MataræðiÝmis ráð

Blómkál -Skemmtileg tilbreyting í eldhúsinu

Pistill frá Sollu

Blómkálshúmor

Ein af skemmtilegri bíómyndum sem ég hef séð (alla vegana í minningunni) heitir Ævintýri Picassos. Atriðið sem mér finnst standa upp úr og ég hlæ alltaf jafn mikið af, er þegar fullt af fólki er í veislu og borðar ótrúlega mikið blómkál og í kjölfarið þá verður vindgangurinn svo mikill að fólkið flýgur um veislusalinn eins og stórir þrestir.

 

Bragðgóðar uppskriftir

Mér finnst ég reyndar alltaf þurfa að tyggja hrátt blómkál vel svo að meltingin samþykki það þegjandi og hljóðalaust.

Best finnst mér ef ég er að borða það hrátt, að marinera það t.d. í ólífuolíu og sítrónusafa og tamarisósu. Blómkál (Brassica oleracea var. botrytis ) er ræktunarafbrigði garðakáls sem er af sömu ætt og spergilkál. Blómkálið þolir vel kulda og því tilvalið til ræktunar hér á Íslandi yfir sumartímann. Enda byrja búðirnar að fyllast af blómkáli seinni partinn í júlí og fáum við íslenskt blómkál langt fram eftir hausti. Þá er verðið oft mjög hagstætt og um að gera að nota þetta flotta hráefni á sem fjölbreytilegastan hátt. Margir eru séðir og kaupa vel inn og fylla frystinn, því það er mjög auðvelt að sjóða það niður og frysta.

 

Fryst blómkál

Þegar þið frystið blómkál þá þurfið þið pott með sjóðandi vatni og helst sigti sem passar í. Síðan skulið þið hafa tilbúið klakavatn til kælingar.

1. Þvoið blómkálið og skerið í passlega stóra bita
2. Best er að setja kálið í sigti og síðan útí pott með sjóðandi vatni í um 10 – 20 sek.
3. Kippið sigtinu uppúr og skellið beint í skál með köldu vatni og klaka, til að snöggkæla það
4. Sigtið vatnið frá og létt þerrið kálið, setjið í frystipoka sem þið lofttæmið með því að sjúga loftið úr pokanum og loka.
5. Hafið skammtana passlega stóra, þeir geymast í frysti í 3-6 mánuði allt eftir hvort þið hafið öfluga frystikistu eða lítið frystihólf.

 

Stútfullt af vítamínum lítið af kaloríum.

Blómkálið er stútfullt af vítamínum en inniheldur lítið af kaloríum. Sérstaklega er það C-vítamínríkt ásamt því að innihalda mikið B-5 og B-6 vítamínum. Það er fitusnautt og meinhollt.
Á Indlandi er turmeric kryddað blómkál gamalt húsráð til að styrkja ónæmiskerfið og hreinsa út bakteríur o.fl. Þetta er því ótrúlega flott hráefni fyrir kroppinn. Enda eru möguleikarnir óendanlegir við að matreiða það.
Blómkálið hefur alltaf verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér vegna þess að það er frekar bragðlítið, en á móti kemur að það á mjög auðvelt með að draga í sig alls konar brögð. Það er hægt að borða það hrátt og er mikið notað í hráfæði, bæði í staðin fyrir hrísgrjón, t.d. í hrá-sushi, í hráfæði-karrý, saltöt og kæfur. Það er mjög algengt í súpur, steikt, stir fry, gufusoðið, soðið, bakað, gratinerað, grillað. Það er mikið notað í Indverskri matargerð og er sérstaklega vinsælt í alls konar karrýrétti. Þegar þið farið út að borða á indverskum veitingastöðum þá skulið þið kíkja eftir orðinu: Gobi á matseðlinum. Það kemur úr Hindi eða Urdu og þýðir blómkál.

Hér koma nokkrar blómkálsuppskriftir fyrir ykkur, endilega verið dugleg að nota blómkálið núna á meðan það býðst, því það jafnast fátt á við nýtt íslenskt blómkál.

Gangi ykkur sem allra best
Solla

Öðruvísi blómkál í karrýsósu

Nýstárleg blómkálsstappa

Blómkálssalat í kasjúmajonesi

Blómkálssúpa m/ofaná

Blómkálsgratin

Höfundur: Sólveig Eiríksdóttir

Previous post

Aukning í grænmeti og ávöxtum, sykurinn minnkar

Next post

Valhnetur betri en ólífuolía

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *