UmhverfiðUmhverfisvernd

Ísland, hreint, náttúrulegt og heilnæmt?

Það er gríðarlega ánægjuleg þróun sem hefur verið að eiga sér stað á síðustu árum. Fólk er að verða meðvitaðra um sitt eigið heilbrigði og um það að hlúa að umhverfi sínu og náttúru.

Fólk lifir stöðugt heilsusamlegra lífi, með aukinni hreyfingu í daglegu lífi, auk þess að velja hollar og góðar neysluvörur. Og ánægjuleg hliðarverkun á þessari heilsubylgju er aukin vakning fyrir lífrænni ræktun, umhverfis- og náttúruvernd.

Gríðarlegur vöxtur er í eftirspurn eftir lífrænni framleiðslu í heiminum og eru stórfyrirtæki eins og General Electrics, Hunts og fleiri að undirbúa sig til að svara þessari breyttu eftirspurn með því að kaupa upp framleiðslufyrirtæki í lífrænni ræktun, svo þau verði ekki undir í þessari nýju samkeppni.

Nú er svo komið að vöntun er á bændum sem stunda lífræna ræktun þar sem eftirspurn er orðin meiri en sem nemur framleiðslunni.

En hvar er Ísland statt í þessu breytta umhverfi? Við höfum lengi unnið að því að markaðssetja okkur sem hreint og óspillt land sem býður hreinar og náttúrulegar afurðir. Stöðugt berast fréttir af landvinningum hins góða íslenska hráefnis til framandi landa og nú síðast af vaxandi áhuga verslunarkeðja eins og Whole Foods í Bandaríkjunum sem bjóða eingöngu lífræna, vistvæna og óerfðabreytta vöru til sölu í sínum verslunum.

 

Hversu hreint er okkar ágæta land og hvernig er okkar framtíðarsýn?

Það er erfitt að styðjast við nokkuð annað en opinbera stefnu stjórnvalda þegar talað er um framtíðarsýn okkar. Og hvar liggja áherslur íslenskra stjórnvalda?

Það fyrsta sem okkur dettur í hug er að sjálfsögðu álframleiðslan þar sem mikið hefur verið rætt um hana að undanförnu. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar tala nú undir þeim formerkjum að álframleiðsla á Íslandi leggi lóð á vogarskálar sjálfbærrar þróunar í heiminum og dragi úr mengun í stærra samhengi. Þetta segja þeir með tilvísun til þess að ef álfyrirtækin væru ekki hér á landi, þá væru þau að framleiða ál annars staðar, þar sem þau myndu ekki notast við sjálfbæra og vistvæna orkugjafa.

En hverjar eru staðreyndir málsins? Til þess að geta mætt orkuþörf þeirra álvera sem nú þegar eru starfandi og þeirra sem komin eru á teikniborðið, þurfum við að ganga á nær eina óspillta landsvæðið sem eftir er í allri Evrópu. Við þurfum að virkja nær allar okkar ár með gríðarlegum breytingum á landslagi, útrýmingu fossa og flúða og tilkomu manngerðra uppistöðulóna. Uppistöðulónin auka svo enn á hættuna á sandfoki sem mun enn frekar ganga á þá viðkvæmu náttúru sem fyrir hendi er á Íslandi.

Og hvað með þá staðhæfingu að álframleiðsla á Íslandi sé eftir að minnka heildarmengun í heiminum? Álverin sjálf menga alltaf af framleiðslu sinni hvar sem þau eru. Minni mengun vegna vistvænnar raforku er staðreynd, en þá þurfum við bæði að hafa í huga, hverju er fórnað eins og að ofan greinir, auk þess sem flutningar til og frá landinu, á súráli annars vegar til álbræðslunnar og bræddu áli hins vegar til frekari vinnslu annars staðar, hefur gríðarlega mengun í för með sér. Flutningaskipin ganga fyrir svartolíu og þau flytja m.a. súrál til Íslands alla leið frá Ástralíu og svo er álið flutt út langar leiðir til frekari vinnslu.

Einnig er mjög varhugavert að setja fram þá fullyrðingu að ef álfyrirtækin væru ekki sett upp á Íslandi yrðu þau sett niður í þriðja heims hlutanum þar sem lítið sem ekkert eftirlit er með mengunarmálum og þar sem notast væri við mengandi orkuframleiðslu. Staðreyndin er sú að þrýstingur vestrænna ríkja á umbætur í örum heimshlutum vegna hnattrænnar mengunar er að aukast og ef lönd munu fara fram út mengunarkvótum munu vestræn ríki í síauknu mæli beyta þrýstingi til að vinna á móti því. Og einnig þarf að hafa í huga að með því að hafna mengandi stóriðju, setjum við aukinn þrýsting á stórfyrirtæki að huga að mengunarmálum og setjum gott fordæmi fyrir önnur ríki.

Annað sem ógnar viðkvæmri náttúru okkar er erfðatæknin. Á Íslandi hefur þegar fengist leyfi fyrir tilraunaræktun á erfðabreyttu byggi og er vaxandi áhugi á erfðabreyttri ræktun hér á landi. Í öðrum löndum eru dæmi fyrir því að erfðabreytt ræktun hafi gengið að lífrænni ræktun dauðri, þar sem erfðabreytta ræktunin smitast yfir í þá lífrænu sem getur þá ekki lengur talist lífræn. Við búum yfir frábæru tækifæri á Íslandi. Með því að auka stöðugt lífræna ræktun og banna með öllu þá erfðabreyttu, náum við forskoti á önnur lönd og verðum í stakk búin til að mæta aukinni eftirspurn eftir lífrænni, hreinni og heilnæmri vöru. Við stöndum sérstaklega vel að vígi þar sem Ísland er eyja, því þá ógnar erfðabreytt ræktun frá nágrannalöndum okkar, ekki lífrænu ræktuninni.

Ef stjórnvöld breyta stefnu sinni og hafna stóriðju, banna erfðabreytta ræktun og styðja í auknu mæli við þá lífrænu, þá munu Íslendingar geta með stolti byggt upp þá jákvæðu ímynd sem þeir hafa verið að vinna að árum saman og sagt af heilindum, að Ísland sé hreint, náttúrulegt og heilnæmt.

 

Höfundur: Hildlur M. Jónsdóttir – greinin birtist fyrst á vefnum í apríl 2007

 

Previous post

Kolefnismerktar vörur

Next post

Lífræn ræktun og flutningur

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *