MataræðiUppskriftirÝmis ráðÝmislegt

Einfalt, fljótlegt, hollt og gott í skólatöskuna

Pistill frá Sollu

Heimagerða nestisboxið hefur vinninginn

Mér finnst svo stórkostlegt að unglingurinn minn sem er farinn að maskara sig með lífrænum maskara á efri augnhárunum, skuli enn biðja mig um að útbúa fyrir sig nesti. Það liggur við að ég þakki almættinu fyrir hvern þann dag, sem heimagerða nestisboxið hefur vinninginn, fram yfir bakaríið og sjoppuna.

“Hey mamma, hvernig heldurðu að krakkarnir prófi að stríða mér núna, þegar ég kem líka með grænan drykk á flösku” spurði unglingurinn mig með húmor í röddinni. Já og hún er meira að segja komin með húmor fyrir öllum grænmetisbröndurunum og athugasemdunum sem hafa dunið yfir hana, því það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera með grænt nesti og eiga mömmu sem er utaná kálpokum. Hún er nefnilega búin að tengja.
Það kviknaði á perunni hjá henni:

Bólulaus húð = gott mataræði (mikið af grænum lit)
Ræktarlegt hár = gott mataræði + söl (nóg af stein og snefilefnum og kalki)
Fallegur húðlitur = gott mataræði (fullt af gulrótum, grænmeti og ávöxtum)
Kúlurass = labba í skólann + mataræðið
Hraustur líkami = gott mataræði + hreyfing + grænn drykkur
Hraustlegt og gott útlit = gott mataræði + hreyfing og útivera + grænn drykkur

Ég sem var farin að kvíða svo mikið unglingsárunum með útlitsþráhyggjunni og öllum þeim pakka. Við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir hvað lífið er stórkostlegt, það eru jú tvær hliðar á öllu, líka útlitsþráhyggju…..

 

Ég ber ábyrgð sem foreldri

Ég geri mér fulla grein fyrir því að sem foreldri þá ber ég ábyrgð á mataræði barnanna minna. Þrátt fyrir að það sé víðast hvar boðið upp á heitan mat í skólum, þá get ég ekki varpað ábyrgðinni yfir á matseljur og kokka útí bæ. Ég heyri að fólk er misánægt með skólamáltíðir, sumir eru í skýjunum á meðan aðrir eru ekki eins ánægðir. Í upphafi hvers skólaárs, kynni ég mér hvað er í boði matarlega séð í skólanum hjá dóttur minni. Ég veg síðan og met útfrá því, hvort hún tekur þátt í matnum. Hvort sem við veljum af eða á þá þurfa flest börn líka nestisbox, því oftast er verið að tala um 1 heita máltíð í hádeginu.

 

Umhyggja og kærleikur í boxi með fallegri servéttu

Um daginn heyrði ég fyrir tilviljun afhverju unglingurinn minn velur enn heimagerða nestisboxið. Hún var að tala við stóru systur sína sem hún lítur mjög mikið upp til og voru þær að ræða um að skólinn væri að byrja o.fl. Segir þá unglingurinn: “Mamma er svo fyndin, hún heldur að það skipti öllu máli að setja flotta servéttu í nestisboxið” (þarna koma smá fliss) “mér finnst bara eitthvað svo krúttlegt að opna nestisboxið og sjá allt kálið, sem minnir mig á hana flautandi á náttbuxunum að velja servéttu í nestisboxið”. Þær virtust báðar tengja við þetta og skelli hlógu……..

 

5 eða jafnvel 7 eða 9 á dag

Það er alltaf alls staðar verið að benda okkur á hvað mataræði skipti miklu máli þegar börnin okkar eru annars vegar. Alls konar rannsóknir skjóta upp kollinum eins og gorkúlur sem styðja að aukin neysla á grænmeti og ávöxtum hjá börnum skili sér m.a. í:

  • betri einbeitingu
  • meiri vinnufrið og aukin afköst í tímum
  • meira jafnvægi
  • hamingjusamari og ánægðari börnum
  • hraustari og heilbrigðari líkama

Það er soldið lógískt að meiri hollusta = minni óhollusta….. Ok – við vitum þetta flest, erum gjörsamlega með þetta á hreinu. Það er byrjunin. Næsta skref er að framkvæma. Þá fyrst gerist eitthvað – þegar við gerum eitthvað.

Og góðu fréttirnar eru að flest börn eru sólgin í grænmeti og ávexti, þ.e. voru það alla vegana áður en við spilltum þeim.

Hér koma nokkrar hugmyndir fyrir ykkur í nestisboxið.

Litlir ávaxta- og grænmetispinnar

Pizzusnúðar

Grænmetisvefjur

“Blóma” múffur

 

Spelthrökk-kex með áleggi a la Júlía
Þetta er uppáhalds kexið hjá unglingnum mínum
hér koma nokkrar af hennar uppáhalds áleggs samsetningum

  • hnetusmjör* + tómatsneiðar + graslaukur
  • hnetusmjör* + eplasneiðar + heimagerð sulta
  • hnetusmjör* + alfalfa spírur
  • sesamsmjör + agúrkusneiðar + graslaukur
  • hummus + sólþurrkaðir tómatar

Gangi ykkur sem allra best
Höfundur: Sólveig Eiríksdóttir 

Previous post

Spínat og hnúðkálssalat

Next post

Nokkrir punktar fyrir konur með börn á brjósti

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *