HeimiliðSamfélagiðVinnan

Ert þú í prófum? – Nokkur góð ráð á slíkum álagstímum

Á þessum árstíma er fjöldinn allur af fólki að taka próf. Þetta er álagstími og um að gera að huga vel að líkama og sál.

Hér koma nokkur ráð sem geta gagnast vel.

Svefn

Svefn er alltaf mikilvægur, það vita allir, en ef einhverntíma er ástæða til að huga vel að góðum nætursvefni, þá er það í prófatörnum. Þetta hljómar kannski eins og gömul lumma, en það er fátt sem skiptir meira máli en að fá nægan svefn. Margir hafa reynt að vaka heilu næturnar og lesa, en flestir viðurkenna eftirá að það hafi í raun ekki skilað neinu nema aukinni þreytu og lélegri einbeitingu og úthaldi.  Rannsóknir hafa sýnt að streita eykst ef svefninn er ekki nægur  og taugakerfið fer á tæpasta vað. Flestir þurfa 7-8 tíma nætursvefn til að halda fullri orku og þreki.

Hugarfar

Það er mikilvægt að tapa ekki lífsgleðinni í prófunum og hugsa jákvætt í eigin garð. Það skilar engu að draga sig niður með neikvæðum hugsunum og niðurrifi. Á þessum tímapunkti skiptir máli að gera sitt besta, lesa og læra eins mikið og hægt er, en það eru takmörk fyrir öllu. Auðvitað skiptir mestu máli að læra jafnt og þétt alla önnina og ef það hefur ekki gengið sem skildi, þá er bara hægt að gera betur næst. Það er um að gera að klappa sér á bakið og vera dugleg(ur) við að koma auga á það sem vel er gert. Miklu skiptir að átta sig á að við gerum alltaf eins vel og við getum og ef það er ekki nóg þá er bara að reyna aftur. Við getum ekki gert meira en okkar besta.

Hreyfing

Það er um að gera að fá útrás og hressa sig við með  líkamsrækt. Þeir sem æfa íþróttir af kappi ættu að halda sínu striki en kannski draga heldur úr ákefðinni. Fyrir alla hina eru gönguferðir, sund og allskonar leikfimi af hinu góða og ferska loftið gefur byr í seglin.

Hvíld og slökun

Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að sitja lengi við og halda einbeitingunni. Flestir ráða við u.þ.b. 90 mínútna tarnir. Það er um að gera að taka stutt hlé, standa upp og liðka sig, fá sér jafnvel smá í svanginn eða rölta út fyrir vegg og draga djúpt andann. Markviss slökun af einhverju tagi endurnýjar orkuna frábærlega vel. Það er um að gera að verða sér úti um einhver hjálpartæki, s.s. geisldiska með slökunartónlist eða annað sem hentar. Hægt er að kaupa slökunardiska þar sem fólk er leitt í gegnum slökun. Talið er að 10 mínútna djúp slökun geti komið í stað klukkustundar svefns.

Næring

Margir kannast við að detta í mikla óhollustu í mataræði í próftörnum. Fyrir þessu eru kannski margar skýringar. Það getur verið tímaskortur, vani eða hreinlega lífeðlisfræðilegt vandamál. Þegar við erum undir álagi þá kallar líkaminn á meiri sykur.  Oftast er þetta þó einhverskonar blanda af þessu öllu saman. Tímaskortur hrjáir auðvitað marga, en það er oft ekkert tímafrekara að fá sér hollan mat en óhollan.  Málið er líka að forgangsraða rétt, lítið gengur ef líkamann vantar eldsneyti í átökin. Það er auðvitað um að gera að byrgja sig upp af allskonar gæðafæðu áður en törnin hefst og þurfa ekki að vera endalaust að hlaupa útí búð eða nota tímaleysi sem afsökun fyrir óhollustunni sem er kannski hendi næst.

Hér koma nokkrar hugmyndir.

 • Kaupið nóg af eggjum, það er gott og fljótlegt að grípa í þau og auðvelt að matbúa.
 • Það er hægt að fá tilbúin grænmetisbuff í öllum stórmörkuðum. Skellið þeim í frystinn og notið eftir hendinni.
 • Gróft pasta, t.d. úr spelti er fljótlegt að sjóða og það inniheldur mikið af góðri næringu
 • Endilega verðið ykkur úti um gæða próteinduft, t.d. mysuprótein, hrísgrjónaprótein eða hampprótein sem er hægt að nota í orkudrykki. Það tekur stuttan tíma að blanda slíkan drykk.
 • Hnetur, möndlur og fræ. Gott að narta í og nota í orkudrykki. Chia fræ eru algjör snilld. (sjá grein)
 • Byrgið ykkur upp af grænmeti og ávöxtum. Spínat og avocado er snilld í grænar drykkjabombur. Sniðugt að eiga ferska ávexti ef sykurlöngun lætur á sér kræla.
 • Hafragrautur er alltaf þægilegur og um að gera að skella í hann kanel og chia fræjum.
 • Kaupið nóg af gæðabrauði, helst hveiti-, sykur- og gerlausu. Brauðhúsið í Grímsbæ bakar til dæmis frábær brauð og upplagt að setja sneitt í frystinn. Gott að eiga lífrænt hnetusmjör og hummus sem álegg.
 • Það eru til allskonar orkustykki, sum góð en önnur ekki. Varið ykkur bara á sykurmagninu í þeim og fjölda aukaefna, passið að lesa vel innihaldslýsingar.
 • Bolla og pakkasúpur fást án óæskilegra aukaefna í heilsubúðum

Ef þið eruð ekki að læra heima, heldur á bókasafni eða á lesstofu þá er um að gera að útbúa sér gott og fjölbreytt nesti. Það er hægt að hræra sér orkudrykki, skella þeim í hitabrúsa með smá klaka og þá helst drykkurinn kaldur fram eftir degi. Útbúið ykkur pastasalat úr grófu pasta, samlokur úr gæðabrauði og ommelettur (smakkast vel kaldar). Hafið með ykkur ávexti og hnetur, fræ eða möndlur. Hinar ýmsu gerðir af hnetum og möndlum eru ofurfæða og sérstaklega í próftörnum. Uppfullar af góðum olíum sem eru nauðsynlegar fyrir heilabúið og próteinum sem er grunnbyggingarefnið okkar og orkugjafi.

Endilega reynið að halda sykurneyslu í lágmarki sem og kaffidrykkju. Passið að drekka nóg vatn eða jurtate og grænt te virkar vel.

Bætiefni

Gætið þess að líkaminn fái þau vítamín og steinefni sem hann þarfnast,sérstaklega fyrir heila- og taugakerfi. Gott fjölvítamín með steinefnum er góð trygging.

 • Einnig er gott að taka inn omega fitusýrur, Efalex olían er súpergóð fyrir einbeitinguna.
 • D vítamín er algjör nauðsyn í skammdeginu og um að gera að bæta því við. (sjá grein)
 • Lesitín er gott fyrir taugakerfið.
 • B vítamín stuðlar einnig að heilbrigðu taugakerfi. Best er að taka öll B vítamínin inn saman í einni töflu.
 • Magnesíum virkar róandi og slakandi
 • Burnirót (arctic root) getur virkað hressandi og kætandi – vinnur gegn streitu og einbeitingarleysi.
 • Einnig er mjög sniðugt að taka meltingargerla (acidophilus) þar sem streita hefur slæm áhrif á meltinguna.

Gangi ykkur vel í lestrinum 🙂

Sjá einnig:

Vítamín og steinefni

Enga fitufælni takk!

D-vítamín eykur líkurnar á lengra lífi 

Magnesíum

B vítamín

Burnirót

Acidophilus 

Previous post

Ilmkjarnaolía fyrir mjaðmasvæði

Next post

Mismunandi aðferðir - Leka húsþakið

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *