JólUmhverfiðUmhverfisvernd

Jólatré og umhverfisvernd

Öll viljum við skreyta vistaverur okkar um jólin með fagurgrænu jólatré. Fátt eitt veit ég jólalegra en greniilminn og ljósin á trénu. En hvernig fer það saman við vernd fyrir náttúrunni?

Vinsælustu trén síðustu ár er svokallaður Norðmannsþinur sem er sérstaklega barrheldinn. Þessi tré eru flutt aðallega frá Danmörku þar sem þau eru einkum ræktuð. Í ræktuninni er notast við mikið magn eiturefna til að koma í veg fyrir illgresi og skordýr.

Fyrir utan öll eiturefnin sem notuð eru við ræktunina þá bætist orkueyðslan og mengunin sem hlýst af flutningnum.

Íslensku jólatrén eru ræktuð nær algerlega án eiturefna og Stafafuran er jafnvel barrheldnari en Norðmannsþinurinn en því miður er framleiðslan ekki næg til að anna allri eftirspurninni. En ég mæli eindregið með íslensku trjánum, bæði út frá mengunarsjónarmiði og eins eru öðrum og fleiri trjám plantað fyrir söluandvirði íslensku trjánna.

Gervijólatrén eru ekki lausnin ef við viljum hugsa út frá umhverfissjónarmiði þar sem gríðarlega mikla orku þarf til að framleiða þau, auk þess sem mikil mengun hlýst af því að flytja þau á markaði frá Asíu, þar sem þau eru framleidd.

Ég vil benda ykkur á að víða er hægt að fara og höggva sín eigin jólatré. Skógræktarfélögin bjóða fólki að koma á vissum tímum, gegn greiðslu að sjálfsögðu, og velja sér tré til að taka með heim. Þetta getur verið mikið ævintýri fyrir alla fjölskylduna.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Framtíðartækifæri Íslendinga felast í umhverfisvernd

Next post

Jólagjafahornið - ,,Njótum eða nýtum"

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *