Heilsubankinn var opnaður 10. október 2006.

Stofnandi hans, eigandi og ritstjóri er Hildur M. Jónsdóttir.

Hildur hafði verið að kljást við heilsuáskoranir meira og minna allt sitt líf og leitaði stöðugt leiða til að bæta líðan sína. Bjó hún orðið yfir miklum fróðleik um heilsutengd málefni, og var hvött til þess að miðla þekkingu sinni á einhvern hátt, þannig að fleiri gætu notið góðs af. Á sama tíma fannst henni vanta vettvang þar sem fólk gæti fræðst um leiðir til að byggja upp og bæta heilsu sína, til viðbótar við þær aðferðir sem hefðbundna heilbrigðiskerfið bauð upp á.

Með stofnun Heilsubankans tókst Hildi að sameina þetta tvennt; að miðla fróðleik og skapa þekkingarbanka fyrir heilsutengd málefni.

En þrátt fyrir að gefast aldrei upp í leit að lausnum, hélt Hildur áfram að berjast við versnandi heilsuleysi. Fyrir nokkrum árum var svo komið að röð langvinnra sjúkdóma hafði nánast lagt líf hennar á hliðina. 

Margir hefðu sjálfsagt gefist upp en Hildur neitaði að sætta sig við óbreytt ástand og lagðist í mikla rannsóknarvinnu og tilraunir á eigin skinni. Þrautsegja hennar skilaði undraverðum árangri og Hildi tókst að setja saman prógramm sem hjálpaði henni að ná heilsu.

Í dag heldur Hildur úti námskeiðum á netinu, þar sem hún notar prógrammið sitt og alla þá þekkingu sem hún hefur viðað að sér í gegnum tíðina, til að hjálpa fólki að bæta heilsu sína og ná sambærilegum árangri og hún náði.

Heilsubankinn.is er upplýsinga- og gagnabanki. 

Hlutverk fyrirtækisins er að stuðla að bættu líferni og betri heilsu og benda á leiðir sem fólk getur farið til að öðlast það.

Stefna fyrirtækisins er: FRÆÐSLA, UMRÆÐA, ÚRRÆÐI

Heilsubankanum er ætlað að vera:

  • vettvangur sem fólk leitar fyrst til þegar leita á leiða til heilsueflingar
  • mótvægi gegn ofuráherslu á lyflækningar
  • hvatning til almennings um að taka ábyrgð á eigin heilsu og lífi
  • vettvangur sem sameinar ólíkar leiðir að sama marki
  • vettvangur fyrir skoðanaskipti fólks um eigin reynslu og úrræði

Vefurinn mun ná yfir efni sem stuðlar að líkamlegu og andlegu heilbrigði manneskjunnar, heilbrigðu og mannbætandi samfélagi auk efnis sem hvetur til uppbyggingar og viðhaldi á heilsusamlegu umhverfi. Vefurinn mun hvetja fólk til að taka aukna ábyrgð á eigin heilsu og benda á leiðir til þess.

Aukning og vægi hinna svokölluðu velferðarsjúkdóma í þjóðfélagi okkar síðustu ár hefur verið gríðarlegt og sér ekki fyrir endann á þessari þróun. Sérfræðingar hafa á síðustu árum bent ítrekað á að með því að breyta lífsstíl okkar til hins betra má hefta þessa þróun og jafnvel snúa henni við. Og á sama hátt hafa þeir bent á að þeir sem eiga við heilsubrest að stríða og leita fjölbreyttari leiða en eingöngu til hinna hefðbundnu lyfjagjafa til að ná heilsu, ná yfirleitt mun betri árangri en þeir sem eingöngu reiða sig á lyfin. Má þar nefna aukna hreyfingu, breytingu á mataræði og óhefðbundnar meðferðaleiðir.

Framkvæmdastjóri og ritstjóri Heilsubankans er Hildur M. Jónsdóttir

Halló, ég er Hildur.

Allt mitt líf hef ég þurft að takast á við mikil heilsufarsvandamál sem hafa stöðugt þróast til verri vegar í gegnum árin. Fyrir örfáum árum síðan var ástand mitt orðið svo slæmt að ég gat eingöngu staðið upprétt í um 2 klukkustundir á dag. Ég var með stöðuga verki, enga orku, svaf illa og þjáðist af langvarandi mígreni.

Ég hef verið að safna á mig sjúkdómsgreiningum allt mitt líf, þ.m.t. er liðagigt, slitgigt, meltingarsjúkdómar, vefjagigt, krónískt mígreni, lágur blóðþrýstingur, skjaldkirtilssjúkdómur og svona má lengi telja.

Fyrir um 3 árum fékk ég nóg. Ég neitaði að vera fórnarlamb “ólæknandi” sjúkdóma og sór þess eið að finna leið til að öðlast aftur líf mitt.

6 mánuðum síðar var ég laus við öll lyf og laus við nær öll einkennin sem höfðu stjórnað lífi mínu fram að því.

Markmið mitt er að aðstoða eins marga og ég get að feta sömu braut og ég hef farið og vonandi hjálpa þeim að ná sambærilegum árangri og ég hef náð.

ReynslusagaHafa Samband