og margbreytilegt.  Grænmeti er ekki bara svona gras – og það er mjög ólíklegt að ekkert, af þeim hundruðum tegunda sem að til eru, séu bragðgóð þegar á annað borð er smakkað.  Eins og grænmetið er fallega fjölskrúðugt á litinn, er það jafn fjölskrúðugt á bragðið.  Ef að brokkolí eða rósakál er ekki það sem að hentar, gæti viðkomandi prófað sætara grænmeti t.d. sætar kartöflur eða belgbaunir.  Eða lauk, papriku, jafnvel chilly sem eru mun meira kryddað á  bragðið.  Þetta er allt grænmeti, ekki bara svona gras.

Ein leiðin til að borða grænmeti, fyrir þá sem að setja fyrir sig bragðið, er að skera það mjög smátt og setja útí annars konar rétti.  T.d. að skera sellerý eða gulrætur smátt og setja útí pottrétti.  Skera berin í smáa bita og setja útí hafragrautinn eða skella þeim í mixarann og útbúa sér gæðashake.  Grænmeti sem er svampkennt, eins og t.d. sveppir og eggaldin draga vel í sig bragðið, af hverju öðru sem verið er að elda og eru því góðir kostir fyrir þá sem að eiga erfitt með að sætta sig við hráa bragðið.

Kryddaðu grænmetið, settu góða dressingu yfir, balsamic, ólífuolíu, notaðu ferskar kryddjurtir.  Þurrristaðu furuhnetur, graskersfræ eða skelltu valhnetum eða öðrum slíkum útí salatið.  Þessi litlu atriði skipta miklu fyrir bragðlaukana og lítur líka vel út í skálinnni.  Það er ekki síður mikilvægt að grænmetið líti girnilega út.

Notaðu hugmyndaflugið, því að möguleikarnir eru óteljandi.  Því meira sem að við borðum af grænmeti því betur líkar okkur og bragðlaukum okkar við það.  Það er staðreynd að bragðlaukarnir læra að meta það bragð, sem að kemur oftar uppí munninn.

Previous post

Hnetur og möndlur

Next post

Enga fitufælni takk!

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *