MataræðiÝmis ráð

Enga fitufælni takk!

Það er mikil ástríða hjá mér að útrýma þeirri fitufælni sem hefur grafið um sig meðal fjölda fólks. Okkur hefur í gegnum tíðina verið talin trú um að fita sé djöfull hinn versti og hana beri að forðast fram í lengstu lög. Fita sé skelfilega fitandi og hana sé best að fjarlægja af matseðlinum.

Þetta er mikill misskilningur. Allir þurfa á fitu að halda til þess að líkaminn geti starfað eðlilega. Án fitu getum við ekki lifað.

Helstu skortseinkenni eru:

 • þurr húð
 • þurrt og líflaust hár
 • hárlos
 • mikill varaþurkur
 • bólgnir og aumir liðir
 • þreyta
 • depurð
 • vandamál tengd tíðahring kvenna
 • hægðavandamál
 • frjósemisvandamál
 • léleg mótstaða við umgangspestum
 • og fl.

Auðvitað skiptir máli hvaða fitu við borðum og hér á eftir ætla ég að kenna ykkur hvaða fitu þið eigið að velja og hvaða fitu ber að forðast.

Við skiptum fitu niður í þrjá flokka.

 • Mettuð fita. Undir hana flokkast dýrafita, fita í mjólkurvörum og kókosfita.
 • Einómettuð fita. Ólífuolía er að stórum hluta einómettuð.
 • Fjölómettuð fita (omega 3 og 6). Þar höfum við t.d. hörfræolíu, fiskiolíu, sólblómaolíu, sesamolíu og fl.

Mettaða fitan er mjög stöðug, þ.e.a.s. hún þolir mikið áreiti hita, ljóss og súrefnis, án þess að skemmast. Þess vegna er gott að nota hana til steikingar og þá mæli ég með kókosfitunni eða hreinu íslensku smjöri.

Mettaða fitu ber að nota hóflega.

Einómettaða fitan er ekki eins stöðug og sú mettaða en þolir þó hita upp að vissu marki. Það er til dæmis mikið deilt um hversu háan hita jómfrúarólífuolían þolir en ég tel að hún þoli allt að 200°c.

Það er hægt að nota hana til að léttsteikja mat, en þá er nauðsynlegt að láta hana hitna með pönnunni, elda gjarnan undir loki og fylgjast með ef kemur brunalykt af henni.

Ef það gerist þá er hún ónýt og beinlínis skaðleg. Best er þó að hella henni yfir matinn eftir að hann hefur verið eldaður.

Fjölómettuðu fitusýrurnar, stundum kallaðar lífsnauðsynlegar fitusýrur,  omega 3 og 6 eru mjög hvarfgjarnar og óstöðugar, þ.e. þola illa hita, súrefni og ljós.

Þær má alls ekki hita upp, þá eyðileggjast þær.

Það þarf að geyma þær í kæli og passa að ekki skíni á þær mikið ljós. Þess vegna eru þær oft hafðar í dökkum glerflöskum. Þessar olíur notum við út á salat, yfir grænmeti og til inntöku.

Fjölómettuðu fitusýrurnar eru þær sem eru okkur mikilvægastar (þess vegna eru þær kallaðar lífsnauðsynlegar). Þær eru mikilvægar fyrir öll líkamskerfi, enda þarf hver einasta fruma á þeim að halda til að starfa eðlilega.

Þar sem fjölómettaðar olíur eru svona viðkvæmar, þá skiptir gífurlega miklu máli hvernig þær eru unnar.

Þær verða að vera það sem kallað er kaldpressaðar. Það segir sig sjálft vegna þess að ef að olíur eru ekki kaldpressaðar þá eru þær meðhöndlaðar með hita og fl. Þessar óstöðugu omega fitusýrur þola ekki hita og því eyðileggjast þær við slíka meðhöndlun.

Þið þurfið að passa ykkur á því að nota ekki olíur, sem ekki eru kaldpressaðar. Þá gildir einu hvort um ræðir ólífuolíu, sólblómaolíu, þistilolíu, fiskiolíu eða einhverjar aðrar tegundir.

Prófið ykkur áfram með hvað ykkur finnst gott og kaupið helst lífrænar gæða olíur í glerföskum (plast er óæskilegt efni í olíuflöskur). Notið þær yfir salatið og grænmetið og hellið yfir matinn eftir að hann hefur verið eldaður.

Það getur líka verið gott að taka inn omega olíur sem fæðubót og þá er bæði hægt að fá þær fljótandi og í belgjum. Þá er ég t.d. að tala um hörfræolíu, laxaolíu eða einhverjar blöndur.

Svo er gott og gómsætt að borða hnetur og fræ af ýmsu tagi. Hnetur og fræ innihalda þessar lífsnauðsynlegu fitusýrur.

Upp á síðkastið hefur verið þónokkur umræða um transfitusýrur. Þetta eru fitusýrur sem myndast þegar olíur eru hertar og einnig geta þær myndast við snögga og mikla upphitun.

Transfitusýrur eru taldar stórskaðlegar fyrir líkamann og mun verri en dýrafita og önnur mettuð fita, með tilliti til hjarta og æðasjúkdóma.

Transfitusýrur er að finna í ýmsu kexi, bakkelsi og öðru sem þarf að eiga langt hillulíf í stórmörkuðunum. Fitan sem notuð er í slíkar vörur er hert til að auka geymsluþolið. Einnig eru oft transfitusýrur í skyndibitafæði, örbylgjupoppi, kartöfluflögum og fleiru.

Í Danmörku er búið að banna transfitusýrur í matvælum og fleiri þjóðir eru að fylgja í kjölfarið.

Ég vona að þið séuð einhverju nær og að mér hafi tekist að sannfæra ykkur um nauðsyn fitu.  Nú er mál að storma út og ná sér í einhverja gæða olíu í næstu heilsubúð :o)

Með heilsukveðju,

Inga.

Previous post

Grænmeti er HOLLT, en misbragðgott

Next post

Er fiskur hollur eða ekki?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *