Af hverju „lek görn“ gæti verið orsök liðverkja
„Lek görn“ — eða öllu heldur aukið gegndræpi í þarmaveggjum — er ein heilsuáskorunin sem í hljóði veldur og/eða tengist svo mörgum af þeim einkennum sem ég sé hjá skjólstæðingum mínum: langvarandi liðverkir, þreyta, meltingaróþægindi, heilaþoka, húðvandamál, og jafnvel erfiðar skapbreytingar.
Það er ekki alltaf augljóst við fyrstu sýn að verkir í hnjám eða úlnliðum geti átt rót sína í slæmri þarmaheilsu. En í starfi mínu hef ég fengið staðfestingu á þessari tengingu aftur og aftur: þegar meltingin er úr jafnvægi, borgum við fyrir það með verkjum og vanlíðan víða um líkamann.
Hvað er „lek görn”
Þarmaveggirnir eiga að vera eins og fín sía — sem hleypir góðum næringarefnum í gegnum sig inn í blóðrásina, en heldur óæskilegum sameindum, bakteríum og eiturefnum á öruggan hátt inni í þörmunum, á leið þeirra út úr kerfinu. Þegar frumuveggurinn sem þarmaveggirnir samanstanda af, skaddast eða frumutengslin gefa eftir, geta stærri sameindir eins og óniðurbrotnar fæðuagnir, bakteríur, eiturefni og fleira, sloppið inn í blóðrásina þar sem þeim er ekki ætlað að komast í gegn. Þetta er það sem kallað er of mikið þarmagegndræpi eða lek görn.
Þegar ónæmiskerfið þitt greinir þessa innrásaraðila, setur það af stað ónæmissvar og bólguviðbrögð. Langvarandi bólguástand er rót svo margra erfiðra heilsuáskoranna sem erfitt getur verið að festa hendi á, þar á meðal langvarandi liðverkir.
Þú gætir talið að liðverkir séu einfaldlega aldurstengt vandamál! Og eins og svo margir, heldurðu mögulega að vandamál tengd meltingu og liðamótum séu aðskilin vandamál. En reynsla mín og rannsóknir styðja endurtekið þessi tengsl eða það sem er kallað “gut-joint axis” eða “þarma-liðs ásinn”, þar sem gegndræpi þarmanna kallar á ónæmisviðbrögð sem ná til liðanna.
Til að mynda sýna rannsóknir að merki um truflun á gegndræpi þarmanna, eru til staðar hjá fólki með slitgigt og aðra bólgusjúkdóma í liðum. Með öðrum orðum: sköddun á þarmaveggjunum getur hleypt miður góðum hlutum inn í blóðrásina sem valda bólgum í líkamanum, sem birtist að lokum sem verkir og stífni í liðum.
Að auki við bólgusvarið, getur lek görn mögulega orsakað þróun sjálfsónæmissjúkdóma. Ég mun fjalla frekar um það síðar.
Af hverju þetta skiptir máli fyrir þig
Ef þú ert að upplifa viðvarandi liðverki, bólgur eða stífni — og „venjulegar“ eða „hefðbundnar“ meðferðir hafa ekki gefið þér fulla úrlausn — gæti meltingin verið dulin undirrót þessara vandamála þinna, sem líkaminn þinn reynir eftir bestu getu að gefa þér merki um.
Það er svo auðskilið að átta sig ekki á þessum tengslum, sérstaklega þegar einkennin sem hrjá þig koma helst fram í fingrum þínum, hnjám, öxlum eða mjöðmum. En heilunarbrautin gæti átt upptök sín við þarmaveggina.
Þegar meltingin er í ójafnvægi, sérðu oft fylgikvilla eins og uppþembu, fæðuóþol, heilaþoku, skapsveiflur eða orkuleysi. Þetta eru ekki ótengd vandamál… þau eru vísbendingar sem benda til flóknara undirliggjandi ójafnvægis.
Hvað þarf að koma til
Þegar ég fylgdist með þróun á rannsóknum tengdum lekri görn, þá uppgötvaði ég loksins pússlið sem vantaði allan tímann í vinnu minni við að ná aftur heilsu. Það var sá þáttur sem hindraði batann, þrátt fyrir allar mínar tilraunir, allt sem ég var búin að prófa og gera.
Það eru nokkrir þættir sem þurfa að koma til svo við náum að koma í veg fyrir leka görn:
· Styðja meltinguna: Eitt af því sem getur valdið „leka“ í þörmunum er að meltingin okkar er ekki nógu öflug og hún nær ekki að brjóta niður sameindir fæðunnar fullkomlega í ferlinu. Þá geta óniðurbrotnar sameindir raskað þéttninni í þarmaveggjunum.
· Byggja upp örveruflóruna: Þegar þarmaflóran okkar er úr jafnvægi, getur ofvöxtur óæskilegra örvera raskað þarmaslímhúðinni á ýmsa vegu. Með því að leiðrétta þetta ójafnvægi, drögum við úr og vinnum gegn ertingu og neikvæðum áhrifum á þarmavegginn.
· Styrkja frumuvegginn (epithelium): Það er frumuveggur sem umlykur meltingarkerfið og verndar aðra hluti líkamans frá óæskilegum aðskotahlutum sem eiga ekki að komast í gegnum þennan vegg. Það eru ýmsir þættir sem geta ráðist á, raskað og skaðað þennan frumuvegg og við þurfum að halda öllu úti sem ógnar þessum útvegg meltingarkerfisins, á meðan við veitum líkamanum réttar byggingareiningar til að endurbyggja og styrkja þarmavegginn.
Hvað þú getur gert sjálf/ur (áður en þú nærð að stíga inn á prógrammið mitt):
· Hlustaðu á líkamann þinn. Hvaða einkenni hefur þú fyrir utan liðverkina? Hvaða vanda ertu að takast á við, svo sem meltingarvandamál orkuleysi, skapsveiflur eða ytra álag og streitu? Líkaminn þinn sýnir þér merki og talar við þig í ákveðnum mynstrum og kallar eftir hjálp.
· Fókuseraðu á grunninn. Gerðu þitt besta í að byrja á að taka út skaðleg efni úr fæðunni, svo sem unna fæðu, sykur, hreinsaðar og unnar mjöltegundir og dragðu úr áfengisneyslu. Með því að neyta minna af þessum skaðvöldum, drögum við úr bólguálagi. Þessir þættir spila stóra rullu í undirliggjandi ógnum við leka görn. Þetta getur verið mikilvæg byrjun í að vinna sig í átt til bata, þó að fleira þurfi að koma til.
· Styrktu þarmavegginn. Kynntu þér þarma‑vænt fæði og venjur. Mikilvægt er að auka neyslu á trefjaríku plöntufæði fyrir þá sem þola það, til að fjölga góðum örverum (sem aftur framleiða efni sem styðja við þarmavegginn). Neyttu hollra fitugjafa eins og lárpera (avocado) og feits fiskmetis til að vinna gegn bólgum.
· Gerðu þitt til að vinna gegn streitu. Streita er þáttur sem getur verið mikill skaðvaldur gegn góðri líðan. Við vitum að streita getur haft slæm áhrif á mikilvæga þætti eins og svefngæði og gott jafnvægi í taugakerfinu. En til viðbótar þurfum við að átta okkur á að þarmheilsan tengist því náið hversu vel líkaminn þolir streitu, hún hefur jafnframt áhrif á svefngæðin okkar og hversu sterkt taugakerfið okkar er.
Við getum upplifað liðverki sem einangrað vandamál, en orsakirnar geta legið dýpra. Þegar þú vinnur á rót vandans, gefur þú þér raunverulega möguleika á varanlegum bata. Þegar þú eflir meltingarkerfið og þarmastarfsemina, leggurðu grunn að betri meltingu, frásog næringarefna eykst, bólgur minnka, liðirnir losna undan spennu og verkjum og orkan byggist upp á ný.
Það gleður mig fátt meira en þegar ég verð endurtekið vitni að því þegar nemendur á námskeiðunum mínum frelsast frá lamandi verkjum og ná að hreyfa sig frjálst að nýju; vinna sig upp úr lamandi orkuleysi og vakna til lífsins á ný. Og þau byrjuðu öll á því að byggja upp grunninn og koma lagi á undirliggjandi vandamál, í stað þess að einblína einvörðungu á að draga úr einkennum.
Með hlýju,
Hildur 🧡