Meðferðir

Hve útbreidd er notkun á óhefðbundnum meðferðum á Íslandi

Á Íslandi hefur sókn almennings í óhefðbundnar meðferðir aukist mikið á undanförnum árum, fjöldi óhefðbundinna meðferðaraðila og meðferðarforma hefur einnig fjölgað og kröfur til þeirra að sama skapi aukist og er það vel. Þessi aðsóknaraukning virðist halda áfram, í ljósi þess að umræður hafa orðið jákvæðari og opnari og aðgengi að upplýsingum um þessar aðferðir sýnilegri. Því miður eru engar nýlegar tölur til um stöðu þessara mála hér á landi.

Landlæknir hefur látið kanna notkun almennings á heilbrigðisþjónustu almennt, þ.m.t. á þjónustu óhefðbundinna meðferðaraðila. Þessar kannanir voru alltaf gerðar í febrúarmánuði á fimm ára fresti frá árinu 1985 til ársins 2000 og því eru allar tölur, orðnar 7 ára gamlar sem notast er við hér. Þetta voru símakannanir og voru sömu spurningar notaðar í öll skiptin.

Mikil aukning varð á notkun óhefðbundinna meðferða yfir þetta 15 ára tímabil úr 0,3 í 1,7. Sé notkunin borin saman við notkun á þjónustu löggildrar heilbrigðisþjónustu kemur fram að hún hefur vaxið verulega, frá því að vera tæplega 1/10 árið 1985 í það að vera 1/3 árið 2000.

Þessi aukning Íslendinga á notkun óhefðbundinna meðferða virðist endurspegla jákvætt viðhorf til þessara aðferða og í því ljósi hlýtur að teljast mikilvægt fyrir löggildar heilbrigðisstéttir að vita hvort og þá hvaða óhefðbundnar aðferðir skjólstæðingar, sem til þeirra leita, eru að nota og geta rætt þær við þá með hlýju og virðingu fyrir þeirra vali. Því er nauðsynlegt fyrir alla aðila að kynna sér mun betur þessar aðferðir og út á hvað þær ganga.

Umfjöllun um viðhorf íslenskra heilbrigðisstétta til óhefðbundinna aðferða hefur ekki verið mikil. Sýnt þykir að heilbrigðisstéttir inni á sjúkrastofnunum ræða sjaldan notkun óhefðbundinna aðferða við skjólstæðinga á stofnununum og að samskipti milli hefðbundinna og óhefðbundinna meðferðaraðila séu lítil sem engin. Einnig hefur samvinna á milli þessara meðferðarforma verið í lágmarki hér á landi ólíkt því sem víða hefur átt sér stað erlendis. Koma þarf í veg fyrir slíkt samskiptaleysi og útrýma pukri og feimni til umræðu um þessi mál á milli hefðbundinna og óhefðbundinna meðferðaraðila og ekki síður á milli þeirra og skjólstæðinga þeirra.

Vel er þekkt að einstaklingar meðal löggildra heilbrigðisstétta hafi lokið námi eða sótt ýmis námskeið á sviði óhefðbundinna aðferða og beiti þeim í starfi sínu innan opinberra heilbrigðisstofnana til viðbótar þeirri þjónustu sem þar er veitt, en ekki er ljóst hve hátt hlutfall löggildra heilbrigðisstétta hefur menntað sig á sviði óhefðbundinna aðferða. Gott væri að gerð yrði á því könnun, bæði á því hve hlutfallið er hátt og  eins hvaða óhefðbundnu aðferðir verið er að nota inni á sjúkrastofnunum.

Óhefðbundnir meðferðaraðilar, sem falla undir starfsheitið Græðari, teljast þeir aðilar sem skráðir eru í eftirfarandi fagfélög. Aromatherapyfélag Íslands, CranioSacral félag Íslands, Cranio félag höfuðbeina- og spjaldhryggsjafnara, Félag íslenskra heilsunuddara, Félag lithimnufræðinga, Organon fagfélag hómópata, Samband svæða- og viðbragðsfræðinga á Íslandi, Svæðameðferðarfélag Íslands og Shiatsufélag Íslands. 

Félagsmenn í ofantöldum fagfélögum falla undir þau lög sem samþykkt voru á Alþingi í maí 2005.
Markmið laganna er að stuðla að gæðum heilsutengdrar þjónustu græðara og öryggi þeirra sem leita eftir slíkri þjónustu eða nýta sér hana. Sækja þarf um aðild að skráningarkerfi Bandalags íslenskra græðara, http://www.big.is/, sem eru regnhlífasamtök fagfélaga heildrænna meðferðaraðila á Íslandi og þarf að uppfylla öll skilyrði reglugerðar nr. 877/2006 sem gefin var út með ofangreindum lögum. Einnig þarf að uppfylla fyrirfram tilgreind skilyrði, sem að snúa að, m.a. námstíma og prófgögnum, til að geta fengið skráningu sem, skráður græðari.

Mikil þörf er fyrir nýja könnun á sömu eða svipuðum nótum og gerðar voru á árunum 1985-2000, sér í lagi eftir að Alþingi samþykkti lögin og umræða hefur opnast og aðgengi að útlærðum meðferðaraðilum orðið sýnilegra. Bæði þyrfti að kanna útbreiðslu og aðsókn hjá þeim sem eru skráðir græðarar og eins annarra óhefðbundinna meðferðaraðila.

Previous post

Kjötneysla og ristilkrabbamein

Next post

Iðraólga

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *