Heilsa

Flasa

Flasa lýsir sér sem hvítar flygsur í hárinu.  Flygsurnar eru dauðar húðflögur í hársverðinum.  Það er eðlilegt ferli húðarinnar, að dauðar húðfrumur flagni af og sitji í hársverðinum og í raun mjög algengt að einhver flasa sé þar.  Flasa kemur ekki af því að hársvörðurinn sjálfur sé of þurr, eins og margir halda. 

Stundum eykst fjöldi flagnanna til muna.  Það er ekki einungis lýti fyrir viðkomandi, heldur geta líka fylgt óþægindi eins og roði og pirringskláði.  Mikil flasa myndast líka vegna húðsvepps, en einnig gæti verið um annars konar húðsjúkdóma að ræða, t.d. psoriasis.  Flasa getur líka versnað við stress og áföll og oft er ástandið verra yfir vetrarmánuðina.  Varast skal að klóra í hársvörðinn, því það gæti rispað húðina og sýking myndast.

Oft er skortur undirliggjandi ástæða fyrir flösu.  Sérstaklega ef um skort á nauðsynlegum fitusýrum í líkamanum er að ræða eða sinkskortur.  Eins gæti verið að líkaminn sé að þola illa einhverja hárvöru sem verið er að nota.

Ef að húðsveppur er orsök flösunnar má blanda Tea Tree olíu útí milt sjampó við hvern hárþvott, það hefur reynst vel í fjölda tilfella.  Ekki er rétt ráð að hætta að þvo hárið, heldur frekar að skoða þær hárvörur sem að notaðar eru.  Mörg af þeim efnum sem að við notum í hárið eru gífurlega sterk.  Því væri ráð að skoða innihaldslýsingar þeirra, áður en að þær eru keyptar.

Borðaðu nóg af trefjum, ferska ávexti og grænmeti og drekktu 6-8 glös af vatni til að líkaminn eigi auðveldara með að skola út eiturefnunum sem að setjast að í líkamanum.  Taktu inn góðar fitusýrur og borðaðu sinkríka fæðu.

Previous post

Fjallagrös

Next post

Flensusprautan