Börn og unglingarFjölskyldanHeimilið

ADHD – Athyglisbrestur / Ofvirkni

Grein eftir Þorbjörgu Hafsteinsdóttur um tengsl ADHD við mataræði, bætiefni, aukaefni og fleira.

 

Mikilvægt er að meðhöndla barnið en ekki sjúkdóminn, athyglisbrest með ofvirkni. Við getum byrjað á að spyrja hvort barnið skorti eitthvað sérstakt? Og hvort barninu sé gefið eitthvað sem það hefur ekki þörf fyrir.

Algengustu hegðunarvandamál barna eru athyglisbrestur, fljótfærni og ofvirkni, sem oft fylga námserfiðleikar, mótþrói og þunglyndi. ADHD byrjar í barnæsku og getur oft varað langt fram á fullorðinsár. Nákvæmar orsakir fyrir ADHD eða ofvirkni barnanna eru ekki ljósar og geta verið torskildar. Samt sem áður eru sterk lyf notuð sem lyfjameðferð á meðan gengið er fram hjá hættulausum og áhrifaríkum aðferðum.

Þessar aðferðir beinast meðal annars að því að minnka eða fjarlægja með öllu, truflandi og ertandi aukefni í mat, eins og litar-, bragð- og rotvarnarefni, kemísk efni frá umhverfinu, sveppi og myglu. Einnig taugatruflandi efni frá þungmálmum og aðra mengun. Allt eru þetta efni sem geta valdið óþoli eða ofnæmi. Truflun í virkni skjaldkirtilsins hefur einnig verið nefndur mögulegur þáttur og þá tengt við m.a. eiturefni úr umhverfinu.

Hér verður rætt um ADHD eða athyglisbrest með ofvirkni og ADD eða athyglisbrest, í sitt hvoru lagi, vegna þess að það er munur á þessum einkennum og jafnvel orsökum þeirra. Aðallega verður lögð áhersla á þátt mataræðis, fæðuóþols og aukefna en lítið sem ekkert farið inn á aðrar aðferðir eins og samtöl og þroskaþjálfun.

Það er þó mikilvægt að hafa í huga, að þó að þessi tvö einkenni séu skilin að, geta margir þættir verið sameiginlegir í þeim báðum.

 

Einkennalisti eða skapgerðarlisti ADHD

 • Ofvirkni
 • Skortur á skilningi
 • Tilfinningalegt ójafnvægi
 • Almennur skortur á umhverfisvitund
 • Athyglisbrestur, stuttur einbeitingartími, erfitt að ljúka því sem byrjað er á, hlustar ekki, einbeitingarleysi
 • Fljótfærni framkvæmd án hugsunar, truflun í verki, bágborin skipulagshæfni
 • Truflun í hugsun og minni
 • Sérstakir námsörðugleikar
 • Truflun í tali og heyrn
 • Vafasöm taugaboð og óregla í heilalínuriti

Slíkar skapgerðarlýsingar eru oft gefnar upp sem vandamál í skólum, bæði hvað varðar hegðun og lærdóm. Þó fleiri þættir geti verið viðriðnir, þá benda líkur til þess að aukefni, fæðuóþol og sykurneysla sé aðalástæða fyrir einkennum ofvirkra barna.

 

Hversu útbreytt er ADHD? 

Frá 4 til 20% skólabarna í Bandaríkjunum eru greind með ADHD og í sumum borgum þar gæti talan verið 10-15% Árið 1993 voru meira en 2 milljónir bandarískra barna greind með ADHD og hafði talan aukist úr 902.000 frá árinu 1990. Nýlegar tölur benda á mikla aukningu þar í landi eða nærri 4 milljónir barna. Þá greinast á bilinu 7-10% barna með ADHD í Kanada, Puerto Rico, Bretlandi, Noregi, Hollandi, Þýskalandi og Nýja Sjálandi. Á Íslandi er samkvæmt upplýsingum landlæknis 1000 börn greind og í meðferð vegna ofvirkni. Fleiri drengir þjást af ADHD en stúlkur og talið er að það komi fram í einni stúlku á móti 3-10 drengjum. Í Bandaríkjunum eru yfir tvær milljónir stráka á skólaaldri í lyfjameðferð vegna ADHD.

 

Sykur

Sykurneysla á mikinn þátt í ofvirkni og á sinn þátt í árásargjarnri/stjórnlausri og eyðileggjandi hegðun. Stór rannsókn framkvæmd af Langseth sýndi niðurstöður sem benda til óeðlilegs glúkósaþols hjá 74% barna. Rannsóknin náði til um 260 ofvirkra barna, sem gefin var sykurmáltíð. Samandregið getur þetta ástand bent til að blóðsykur sé of lár sem hefur m.a. í för með sér að adrenalín hækkar í blóðinu, en þetta getur leitt til ofvirkni. Einkenni of lágs blóðsykurs eru óeðlileg þreyta, óróleiki, hugarrugl, gleymska, einbeitingarskortur, erfiðleikar við að taka á vandamálum, pirringur og óvanaleg reiðisköst.

Wolraich og Co. settu á laggirnar rannsókn þess efnis að afsanna kenninguna um tengsl milli sykurneyslu og ofvirkni barna. Niðurstöður þeirra voru að sykur hefði ekki marktæk áhrif á ofvirk börn. Samt sem áður, þegar rannsóknin er skoðuð betur kemur fram að viðmiðunarhópurinn, sem var 6-10 ára, og sem var á ,,lágskammtasykri” fékk 5.3 tsk af hvítum sykri daglega. Þessi viðmiðunarskammtur er svo stór, að það ætti ekki að hafa komið vísindamönnum á óvart, að prufuhópurinn skyldi ekki hafa brugðist marktækt meira við en viðmiðunarhópurinn. Engar tilraunir voru gerðar til að fjarlægja fæðutegundir sem eru þekktar fyrir að valda ofnæmi eða óþoli eins og mjólk, hveiti og egg, og sem framkalla hegðunareinkenni hjá sumum ofvirkum börnum. Öll fengu börnin leyfi til að drekka gosdrykki meðan á tilrauninni stóð. Í lok rannsókarinnar má lesa þakklæti þeirra sem að henni stóðu, til General Mills, Coca-Cola, PepsiCo og Royal Crown.

 

Viðbætt efni

Aukefni ná yfir fjöldan allan af kemískum efnum. Hér er um að ræða efni sem eru notuð í matvæli og efni sem ekki teljast matvara, t.d. snyrtivörur. Í Bandaríkjunum eru um 5000 efni notuð og ætli það sé ekki eitthvað álíka hér á landi.
Þessi efni eru meðal annars klekjunarefni( t.d. cacium cilicate), andoxunarefni (BHT, BHA), aflitunarefni (t.d benzoyl peroxide), litarefni( t.d. aromat), bragðefni, þykkjunarefni, ýms sölt, rotvarnarefni (t.d benzóöt, nitröt, súlfít), gúmmi. Áætluð inntaka þessarra efna er 4 til 5 kíló á hvern bandarískan borgara í USA, á ári. Neysla fæðuaukefna er álitin vera á hvern einstakling 13 til 15 grömm daglega.

Kenningin um að aukefni valdi ofvirkni kom fram hjá Benjamin Feingold M.D.á miðjum 7. áratugnum. Samkvæmt þeirri kenningu eru um 40-50% ofvirkra barna með ofnæmi fyrir kemískum litarefnum í mat, bragðefnum og geymsluefnum og fyrir salisylötum og fenóum, náttúrulegum efnum í mat. Feingold byggði kenningu sína á 1200 athugunum sem tengdu aukefni við náms- og hegðunarvandamál.

Síðan Feingold setti fram niðurstöður sínar og kenningu, hefur hún verið umdeild meðal vísindamanna. Samt sem áður hafa vísindamenn einungis einbeitt sér að 10 af þeim 3000 aukefnum sem Feingold hafði áhyggjur af. Við fyrstu sýn virðist meirihlutinn af þeim tvíblindu rannsóknum gerðar til að afsanna Feingold kenninguna og sýna fram á neikvæðar niðurstöður. Það er að segja, það fyndust ekki tengsl milli aukefna og ofvirkni. Við nánari athugun kemur samt í ljós, að þessi umræddu efni gegna, þegar allt kemur til alls, mikilvægu hlutverki í ofvirkni. Til dæmis sýna rannsóknir vissra vísindamanna að einkenni minnkuðu hjá helmingi ofvirkra barna í könnun þeirra, sem voru sett á Feingold mataræði. Það er áhugavert að niðurstöður rannsókna á ofvirkum börnum, sem voru gerðar utan Bandaríkjanna voru mun hliðhollari Feingolds kenningunni.
Feingold fæðið

Útiloka: Öll matvæli, fæðubótarefni (vítamín/steinefni og annað), tannkrem, sælgæti og drykkjarföng, sem innihalda tilbúin litarefni, bragðefni og rotvarnarefni. Skoða vandlega innihaldlýsingar á vörunum hvort um er að ræða: Litarefni, þ.á.m gult eða rautt, ásamt bragðefnum, þ.á.m. vanilin sem er notað í óekta vanillu. Sætuefni, þ.á.m. aspartame, saccharine, sucralose og önnur sætuefni. Andoxunarefni, BHA, BHT og TBHQ, rotvarnarefni, natr. bensóat og benzósýru.

Feingold ráðleggur einnig að útiloka: Maís og öll maís sætuefni, MSG, 3ja kryddið (monosodium glutamate), grænmetiseggjahvítuefni (HVP hydrolyzed vegetable protein), saltpétur, natron, nitrat, natr., notað í reyktum og söltuðum kjötafurðum, efni í bökunarvörum (calcium propionate).

Hann ráðleggur einnig að útiloka mat sem inniheldur salisylöt sem eru ekki fæðuviðbætt efni, heldur náttúrulegt.

Hér á eftir er listi með fæðutegundum sem innihalda salisylöt:

 • Möndlur
 • Epli (cider og cider/eplaedik)
 • Apríkósur
 • Alls konar ber
 • Kirsuber
 • Negull
 • Kaffi
 • Agúrka
 • Pikles
 • Currants
 • Vínber
 • Rúsínur
 • Vín og vínedik
 • Græn paprika
 • Chili pipar
 • Nektarínur
 • Appelsínur
 • Feskjur
 • Plómur
 • Sveskjur
 • Tómatar
 • Te, þ.á.m. blandað jurtate.
 • Aspirin eða magnyl verkjatöflur eða lyf sem innihalda efnið.
 • Olíur sem innihalda methyl salisylöt og eru oft notuð sem myntu bragðefni.

Það getur verið ansi erfitt að halda barninu á svona ströngu fæði (og við erum ekki komin að óþolinu enn!), en það er vel þess virði að reyna í stuttan tíma eða 3-4 vikur.

 

Fæðuóþol

Það er nauðsynlegt og mögulegt að fjarlægja aukefni og salisylöt úr fæðunni til að vinna á einkennum ADHD, en sjaldan fullnægjandi. Allt að 88% af börnum með ADHD bregðast við þessum efnum séu þau sett undir tunguna og viðbrögð könnuð, en í tvíblindum rannsóknum bregst ekkert barn við þessum efnum einum.

Taka verður tillit til þess að um ofnæmi eða óþol fyrir matnum sjálfum getur verið að ræða. Finna þarf út hvaða mat getur verið um að ræða og fjarlæga hann. Rannsókn var gerð á 76 alvarlega ofvirkum börnum sem sett voru á svokallað lág-næmni fæði, sem samanstendur af lambakjöti, kjúklingum, kartöflum, hrísgrjónum, bönunum, eplum, grænmeti úr kál- og brassica fjölskyldunni, fjölvítamíntöflum og þremur grömmum af kalki (calcium gluconate) daglega. Að fjórum viknum liðnum höfðu einkenni ofvirkninnar lagast hjá 62 þeirra (82%). Þar af höfðu 21 þeirra náð eðlilegri hegðun.

Önnur einkenni eins og til dæmis höfuðverkur og magaverkur var sjaldgæfari. Þegar aftur var byrjað að neyta efnanna sem numin voru úr fæðinu þegar rannsóknin hófst kom í ljós hvaða fæðutegundir það voru sem orsökuðu ofvirknina.

Í stærri rannsókn með 185 börnum fengust eftirfarandi niðurstöður. Börnin voru sett á lág-næmni fæði í fjórar vikur eða tvenns lags kjöt (lamb og kjúkling), kartöflur og hrísgrjón, tvenns konar ávexti (banana og perur), grænmeti (kál, spírur, blómkál, sperglakál, agúrkur, sellerí, gulrætur) og vatn. Fæðið var bætt með kalki, magnesíum, zinki og nokkrum grunn vítamínum. Hegðun 116 þeirra batnaði og kennsl voru borin á þær fæðutegundir sem ollu ofvirkninni, með því að taka þær inn aftur eina og eina í einu.

Hægt er að mæla fæðuofnæmi og fæðuóþol í blóði með svokallaðri Elisatækni. Þegar ofnæmisviðbrögð koma strax er svokölluð IgE mótefni mæld og við óþoli sem eru sein viðbrögð (allt að 72 tímum eftir að fæðutegundin er neitt) eru mæld IgG mótefni. En það geta einnig verið um að ræða IgA og IgM mótefni, en miklu sjaldnar.

 

ADD: Börn sem eru aðallega með athyglisbrest

Hér verður aðallega fjallað um börn sem eiga erfitt með að beita athygli sinni, taka eftir og læra. Þau eru miklu orkufrekari en þau sem einnig eru ofvirk. Það eru þrír þættir sem virðast tengjast þessum einkennum:

 • Eyrnabólga
 • Næringarskortur
 • Þungmálmar

 

Eyrnabólga

Það er mikilvægt að fjalla hér um tíðar eyrnabólgur í barnæsku og meðhöndlun þeirra með sýklalyfjum sem eru tengdar auknum líkum á ADD.

Börn með skerta eða alvarlega skerta heyrn eiga í mörgum tilfellum erfiðara með tal- og málþroska, minni gáfur og námsörðugleika. Kannanir hafa sýnt að námsörðuleikar eru tvisvar sinnum algengari hjá börnum með eyrnabólgur eða sem hafa verið með þær. Börn sem eru með tíðar eyrnabólgur hafa þar að auki í mörgum tilfellum verið oft í sýklalyfjameðferð. Sýkladrepandi lyf eins og penicillin hefur, eins og kunnugt er, slæm áhrif á náttúrulegu þarmaflóruna sem getur haft miður góðar afleiðingar fyrir barnið. Hætta er á sveppasýkingu meðal annars, þannig að ef um tíða sýklalyfjameðferð hefur verið um að ræða, þarf að skoða mögulegar afleiðingar þeirra.

 

Næringarskortur

Skortur á svo að segja hvaða næringarefni sem er hefur áhrif á heilastarfsemina. Járnskortur er einn aðal næringarskortur barna í Bandaríkjunum. Járnskortur sýnir sig meðal annars sem marktækur brestur í athygli, stuttur athyglistími, minnkað viðnám og “leti”.
Íslenska Manneldisráðið gerði könnun á mataræði íslenskra barna 1992-1993. Á vefnum: born.is, er ágæt grein Önnu Sigríðar Ólafsdóttur næringarfræðings og þar má meðal annars lesa að 10-15 ára íslensk börn borðuðu að meðaltali 96g af sykri á dag. Á laugardögum er magnið tvöfalt. Helstu rök gegn óhóflegri sykurneyslu eru þau að verði sykurinn mjög fyrirferðamikill í daglegu fæði er hætt við að minna verði um nauðsynleg næringarefni. Þau börn sem borðuðu mestan sykur fengu minnst af vítamínum og steinefnum. Mikil sykurneysla getur því ekki síður leitt til vannæringar en offitu. Fleiri rannsóknir sýna samhengi milli næringarskorts og námsörðugleika og hvernig fæðubótarefni geta bætt stöðu þessara barna.

 

Þungamálmar og ADD

Þungir málmar eru alls staðar í nútíma umhverfi. Sama gildir um alls konar efni eins og tilbúinn áburð, (pesicides, herbicides og fumigants) og alls konar lyktar- og mengunarefni. Öll þessi efni hafa verið tengd við óvenjulega hegðun.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar þar sem niðurstöður sýna samhengi á milli lítils námsárangurs og þungmálma í líkamanum. Við greiningu á hári einstaklinga með námsörðugleika kemur fram mikið magn af kvikasilfri, áli, blý og kopar. Vannæring og há gildi af þungmálmum haldast oft í hendur af þeirri ástæðu að sum þessara næringarefna sem skortur er á, eru nauðsynleg til að binda eða minnka upptöku málmanna. Börn sem verða fyrir skaða vegna þungmálma geta fengið truflanir m.a. í taugakerfi, sem hefur áhrif á athyglisgáfu, tilfinningasvið og hegðunarmynstur.

Hvar geta börnin komist í snertingu við þungamálma og aðra mengunarvalda? Svarið er, alls staðar. Tökum það nærtækasta fyrst. Amalgam eða silfurfyllingar í tönnum, innihalda eins og kunnugt er kvikasilfur. Fyllingarnar liggja sterklega undir grun um að ,,leka” þannig, að kvikasilfrið geti lekið úr tönnum móðurinnar á meðgöngu og haft þannig áhrif á taugakerfi barnsins strax í móðurkviði. Í Svíþjóð eru flestir tannlæknar hættir að nota amalgamfyllingar og fyrir mörgum árum var vanfærum konum ráðið frá því að fá silfurfyllingar eða að hreyfa við silfurfyllingum, vegna hættu á leka og mögulegum afleiðingum fyrir hið ófædda barn. Í Danmörku er vanfærum konum bent á að borða ekki fisk vegna innihalds þungmálma og annarra mengunarefna t.d PBC. Ísland er því miður ekki stikkfrí þó að við teljum okkur búa í hreinasta landi veraldar. Við höfum ekki áhrif á hvað kemur með vindum og veðrum og öllum þeim kemísku efnum sem hefur verið kastað í hafið langt fyrir utan okkar lögsögu, en hefur áhrif á okkar fiskimið líka. Börnum okkar má líkja við kanarífuglana og hvernig þeir voru og eru enn notaðir í kolanámunum úti í heimi. Þegar þeir hætta að syngja er það merki þess að eitraðar gastegundir eru í loftinu og sprenging á næsta leyti sem getur riðið þeim öllum að fullu. Eins og kanarífuglinn, eru börnin okkar næmari en við og sum þeirra næmari en önnur.

Í nágrenni heimilis og skóla má einnig athuga mengunar- eða ofnæmisvalda. Það getur verið blý, asbest, radon, raki og þar með mygla, ryk, gallað loftræstikerfi og margt annað. Næmt barn í mengaðri kennslustofu getur brugðist við með þreytu, pirringi, vanlíðan og hegðunarvandamálum og á allt í einu erfitt með að læra.

Það er ekkert undarlegt þó að einhverjir bregðist illa við. Það eru fleiri þúsund kemísk mengunarefni og málmar í umhverfinu, fyrir utan þann fjölda aukefna sem við notum sem næringu. Og verkefnið hlýtur að verða að skoða alla þá þætti sem mögulega ögrar næmni og þar með heilsu barna okkar áður en sprengjan springur.

 

Skjaldkirtillinn

Skjaldkirtilshormón (Thyroid hormones) verka með boðefnum heilans, dópamíni, adrenalíni og serotonini og eru bráðnauðsynleg fyrir myndun og þroska fóstursins. Í könnun á hvaða þættir auki líkur á ADHD hefur lítil virkni skjaldkirtilsins snemma í barnæsku legið undir grun. Lítil virkni skjaldkirtils vanfærra kvenna og tengsl þessa ástands við skerta heilastarfsemi barnsins hefur verið velþekkt í meira en 100 ár. Líkur eru á að ofvirk börn séu með skerta starfsemi skjaldkirtils. Ástæðanna verður að leita meðal annars í umhverfinu. Tilbúin kemísk efni í umhverfinu liggja undir sterkum grun. Þannig að það getur verið ástæða til að taka tillit til þess möguleika; að móðirin sé með skjaldkirtilvandamál og barnið sem er grunað um að vera með athyglisbrest, sé með ójafnvægi í þessum kirtli líka. Það má finna með blóðprufu.

 

Bætiefni

 • B vítamin. Til eru rannsóknir sem sýna bæði góð viðbrögð eða alls engin gegn ADHD við inntöku B vítamína. Það virðist samt vera góð hugmynd að nota stöku B vítamín í einstaka tilfellum, til dæmis til að jafna lágt serotonin í blóði en þá er notað B 6 (pyridoxine). Börn sem neyta mikils sykurs þurfa m.a. auka skammt af B vítamíni.
 • Járn. Þarf að vera náttúrlegt og ekki tekið í of langan tíma í einu.
 • Zink.
 • Fjölmargar rannsóknir sýna að ofvirk börn skortir fjölómettaðar fitusýrur. Bæði omega 6 og omega 3 og DHA. Þær er hægt að fá úr sólblómaolíu, hörfræolíu og fiskiolíu. Það er algjör nauðsyn að vanda sig í vali á olíum. Þær verða að vera kaldhreinsaðar (nonhydrogenated) og lífrænar.
 • Fosfatidylserin hefur sýnt að það bætir heilastarfsemi. Þetta efni hefur áhrif á boðefni heilans meðal annars. Dagleg inntaka á 200-300mg, í 4 mánuði bættu athygli og lærdóm hjá 90% barna af 21 barni sem greint var með ADHD. Kannið málið vandlega

 

Að lokum vil ég uppörva bæði foreldra, kennara og aðra sem daglega umgangast börn með ADHD, eða hafa grun um að börnin þeirra séu með hegðunarvandamál sem gæti tengst ADHD. Lítið á vandamál barnanna og allrar fjölskyldunnar í heild þar sem fleiri þættir eru skoðaðir sem mögulegar ástæður fyrir hegðun barnsins, áður en það er sett í lyfjameðferð, sem hefur margar og hættulegar hliðarverkanir.

Það eru margar haldbærar sannanir fyrir að aukefni hafi áhrif á hegðun barna með ofvirkni. Taka verður tillit til möguleika á fæðuofnæmi og/eða ­óþoli. Skynsamlegast og ódýrast er að prófa lág-næmnifæði (oligoantigenic) fæðið í 4 vikur og síðan taka inn eina og eina fæðutegund í einu í minnst 3 daga hverja um sig og athuga og
skrá viðbrögð. Ef viðbrögð koma eða versna skal hætta með þessa fæðutegund undir eins. Ef engin bati fæst með þessu fæði er möguleiki á að barnið bregðist við einhverju öðru í matnum eða úr umhverfinu.

Allan unninn sykur ber að forðast og bætiefni sem nefnd eru áður í greininni. Athuga skal hvort um eyrnabólgu eða þungmálmaeitrun sé að ræða. Sérstaklega á þetta við börn með ADD.

Afla skal sér aðstoðar hjá færum næringarráðgjöfum sem eru tilbúnir að vinna með foreldrum og líta á ADHD út frá heildarmynd. Ég ráðlegg ekki að leita aðstoðar hjá fagfólki sem ekki hefur sett sig inn í rannsóknir á til dæmis skaðsemi litarefna og sykurs.

Samvinna foreldra, starfsfólks leikskóla og kennara þarf að koma til varðandi það hvað barnið má borða. Einnig er mikilvægt að gagnkvæm virðing og skilningur sé fyrir hendi svo að vel takist til.

Samtalsmeðferð er æskileg í flestum tilfellum og til að fá sem bestan árangur þarf öll fjölskyldan að vera með.

 

Þorbjörg Hafsteinsdóttir
Næringarþerapisti DET
Ítarlegri umfjöllun um þetta efni er að finna í haustblaði Heilsuhringsins 2001.

Previous post

Tengsl mataræðis og hegðunarvandamála

Next post

Foreldrasáttmálinn

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *