Börn og unglingarFjölskyldanHeimilið

Áhrif dagvistunar á börn

Á vef New York Times í gær segir frá langtíma rannsókn sem skoðaði áhrif dagvistunar á börn og áhrif hennar á hegðun þeirra seinna meir.

Niðurstöðurnar sýndu að börn sem dvöldu á leikskólum í eitt ár eða lengur voru líklegri til að sýna truflandi hegðun í skóla og að áhrifin voru til staðar allt upp í sjötta bekk. Áhrifanna gætti þrátt fyrir að leiðrétt væri fyrir kyni, tekjum fjölskyldu og gæðastarfi leikskólanna.

Það jákvæða sem kom út úr rannsókninni var að börn sem dvöldu á hágæða leikskólum voru með betri orðaforða þegar komið var upp í grunnskóla.
Rannsóknin náði til 1300 barna sem dvöldu ýmist heima með foreldri, í dagvistun í heimahúsi eða á leikskólum.

Á níunda áratug síðustu aldar voru miklar umræður í Bandaríkjunum um áhrif dagvistunar á börn. Aðilar vildu meina að það sem skipti öllu máli væri gæði starfsins sem færi fram á leikskólunum. En þessi rannsókn ásamt fleiri smærri rannsóknum sýna að það er fleira sem kemur til.

Viðbrögðin við þessari rannsókn hafa eins og gefur að skilja verið mikil og menn hafa misjafnar skoðanir á niðurstöðunni. All stór hópur hefur gagnrýnt hvernig staðið hafi verið að rannsókninni og aðrir hafa bent á að ekki hafi verið teknir inn mikilvægir þættir, eins og til að mynda starfsmannavelta leikskólanna.

Rannsóknin fór af stað árið 1991 og hefur hún náð til sömu 1300 barnanna allan þann tíma. Ætlunin er að halda áfram að fylgja þessum börnum eftir, allt upp í menntaskóla.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í mars 2007

Previous post

Pössum heyrnina

Next post

Er sjónvarpið notað sem barnapössun?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *