JurtirMataræði

Túnfífill

Túnfífillinn gerir mörgum garðeigendum gramt í geði þar sem hann er álitinn hið versta illgresi og skaðræðisvaldur. Færri vita kannski að hann er mikil og góð lækningajurt og meinhollur.

Upplagt er að tína nýsprottin túnfífilsblöð og nota í salöt. Þegar þau verða stærri eru þau orðin mun beiskari og ekki eins góð. Blöðin eru mjög næringarrík og full af kalíum. Þau eru góð við bjúg þar sem þau eru mjög þvagdrífandi.

Ég hef notað rótina sem staðgengil kaffis og fólk hefur einnig notað hana sem kaffibæti. Rótin er stungin upp, hreinsuð og þurrkuð. Síðan er hún skorin niður í bita sem ristaðir eru í ofni og bitarnir svo malaðir í kaffikvörn. Ég bý til nokkurs konar expresso”kaffi” úr rótinni. Ég nota expresso kaffikönnuna mína sem fer beint á helluna og laga rótina í henni eins og um kaffi væri að ræða. Svo hita ég rísmjólk og set útí – Fíflalatte, gerið svo vel!!

Túnfífillinn er bitur á bragðið. Þetta bitra bragð virkjar losun meltingarensíma og hefur þannig góð áhrif á meltingu og matarlyst. Fífillinn bætir virkni lifrar og gallblöðru, örvar bris og insúlínframleiðslu og hefur þannig góð áhrif á blóðsykur.

Gott er að nota fíflate til að þrífa óhreina húð og hefur teið góð áhrif á bólur og exem.

Hægt er að nota fíflamjólk á vörtur og líkþorn.

Þar sem túnfífillinn hefur svona góð áhrif á starfsemi lifrarinnar er gott að nota hann í afeitrunarkúrum. Einnig er jurtin góð við harðlífi.

Túnfífillinn er með öllu skaðlaus og er engin hætta á ofnotkun hans.

Blómin hafa verið notuð til að búa til fíflavín og veit ég um konu sem býr til fíflahunang úr blómunum.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Kanill

Next post

Burnirót

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *