Heilsa

Jól full af vellíðan og gleði

Hver kannast við að vera undirlagður af verkjum, þreytu og vanlíðan yfir jólahátíðina? Uppþemba, liðverkir, höfuðverkir, slen og orkuleysi fara oft að segja til sín á öðrum til þriðja degi í jólum.

Það er gríðarlegt álag sem við setjum oft á líkamann þegar við sleppum okkur alveg í gleðinni. Við borðum gjarnan mat sem við þolum illa, við förum seint að sofa og neytum gjarnan meira áfengis en við erum vön.

Ef ykkur langar að koma út úr hátíðinni full orku og í góðu formi hafið þá nokkra þætti í huga:

  • Notið sama hráefni í matinn og þið eruð vön, hráefni sem fer vel í ykkur og þið þolið. Það er hægt að gera dýrindis mat úr hollu og góðu hráefni. Verið dugleg að leita eftir spennandi uppskriftum og verið óhrædd við að aðlaga uppskriftir að því hráefni sem þið viljið nota.
  • Haldið áfram að taka þau bætiefni sem þið eruð vön. Margir verða kærulausir með þessi mál yfir hátíðar en oft er það sérstaklega á tímum sem þeim, þar sem við þurfum enn frekar á þeim að halda.
  • Passið upp á að halda hreyfingu inni í deginum, þrátt fyrir að dagleg rútína hliðrist. Skreppið út í göngutúr, farið með fjölskylduna í sund eða út að hjóla eða gerið eitthvað annað sem gaman er að gera saman og hefur hreyfingu í för með sér.
  • Hvílist vel og ruglið ekki mikið með lífsklukkuna. Passið upp á að snúa ekki sólahringnum við heldur farið þokkalega snemma í rúmið. Um að gera að nota fríið til að hvílast vel og hreinsa upp gamla, uppsafnaða þreytu.
  • Verið vandlát í öllum matarboðunum. Sneiðið helst hjá því sem fer illa í ykkur eða fáið ykkur bara smá smakk. Hallið ykkur frekar að ávöxtunum og grænmetinu, ef það er í boði.
  • Varist óhóflega neyslu á áfengi. Eitt til tvö léttvínsglös með matnum gera kannski ekki mikið til fyrir þá sem þola áfengi en öll neysla umfram það er gríðarlega óholl og veldur miklu álagi á líkamann.
  • Borðið reglulega yfir daginn. Borðið frekar oft og lítið í einu og þá hafið þið minni lyst þegar kemur að stóru kvöldmáltíðinni. Þannig haldið þið jafnvægi í blóðsykri og á vigtinni.
  • Í stað þess að hafa allar skálar fullar af sælgæti og kökum, hafið þá ávexti og hnetur á borðum, en berið sætindin sérstaklega á borð þegar það á við.

Hafið í huga á hvaða hátt þið eruð góð við ykkur sjálf. Er það þegar þið sleppið fram af ykkur beislinu og leyfið ykkur allt í mat og drykk, eða er það að velja það sem er virkilega gott fyrir ykkur og gefur ykkur í staðinn góða líkamlega og andlega líðan?

Previous post

Húðvandamál

Next post

Húðin

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *