Heilsa

Iðraólga

Inni á spjallsvæðinu um daginn var verið að spyrjast fyrir um iðraólgu og möguleg úrræði við henni og tók ég því saman þessa grein. Iðraólga (Irritable Bowel Syndrome = IBS) er heiti á kvilla sem áður gekk undir nöfnum eins og ristilerting, þarmaerting eða ristilkrampi.

Ég sjálf þjáðist af þessum kvilla í mörg ár, allt frá barnsaldri þar til ég breytti algjörlega um mataræði, og bendi ég ykkur á reynslusögu mína hér á vefnum.

Iðraólga einkennist af sársaukafullum samdráttum í meltingarvegi og er eitt algengasta heilbrigðisvandamál sem læknar eigast við. Talið hefur verið að um 20% einstaklinga þjáist af þessum kvilla en íslensk rannsókn hefur sýnt að hann sé mun algengari á Íslandi. Þessi rannsókn sýndi fram á að yfir 30% Íslendinga telja sig þjást af iðraólgu, 25,3 % karla og 35,8% kvenna.

Þetta ástand er algengast hjá fólki á milli 25 og 45 ára aldurs og er mun algengara meðal kvenna.

Hjá fólki með iðraólgu verður eðlilegur, taktfastur vöðvasamdráttur í meltingarvegi, óreglulegur og ósamhæfður. Þetta truflar eðlilegan flutning fæðu og úrgangs í gegnum kerfið og leiðir til uppsöfnunar á slími og eiturefnum í þörmunum. Þetta stoppar eðlilega losun á hægðum og gasmyndun sem leiðir til uppþembu og hægðatregðu.

Iðraólga getur verið hvar sem er í meltingarveginum, allt frá vélindanu niður í endaþarm. Það eru engin merki um að sjúkdómurinn valdi vefjaskemmdum og veldur hann því einungis starfslegum truflunum.

Orakir iðraólgu eru óþekktar. Ein kenningin um orsakir hennar gengur út á að truflun sé í starfsemi hormóna, sem orsakar óeðlilega samdrætti í sléttu vöðvunum. Konur eru oft verri af einkennum iðraólgu nálægt blæðingum og rennir það stoðum undir þessa kenningu. Sumir vísindamenn telja að einhver vírus eða baktería geti verið hluti af orsökinni.

Sennilega eru þó algengustu orsakir iðraólgu, lífsstílsþættir eins og streita og mataræði, sem og fæðuóþol ýmis konar. Annað sem getur spilað inn í er ofnotkun á sýklalyfjum og öðrum lyfjum sem raska jafnvægi í bakteríuflóru þarmanna.

Margir tengja streitu við aukin óþægindi. Einkennin eru oft verst stuttu eftir máltíðir. Ósjálfráða taugakerfið stjórnar að hluta til hreyfingum meltingarfæranna og getur streita þannig haft veruleg áhrif á alla starfsemi maga, þarma og ristils.

Einkenni iðraólgu geta falist í kviðverkjum, lystarstoli, uppþembu, harðlífi og/eða niðurgangi (oft á víxl), vindgangi, fæðuóþoli, slími í hægðum og ógleði. Oft fylgja slæmir höfuðverkir og jafnvel uppköst.

Verkir versna oft eða fara í gang eftir máltíðir og stundum er hægt að draga úr óþægindum með hægðalosun.

Skortur á næringarefnum getur verið afleiðing iðraólgu þar sem upptaka þeirra getur verið ónæg. Þar af leiðandi þarf oft fólk með iðraólgu allt að 30% meira prótein en eðlilegt telst. Einnig þarf að gæta að auka inntöku stein- og snefilefna.

Allt að 25% fólks með iðraólgu þjáist af liðagigt í ökklum, hnjám og úlnliðum. Einnig finnur mikill fjöldi fyrir bakverkjum.

Sumir sem þjást af iðraólgu eru með óeðlilegt hlutfall lifrarensíma í blóðinu og þarf því að hafa í huga að styrkja lifrina.

Margir aðrir sjúkdómar geta tengst iðraólgu, eins og gersveppaóþol, ristilkrabbamein, sykursýki og sjúkdómar í gallblöðru og brisi svo einhverjir séu nefndir.

Þegar iðraólga er sjúkdómsgreind er mikilvægt að útiloka aðra sjúkdóma sem geta orsakað svipuð einkenni. Má þar nefna glútenóþol, ristilkrabbamein, Crohns sjúkdóminn, niðurgang sem orsakast af sýkingu, mjólkuróþol, auk fleiri sjúkdóma.

Iðraólgu geta fylgt mikil óþægindi en fólk getur lifað góðu lífi með henni ef það breytir mataræði sínu, fær nægjanlega hreyfingu og bætir sér upp nauðsynleg næringarefni.

Fólk með iðraólgu ætti að neyta fæðu sem er rík af trefjum og hægt er að auka við inntökuna á þeim með bætiefnum. Trefjaríkt fæði er einkum grænmeti, ávextir, heilkorn og baunir. Einnig er gott að taka inn hörfræ daglega. Til að nýta þau sem skildi er nauðsynlegt að mala þau. Hægt er svo að dreifa þeim yfir morgungrautinn eða múslíið á morgnana.

Forðist allar matvörur sem auka á slímmyndun í meltingarvegi og hamlar þannig upptöku nauðsynlegra næringarefna. Þessar matvörur eru helstar allur sykur, hvítt mjöl, dýrafita, allir drykkir með gosi í, koffein, mjólkurvörur, sætuefni, sítrusávextir og öll unnin matvara.

Látið athuga hvort möguleiki sé á fæðuóþoli eða ofnæmi.

Drekkið nóg af hreinu vatni – 8 glös á dag en drekkið þó lítið með máltíðum.

Notið mikinn hvítlauk þar sem hann er hjálplegur við meltingu og losar okkur við eiturefni í ristli.

Gætið ykkar á að fá nóg af nauðsynlegum fitusýrum. Gott er að taka aukalega inn sem bætiefni.

Önnur góð bætiefni eru: L-Glutamín, B vítamín, Fjölvítamín og Acidophilus. Einnig er gott að taka inn kalk og magnesíum. Einnig ætti að taka inn Mjólkurþistil, til að styðja við lifrarstarfsemina.

Dragið úr streituvaldandi þáttum í lífi ykkar og stundið reglulega hreyfingu, s.s. 30 mínútna göngu að lágmarki þrisvar sinnum í viku, helst daglega.

Previous post

Hve útbreidd er notkun á óhefðbundnum meðferðum á Íslandi

Next post

Ilmkjarnaolía fyrir mjaðmasvæði

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *