UmhverfiðUmhverfisvernd

Nanótækni

Í Bændablaðinu fyrir stuttu birtist grein um öreindatækni eða svokallaða nanótækni. Það er tækni sem er ört vaxandi og meira og meira fjármagni er varið í rannsóknir á henni.

Nanótæknin er dæmi um vísindi sem fara hraðar af stað og í almenna notkun heldur en hæfni okkar til að skilja hvað er á ferðinni og áður en komið hefur í ljós hvaða mögulegu hættur geta stafað af henni. Þetta er sambærilegt við erfðatæknina og mögulegar hættur sem henni fylgja.

Nanótækni er sú fræðigrein sem fæst við að rannsaka eiginleika efna sem eru svo smá að þau eru mæld í nanómetrum. Einn nanómetri (nm) er einn milljarðasti hluti metra eða einn milljónasti hluti millimetra.

Sem dæmi má nefna að tíu vetnisatóm eru einn nm á lengd og frumuhimna er 30 nm, á þykkt.

Því fíngerðara sem efni er, þeim mun stærra er yfirborð þess. Það hefur áhrif á eiginleika efnisins þar sem atóm á yfirborði þess eru mun virkari en atóm inni í efninu. Þannig gengur efni auðveldar í efnasambönd og leiðir betur rafstraum og hita. Þennan eiginleika efnisins er það sem nanótæknin gengur út á að rannsaka.

Sem dæmi um árangur nanótækninnar má nefna að hafin hefur verið framleiðsla á efni sem teygist eins og gúmmí en leiðir straum eins og málmur. Einnig hafa verið framleidd bómullarföt sem hrinda frá sér óhreinindum og lykt.

Margir vísindamenn binda miklar vonir við möguleika í nýtingu nanótækninnar og þá einkum með kolefni sem hráefni þar sem hylki eða túbur úr kolefni eru notuð til að flytja lyf til fyrirfram ákveðins staðar í líkamanum.

Nanóhylkin eru hundraðfalt sterkari en stál en sex sinnum léttari. Þetta gerir þau áhugaverð sem byggingarefni í mannvirki, bíla og flugvélar.

Þetta er einungis brot af þeim möguleikum sem nanótæknin færir með sér og því er spáð að hún verði notuð við framleiðslu á gríðarlegum fjölda vara í nánustu framtíð.

En eins og ég sagði að framan þá er hraðinn í greininni meiri en hollt er fyrir okkur. Nú þegar eru á markaði hundruð efna sem innihalda nanóeindir og þúsundir eru í þróun en um leið er enn of lítið vitað um áhrif þessara efna á heilsu fólks og umhverfið.

Vísindamenn hafa áhyggjur af því að nanóeindir í mannslíkamanum geti, með því að losa svokallaða frjálsa radikala (free radikals), valdið bólgum, vefjaskemmdum og myndun æxla í líkamanum.

Hægt er að innbyrgða nanóeindir með innöndun og þær komast einnig inn í gegnum húðina. Þegar eindirnar eru komnar inn í blóðrásina geta þær komist fram hjá ónæmiskerfinu og valdið skaða á frumum.

Í rannsókn sem framkvæmd var árið 2005 var nanóhylkjum úr kolefni sprautað í lungu á músum og hlutu þær mikinn skaða af. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að nanóeindir geta safnast saman í dýrafrumum og þær geta dreifst með bakteríum í jarðvegi með óþekktum afleiðingum fyrir umhverfið.

Löggjöf um þessa tækni er skammt á veg komin og lítil umræða hefur farið fram um hugsanlegar neikvæðar hliðar hennar þrátt fyrir að nú þegar sé verið að selja vörur sem innihalda nanóeindir og á þeim eftir að fjölga hratt.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir – Byggt á frétt sem birtist í Bændablaðinu 27. febrúar 2007.

Previous post

Banna hefðbundnar ljósaperur

Next post

Erfðabreytt matvæli

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *