Vandamál og úrræði

Þurr húð

Lena setti inn fyrirspurn um húðþurrk inn á spjallið fyrir helgi og setti ég saman smá grein um vandamálið og mögulegar úrlausnir.

Lykilatriði í að halda húðinni heilbrigðri og glansandi er vökvi og góðar olíur. Vökvinn í húðfrumunum heldur okkur unglegum og gefur húðinni stinnt yfirbragð. Fitukirtlarnir sjá svo um að smyrja yfirborð húðarinnar, til að halda vökvajafnvæginu og verja húðina.

Mikill þurrkur í húð getur verið merki um undirliggjandi sjúkdóma eða merki um næringarskort af einhverju tagi. Eins er þurr húð oft aukaverkun af inntöku ýmissa lyfja.

Þurr húð getur verið merki um vanvirkni í skjaldkirtli og mikið ójafnvægi í raka húðar getur komið fram hjá fólki með sykursýki. Skortur á A-vítamíni getur komið fram í þurri húð og þá sérstaklega á höndum og fótum.

Eins og kom fram í svari Guðnýjar, inni á spjallinu, getur kláði í húð komið fram ef um mjólkuróþol er að ræða. Ég sjálf er með óþol fyrir mjólk og ef ég drekk mjólk fæ ég gríðarlegan og nær viðþolslausan kláða á afmarkað svæði á húð og oft fylgja rauð útbrot.

Ójafnvægi í raka húðar, þar sem skiptast á þurr og feit svæði, ásamt kláða í húð getur einnig verið merki um gersveppaóþol.

Hjá yngri konum er algengara að þurr húð skýrist af skorti á góðum olíum en eldri konur skortir oft bæði raka í húð og olíur. Það veldur hrukkumyndun, brúnum blettum, grófri húð og húðin verður slappari.

Þurr húð getur verið arfgeng en einnig getur slakt mataræði og þættir úr umhverfi orsakað þurrra húð.

Borðið því gott fæði sem samanstendur af grænmeti, ávöxtum, korni, fræjum og hnetum. Hvítlaukur, egg og aspas eru fæðutegundir sem halda húðinni mjúkri og unglegri. Borðið nóg af gulu og appelsínugulu grænmeti þar sem það inniheldur mikið beta karótín. Beta karótín breytist í A-vítamín í líkamanum, eftir þörfum. Sleppið öllum skyndimat og snakki og forðist brasaðan mat. Notist eingöngu við góðar, kaldpressaðar olíur og takið einnig góða olíu inn sem bætiefni.

Drekkið nóg af vatni. Daglegt magn ætti að ná tveimur lítrum. Góð regla er að hafa bolla eða glas af vatni við hendina, allan daginn. Varist að nota plastflöskurnar og sérstaklega endurtekið, þar sem efni úr plastinu geta losnað út í vatnið. Forðist að drekka kaffi og áfengi þar sem þessir drykkir hafa vatnslosandi áhrif. Sleppið einnig öllu gosdrykkja þambi.

Ekki er gott að vera of mikið í vatni og varist að nota of heitt vatn þegar þið baðið ykkur. Notið heldur ekki sterkar sápur eða hreinsivörur. Veljið aukaefnislausar og hollar snyrtivörur sem fást í heilsubúðunum.

Þið skuluð einnig varast að kynda of mikið heima hjá ykkur. Notið rakatæki eða setjið ílát með vatni í, ofaná ofnana hjá ykkur.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Sjá einnig: Að halda húðinni fallegri

Previous post

Slæmir tíðarverkir

Next post

Sýking í ennisholum

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *