Heilsa

Enn vaxandi notkun á sýklalyfjum

Í Speglinum á Rás 1 á þriðjudaginn kom fram að 6% aukning varð á notkun sýklalyfja á milli áranna 2005 og 2006.

Rætt var við Dr. Vilhjálm Ara Arason en hann varði doktorsritgerð í október á síðasta ári sem fjallaði um fjölgun fjölónæmra bakteríusýkinga vegna notkunar sýklalyfja hjá börnum.

Dr. Vilhjálmur hefur verið duglegur að skrifa um þetta málefni í dagblöð þar sem hann hefur hvatt bæði almenning og lækna til að fara varlega í notkun sýklalyfja nema í alvarlegri tilvikum.

Í rannsókn Vilhjálms sem liggur til grundvallar doktorsritgerðar hans kemur meðal annars fram að eftir hverja sýklalyfjagjöf hjá börnum, bera um 30% barnanna fjölónæmar bakteríusýkingar í líkama sínum. Þessi börn fara svo út í samfélagið og smita önnur börn af þessum sýkingum sem sýklalyf ráða ekki eða illa við.

Einnig kemur fram að eftir sýklalyfjanotkun er barnið næmara fyrir utanaðkomandi smiti, svo sem á leikskólum, og er því hættara á endurteknum sýkingum

Þriðja atriðið sem mér finnst rétt að nefna er að niðurstöður rannsóknarinnar benda til að það sé hugsanlega samband á milli ofnotkunar sýklalyfja við eyrnabólgum og endurtekinna eyrnabólgusýkinga og ísetningu hljóðhimnuröra. Fram kom að yfir 30% barna á Íslandi fá hljóðhimnurör á fyrstu 6 árum ævi sinnar. Eins kom fram að á svæðum þar sem sýklalyfjanotkun var mikil þá var algengara að notuð væru breiðvirkari sýklalyf og einnig var notkun röra meiri. Hæðsta hlutfallið var 44% – þ.e. 44% barna á ákveðnu svæði höfðu fengið rör.

Það ber að hafa í huga að rannsóknin stóð yfir í 10 ár og var framkvæmd í þremur hlutum, þannig að Vilhjálmur var farinn að vara við og benda á þessa áhættu löngu áður en hann varði doktorsritgerðina.

Þrátt fyrir þetta vex ávísun sýklalyfja um 6% á síðasta ári, frá árinu á undan. Og þá ber að hafa í huga að vöxturinn er meiri hjá börnum heldur en fullorðnum þar sem þau fá mun meira af sýklalyfjum heldur en fullorðnir.

Það sem þarf að gera til að vinna á móti þessari þróun er að leyfa börnunum að vinna sjálf á sýkingum án þess að grípa til notkunar sýklalyfja. Og samkvæmt Vilhjálmi, þá þarf góða eftirfylgni lækna til að fylgjast vel með.

Þarna er hins vegar pottur brotinn þar sem algengt er að fólk gefi sér ekki tíma til að leita til sinna lækna heldur fari á læknavaktir, þar sem ekki er hægt að búast við sama þjónustustigi og eftirfylgni oftast engin.

Það sem alvarlegast er í þessu, er sú hætta að við stefnum í þá átt að komast á sama stað í heilsufarsvandamálum, eins og áður en pensilínið var fundið upp.

Að lokum vil ég benda ykkur á grein hér í Heilsubankanum sem heitir: Heilsuþrepin 7. Hún fjallar um það hvernig við getum lent í vítahring ef við stöðugt grípum fram fyrir hendurnar á líkamanum og gefum honum ekki tækifæri á að vinna úr sínum vandamálum sjálfur. 

Previous post

Engifer

Next post

Ennisholusýkingar og fúkkalyf

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *