FjölskyldanHeimiliðSjálfsræktSnyrtivörur

Heilbrigði og hamingja!

– eftir Benediktu Jónsdóttur

Hver er formúlan fyrir því? Draumur fólks er oftast að lifa hamingjusömu lífi og vera heilbrigt. Sömuleiðis óskar það öllum sem því þykir vænt um þess sama. Helst á svo að vera hægt að fara útí búð og kaupa hamingjuna í pilluformi og heilbrigðið í skrautlegum umbúðum með sykri og enga fyrirhöfn, takk!

Þannig er það bara ekki og því síður happdrætti eða tilviljanir hverjir halda heilsunni. Til að öðlast heilbrigðan líkama og vera hamingjusamur þarf að leggja á sig og breyta um lífsstíl og hugsanahátt. Fyrst og fremst þarf að fræðast og síðan framkvæma skref fyrir skref.

Verið opin fyrir öllu sem viðkemur heilbrigði og hamingju. Fylgist með og lesið allt sem þið náið í. Veljið síðan úr það sem hentar hverjum og einum því það er svo margt í boði. Forðist allt sem talið er krabbameinsvaldandi, hormónaraskandi og ofnæmisvaldandi.

Hamingjuna fáið þið ekki gegn lyfseðli. Lesið vandlega um allar aukaverkanir sem lyf valda. Hamingja er hugarástand og að stunda þrotlausa bjartsýni og temja sér jákvæðni í öllu. Taka á vandamálum með þolinmæði og festu.

Munið, það gæti verið verra! Samkvæmt nýjustu könnunum í sambandi við þunglyndi er betra að fá samtalsmeðferð en lyf. Einnig er mælt með stórum skömmtum af steinefnum og vítamínum og þá sérstaklega B-vítamínunum. Hreyfing, birta og sól skipta einnig miklu máli. Allir ættu að lesa bókina “Talking back to Prozac” eftir Peter R Breggin, M.D. áður en geðlyf eru tekin inn. Hve margir læknar skildu vera jafn fúsir að gefa maka sínum eða börnum sínum geðlyf, eins og því fólki sem leita til þeirra með vanlíðan sína?

Dr. Linus Pauling nóbelsverðlaunahafi heldur því fram, að hægt sé að rekja alla sjúkdóma, veikindi og lasleika til skorts eða vöntunar á steinefnum og vítamínum. Líkami sem er fullur af aukaefnum getur ekki endurnýjað sig eða unnið með sama hætti og hann var skapaður til að gera. Þess vegna er mjög mikilvægt að hreinsa út öll kemísk gerviefni og hætta að menga líkamann.

Það er dýrt að kaupa ódýrt ruslfæði! Það gerir ekkert fyrir okkur, heldur mengar og veikir aðeins varnarkerfi líkamans smám saman. Ert þú nokkuð að borga nokkur þúsund krónur á viku til að tryggja það að fá sjúkdóma seinna?! Ruslfæði er næringarsnautt eða með öllu næringarlaust og hentar betur til að pússa kopar og silfur en að menga sjálfan sig og börn sín.

Ónæmiskerfi manna er missterkt en það breytir því ekki að eitur er eitur. Í dag eru leyfð og skráð rúmlega fimm þúsund (5000!) gerviefni í matvælum. Sniðgangið þau! Kaupið óunnin matvæli og notið náttúruleg krydd og fullt af ávöxtum og grænmeti. Farið í heilsubúðir og heilsudeildir stórmarkaða og fræðist um ómenguð matvæli án allra aukaefna. Spyrjið starfsfólk heilsubúðanna ef þið þekkið ekki vöruna. Byrjið bara einhversstaðar og fræðist um heilsufæði.

Og síðast en ekki síst skiptir hreyfing miklu máli. Ganga hentar flest öllum. Margir velja svo ýmiss konar líkamsrækt, leikfimi, jóga o.fl.

Almenningur er orðinn tortrygginn gagnvart lyfja- og efnanotkun í matvælaframleiðslu. Vilt þú súlfa-sýklalyf, pensilín, hormón o.fl. með matnum þínum? Athugið að það getur verið á við það að setja lítil börn á “pilluna” að gefa þeim matvæli með hormónum.

MSG ( eða E621), einnig oft kallað “bragðauki”, er efni er veldur mörgum ofnæmi og veikindum. Það er að finna í flestum unnum matvælum, pakkamat, súpum, sósum, súputeningum o.fl. o.fl. MSG hefur verið bannað síðari ár í barnamat en lítil börn eru að fá fullt af þessum bragðauka í venjulegu fæði. MSG er hvati sem gerir til dæmis kjöt betra á bragðið, ávexti og grænmeti bragðsterkara og krydd með MSG kítlar bragðlaukana. Því miður gerir það ruslfæði betra á bragðið. Þessi hvati getur auðveldlega aukið á vanlíðan og verki. Fólk með gigt fær oft meiri verki og bólgnar upp þegar hvatinn er kominn út í blóðið. Samkvæmt Dr. Huldu Rh. Clark ætti flogaveikt fólk að forðast MSG þar sem það er talið ýta undir krampaköst. Verið er að rannsaka samband milli ofvirkni, MSG og sykurs.

Hvítur sykur er bölvaldur. Efnið “propyl alcohol” sem notað er til að fá hann hvítan er eiturefni. Þar að auki er hvítum sykri troðið í fullt af matvöru í miklu magni. Fólk með sykursýki þekkir það vel. Það er ekki margt sem það má borða því alls staðar er búið að lauma sykri í mat og ekki þarf að standa “sykur” utan á umbúðunum þó honum sé bætt við. Flestir vita að sælgæti, gosdrykkir og kex er með miklum hvítum sykri, en hann er í svo mörgu öðru, eins og t.d. kjötvörum, rúgbrauði, áleggi, mjólkurvörum o.fl.

Enn hættulegri er þó gervisykurinn, Aspartam, Nutra sweet og annar kemískur gervisykur. Svíar kalla Aspartam og þessi kemísku sætuefni hljóðláta morðingja (The silent killers). Margir læknar eru hættir að mæla með gervisætu.

Látið ekki auglýsingabrellur hafa áhrif á ykkur. Hugsið sjálfstætt og með heilbrigðri skynsemi. Munið að það þýðir lítið að spyrja þá sem eiga hagsmuna að gæta um skaðsemi eiturefna. Mjólkurvörur með “bragði” eru fullar af sykri eða gervisykri. Ef það er sætubragð þá er það annað hvort um það bil 30% sykurleðja eða enn verra – gervisykur! ” Án viðbætts sykurs” stendur á mjólkurvörum með sætu bragði en hvaðan kemur þá sæta bragðið? Ekki láta plata ykkur! Sniðgangið mjólkurvörur og ís með bragði og gerviefnum.

“Sykurskert” er annað lúmskt og villandi orð á matvælum. Oft á svokölluðum “diet” vörum. Búið til ykkar eigin ís og notið smá af hrásykri eða bara ávexti. Þá eruð þið laus við gerviefnin. Einnig er hægt að fá lífrænan ís bæði sojaís og mjólkurís i heilsubúðum og Nóatúnsbúðunum.

Lífræn mjólk og jógúrt er með heiðarlegar upplýsingar á pakkningunum og margir sem þola ekki venjulegar mjólkurvörur þola lífrænu mjólkurvörurnar. Verið er að rannsaka hvernig það má vera. Fræðist meira um lírænu mjólkurvörurnar frá Bíó Bú.

“Diet”-vörur eru yfirleitt með Aspartam eða öðrum gervisykri. Fólk sem fer á “diet”-vöru-kúra fitnar í staðinn fyrir að grennast. Þetta hefur verið vitað í um það bil 20 ár. Þótt engar kaloríur séu í diet vörunum þá stækkar fólk á þverveginn. Efnaskiptin ruglast og fara í ólag og fólk fitnar af þessum kemísku platefnum.

Hvað er til ráða í neysluheimi fullum af gerviefnum? Jú forðist þau! Eyðið meiri tíma í eldhúsinu og minni tíma í búðunum. Í nútíma þjóðfélagi eru flestir með þessi fínu eldhús og öll þægindi en nota þau mest fyrir skyndibita-ruslfæði! Prófið að slökkva á sjónvarpinu og eyðið tíma í eldhúsinu. Búið til ykkar eigin hreinu rétti og virkið börnin með. Byrjið á að baka t.d. piparkökur með þeim og farið síðan útí matrétti. Það virkar! Þau fá aukinn áhuga á því sem fram fer í eldhúsinu og á því sem er á diskinum þeirra.

Munið að líkami sem er fullur af gerviefnum úr matvælum, snyrtivörum, hreinlætisvörum, híbýlum og umhverfi laðar frekar til sín sýkla, vírusa og bakteríur. Þessi sníkjudýr eru mjög þakklát fyrir mengaðan líkama en þá eru varnarkerfið og hvítu blóðkornin í eiturvímu. Það er svipað og að vera með dyraverði og lögreglu á blindafylleríi og ætlast til að þeir sinni starfi sínu sómasamlega og hleypi ekki óboðnum gestum inn. Öryggismálin fara þá eflaust fyrir ofan garð og neðan og öllum sýklum er boðið frítt inn! Sýklar, bakteríur og vírusar staldra aftur á móti sjaldan lengi við í hreinum og ómenguðum líkama. Ótal sannar sögur eru til af fólki sem náði heilsu aftur eftir erfið veikindi. Í flestum tilfellum breytti það algjörlega um lífsstíl.

Í snyrtivörum er einnig mikið af kemískum greviefnum og eru mörg þeirra með krabbameinsvaldandi, hormónaraskandi og ofnæmisvaldandi efnum. Neytendasamtök Evrópulanda birta í hverjum mánuði greinar um skaðleg efni í snyrtivörum, til dæmis í sjampóum, kremum, tannkremum og varalitum. Sænsk dagblöð t.d. fylgja því oftast vel eftir, en hér á landi þykir það ekki fréttnæmt þó að íslensku neytendasamtökin birti greinar um til dæmis mannslát vegna hárlitunarefna.

Allt of lítið er gert af því hér á landi að birta í dagblöðum upplýsingar um skaðleg efni í t. d. matvælum, snyrtivörum og hreinlætisvörum. Hvernig skildi standa á því? Ætli það sé áhugaleysi eða hagsmunamál? Þýsku neytendasamtökin Öko-Test birta efnagreiningar á m.a. snyrtivörum í blöðum sínum í hverjum mánuði. Náttúrulegar lífrænar jurta-snyrtivörur án allra aukaefna koma best út, en stór hluti af venjulegum snyrtivörum mælist með mörg slæm og hættuleg kemísk efni og fá falleinkunn. Þar skiptir ekki máli hvort það séu dýr eða ódýr merki. Snyrtivörur úr jurtum og án allra aukaefna fást meðal annars í öllum heilsubúðum, Blómavali, Hringbrautarapóteki og snyrtistofunni Líf í Mjódd og Sólheimum í Grímsnesi.

Hreinlætisvörur eru ekki skárri og valda mörgum ofnæmi og erta öndunarfærin. Lítil börn eru sérstaklega í hættu, bæði hvað þvottaefni varðar og hreinlætisvörur almennt. Svo kallaðir klósettilmar geta verið stórhættulegir. Í nokkrum Evrópulöndum eru þeir bannaðir en þeir valda lifrarskaða ef lítil börn anda þessum óþverra að sér í nokkra daga. Þar að auki hangir þessi sterki gerviilmur mest í 50-70 cm hæð frá gólfi – einmitt sú hæð sem lítil börn eru í. Í heilsubúðum er hægt að fá þvottaefni og hreinlætisvörur án þessara hættulegu efna.

Athugið að þó vara sé auglýst sem “mild” og “án ilmefna” er það engin trygging fyrir að hún sé laus við mörg slæm efni sem eru lyktarlaus. Aldrei hafa fleiri ungabörn fengið jafn mikið exem og síðustu ár. Svíar banna sumar tegundir af þvottaefnum vegna skaðlegra efna. Norðmenn uppgötvuðu hættuleg efni í barnakremi sem framleitt er undir þekktu vörumerki og er selt hér á landi. Danir vilja vera fyrstir til að banna paraben-efnin sem eru í 97-98% af sjampóum, kremum og snyrtivörum. Nýjustu rannsóknir sýna að 80% kvenna með krabbamein í brjóstum höfðu paraben í kirtlum næst handarkrikanum. Venjulegur svitaeyðir er með mikið af hættulegum efnum plús paraben efnum.

Klór er sterk eiturefni og hefur verið bannað að nota það í sundlaugar í nokkrum Evrópulöndum. Þegar eitthvað er búið að banna samkvæmt lögum er góð og gild ástæða fyrir því. En fyrst þurfa yfirleitt margir að veikjast og jafnvel deyja af völdum þess. Eins og t.d. af D.D.T. og Asbest. Það tók rúmlega 30 ár að fá þau bönnuð! Í millitíðinni dó fólk af völdum þessara efna.

Svíar segja amalgam tannfyllingar miklu hættulegri en hingað til hefur verið talið (sumarið 2003). Flúor er eitur og hætt er að nota það til að skola munnin á barnaskólabörnum í Svíþjóð. Tannkrem í heilsubúðunum eru yfirleitt án flúors.

Ekki trúa því að kemísku efnin í matvælum, snyrtivörum, hreinlætisvörum, híbýlum og umhverfi séu skaðlaus. Þau verða flest bönnuð seinna. Vilt þú úða í þig eitri sem nú þegar er bannað? Munið það að þegar Asbest, DDT, Blý, PCB, Arsenik, Kadmíum, Vítissódi, Freon, Díoxín, Nítrit, PCV, Þynnir, PCP, Lindane og TBTO voru mikið notuð, var sagt að þau væru algjörlega skaðlaus. Hver vill þessi eiturefni í dag?

Það sorglegasta af öllu er þegar fólk er að menga sjálft sig og börnin sín án þess að vita af því. Það næst sorglegasta er þegar fólk er að menga sjálft sig og börnin sín og veit af því en nennir ekki að leggja á sig og breyta því til batnaðar.

 

Benedikta Jónsdóttir
Höfundur hefur staðið fyrir námskeiðinu
Heilbrigði og hamingja í húsnæði Maður lifandi

Previous post

Jákvæðni og betri heilsa

Next post

Hamingjan - Hér og Nú

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *