HráfæðiMataræðiUppskriftirÝmis ráð

Hráfæði

Pistill frá Sollu

 

Hráfæði er það allra heitasta í heilsuheiminum

Allt fer í hringi, líka hráfæði
Það er svo merkilegt hvernig allt fer í hringi. Eitt það heitasta í heilsuheiminum í dag er hráfæði. Amma mín og nafna Sólveig Jesdóttir kynntist hráfæði í Kaupmannahöfn árið 1918 og hreifst með. Ég kynntist því árið 1996 og hreifst með. Og í dag er fjöldinn allur af fólki að hrífast með.

Ég man fyrir nokkrum árum þá rakst ég á auglýsingu í blaði þar sem verið var að auglýsa hráfæðinámskeið á íslensku og þar sagði að þetta væri í fyrsta sinn sem slíkt væri haldið hérlendis. Ég giska á að þetta hafi verið árið 2004. Ég hélt hráfæðinámskeið hérlendis árið 1997 og amma mín og nafna hélt hráfæðinámskeið 1951 hér á landi. Ég hafði ekki hugmynd um að amma hefði verið í hráfæðinu. Pabbi opnaði sig einn góðan veðurdag þegar ég var með lítinn fyrirlestur um hollustu hráfæðis fyrir hann. Það fer nefnilega allt í hringi og þegar það kemur tilbaka og aftur upp á sjónarsviðið þá verður allt eins og það sé nýtt því orkan er svo ný. Þetta finnst mér ótrúlega krúttlegt.

“Þú ert aldeilis að feta í fótspor ömmu þinnar Solla mín” sagði pabbi með ótrúlega föðurlegri umhyggju í röddinni. “Ha, hvað meinarðu?” Hún var hjúkrunarkona og ég var veitingakona. “Hún var alla tíð mjög hrifin af hráfæði og þegar hún lést 93 ára þá var hún enn að dásama það”. Mig setti hljóða stutta stund og síðan stökk ég á fætur og fór beint í bókahilluna og dró fram allar hráfæðibækurnar sem amma hafði gefið mér.

 

Lifandi fæða gefin út 1951 á Íslandi
Þarna fann ég þvílíku fjársjóðina. Lifandi fæða eftir Kristine Nolfi gefin út á Íslandi árið 1951. Þar var m.a. að finna mynd af Kristinu sjálfri í Listamannaskálanum í Reykjavík að halda fyrirlestur fyrir troðfullu húsi um mataræði og heilsufar, 23.ágúst 1950. Þar var ekki 1 sæti autt og stóð prúðbúið fólk með hatta og tilheyrandi meðfram öllum veggjum.

Allt om groddar (Allt um spírur) frá 1978 eftir Per og Gitu Sellman. Þar var mynd af átrúnaðargoðinu mínu Dr. Ann Wigmore þar sem hún sótti nágranna okkar Svía heim og hélt fyrirlestur í “Halsens Hus” (heilsuhúsinu). Lógó Halsens hus var hús með epli innan í……. Útgáfufyrirtækið á bókinni hét Heilsa……

Feasting on raw foods eftir Carole Collier. Ótrúlega flott hráfæði uppskriftabók með fullt af uppskriftum og allskonar fróðleik um áhöld, næringu, matarplani og öðru áhugaverðu efni.

Þarna stóð ég agndofa yfir þessum fjársjóðum sem ég hafði átt árum saman upp í hillu án þess að gefa þeim mikinn gaum. En góðu fréttirnar voru að þessar bækur eru sígildar og byrjaði ég strax að drekka allan fróðleikinn í mig, þann sama og fjöldi fólks um allan heim hafði gert árum, áratugum og árhundruðum saman.

 

Hvað er hráfæði?
En hvað er hráfæði? Er það hrátt rifið hvítkál eða hráar kartöflur? Eftir því sem ég kynnist hráfæðinu betur finnst mér það í raun og veru vera matreiðsluaðferð til að matreiða grænmeti og ávexti, hnetur og fræ, þara og spírur á fjölbreyttan hátt. Þar er hráefnið ekki hitað upp fyrir 47*C eða 105*F. Þetta er gert til að ensýmin haldist sem óskertust í hráefninu og að kroppurinn þurfi að eyða sem minnstri orku í að melta og nýtt sér orkuna úr matnum til uppbyggingar, viðhalds og viðgerðar.

Margir sem þjáðst hafa af hinum ýmsu kvillum finna mikin mun á heilsunni og hefur þetta fæði gert mörgum mjög gott. Á seinni tímum hefur þetta verið mikið notað sem megrunarfæði. Það er stundum sagt að það skipti mjög miklu máli hverju við sleppum úr fæðunni. Í hráfæði sleppum við öllum mjólkurvörum, öllu ruslfæði, brösuðum mat, djúpsteiktum mat, gosdrykkjum og sælgæti, transfitu ofl.ofl. Við þessar aðgerðir getum við ekki annað en grennst. Enda held ég að ef fólk ætli sér að grennast er það fyrst og fremst hugarfarið sem þarf að breytast, nokkrar gulrætur til eða frá ……… tja.

Mér hefur alltaf fundist afar mikilvægt að borða mikið af grænmeti og öðru heilsuhráefni á sem fjölbreyttastan hátt. Þar finnst mér hráfæðið koma sterkt inn. Hvort sem við tileinkum okkur það í einu og öllu eða sem frábæra viðbót við mataræðið okkar. Hver og einn er einstakur og þarf að finna út hvað hentar honum/henni. Mín reynsla segir mér að hráfæði matreiðsluaðferðin er frábær viðbót við aðra matargerð, enda blanda margir af flottustu kokkum heims hráfæðinu listilega saman við annan mat.

 

Lifandi fæði
Er lifandi fæði það sama og hráfæði? Nei, lifandi fæði er í raun og veru allt annað og afar ólíkt hráfæði þegar við skoðum það í grunninn. Í lifandi fæði er áherslan lögð á að fæðan sé lifandi, t.d. eru allar hnetur og fræ lagðar í bleyti áður en þær eru notaðar. Í hráfæðinu er grænmetið notað hrátt, en dr. Ann Wigmore, oft kölluð móðir lifandi fæðis, vildi hafa hráefnið hrátt en samt unnið. Hún lagði mikla áherslu á að það væri annað hvort sett í blandarann, væri sýrt eða gerjað eða unnið á annan hátt.

Það sem lifandi fæði og hráfæði eiga sameiginlegt er að hráefnið er ekki eldað með því að hita það upp. Dr.Ann lagði mikla áherslu á að við þyrftum að hjálpa kroppnum við að melta matinn og notaði mikið rejuvelac sem á íslensku er kallað kornsafi eða spírusafi til að aðstoða kroppinn, enda er þetta safi sem er bruggaður með spíruðu korni og er stútfullur af góðum ensýmum fyrir kroppinn.

Í lifandi fæði er mjög mikil áhersla lögð á samsetningu fæðunnar, eingöngu notuð 1 fita í hverri máltíð, ekki blandað saman grænmeti og ávöxtum nema eftir ákveðnu kerfi. Einnig er ein af grunnundirstöðum lifandi fæðu að hafa matinn basískan. það þýðir að hlutfallið milli sýru og basa sé 20% súrt og 80% basískt. Ekki má gleyma ofuráherslu dr. Ann á að hráefnið væri lífrænt og að kroppurinn væri bara bústaður fyrir andann sem yrði að rækta vel með andlegri ástundun.

 

Sælkera matur
Ég er mikill sælkeri, elska að borða góðan mat sem einnig er hollur. Þannig hef ég þróað mitt eigið kerfi sem ég nota á mínu heimili, þar sem ég blanda saman: hráfæði, lifandi fæði, basísku fæði, samsetningu fæðunnar og legg áherslu á að hráefnið sé lífrænt og að maturinn sé bragðgóður.

Það er munur á sjúkrafæði og almennu fæði. Lifandi fæði hefur oft verið nefnt sem sjúkrafæði og hráfæði sem almennt fæði, enda ósköp auðvelt að matreiða góðan mat úr því. Veik manneskja þarf að borða í takt við ástand sitt. Við erum öll einstök, hvert með sínar þarfirnar. Það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum.

Ég hef aldrei haft áhuga á megrunarfæði, ég trúi ekki á megrun sem slíka. Ef við erum að borða hollan og góðan mat úr góðu hráefni með skynsamlegum matreiðsluaðferðum þá gerist galdur með kroppinn. Ég heyri að mörgum langar til að verða hollari en setja kunnáttuleysi fyrir sig. Hér hef ég sett saman fyrir ykkur einfalda hráfæði máltíð, aðalréttur, meðlæti, salat og desert. Allar þessar uppskriftir passa líka ótrúlega vel með kjöti, fiski og almennu grænmetisfæði. Ég skora á ykkur að víkka sjóndeildarhringinn og kynna ykkur galdur hins hráa fæðis. Þið þurfið ekki að fara út í neina öfga, þetta er jú bara mjög einföld matreiðsluaðferð sem allir geta nýtt sér sama hvernig mat þið borðið dags daglega.

Gangi ykkur sem allra best. Solla

 

Litlar brokkolíbökur

Spínat og hnúðkálssalat

Fylltir tómatar

Mangodesert

 

Höfundur: Sólveig Eiríksdóttir

 

Previous post

Hvernig skal meðhöndla grænmeti

Next post

Spínat og hnúðkálssalat

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *