JurtirMataræði

Jurtate

Te gerð úr jurtum hafa verið vinsæl í gegnum aldirnar. Bæði til lækninga, slökunar og einnig sem félagslegur drykkur í stað kaffis. Ýmsar tilbúnar tetegundir fást nú í stórmörkuðum og heilsubúðum, en ótrúlega auðvelt er að útbúa te sjálfur, úr bæði ferskum og þurrkuðum jurtum.

Það sem að þarf til, er teketill og tesía auk jurtanna sjálfra og vatns. Plöntur eins og t.d. Lavender, Jarðarberjaplanta og Calenduluplanta (marigold) geta vaxið útí garði. Síðan eru þær tíndar og notaðar bæði ferskar og þurrkaðar. Einnig er hægt að kaupa þurrkaðar jurtir í heilsubúðum. Geyma þarf þurrkaðar jurtir í loftþéttum umbúðum, á dimmum stað og alls ekki í beinu sólarljósi.

Bæði er gott að útbúa te úr einni jurt í einu og einnig að blanda saman jurtum í tebollann. Nota skal 1-2 fullar teskeiðar af þurrkuðum jurtum í einn tebolla. En ef að notaðar eru ferskar jurtir skal nota 4 fullar teskeiðar, u.þ.b. 75 gr. af þeim í 600 ml. af vatni, er nóg í u.þ.b. 3 bolla.

Setjið jurtirnar, blómin, stilkana eða laufin eftir því sem að við á, í heitt vatn ofan í teketilinn eða setjið þær í tesíu og hellið soðnu vatni yfir (ekki sjóðandi þó). Látið standa í 5-10 mínútur svo að kjarni jurtanna leysist útí teið. Hægt er að geyma teið í ísskáp uppundir 48 klt., en það er þó alltaf best, ný uppáhellt.

Hægt er að útbúa heimagerða tepoka úr þunnu líni. Þá eru klipptir út ferningar, jurtirnar settar í , tekið saman á hornunum og bundið fyrir með t.d. sláturgarni. Einnig fást, tómir tilbúnir tepokar í versluninni Te og Kaffi og jafnvel víðar.

Þau tilbúnu jurtate sem algengust eru í búðunum eru:

Kamomillute sem er slakandi, róandi og styrkir meltinguna.

Engiferte sem er róandi fyrir meltinguna, losar um vindgang og meltingartruflanir. Hitar líkamann og losar um ógleði, sérstaklega vegna ferðaveiki.

Piparmyntute sem er hressandi og hjálpar til við meltingu, losar einnig um höfuðkvef og stíflað nef.

Fennelte sem hjálpar til við meltingu eftir þunga máltíð.

 

Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir

Previous post

Hvítlaukur

Next post

Magnesíum

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *