FæðuóþolMataræði

Mjólkuróþol

Það er kallað mjólkuróþol þegar einstaklingur getur ekki melt mjólkursykur (laktósa). Þessa einstaklinga skortir nægjanlegt magn ensíma sem kallast laktasi, en það gegnir því hlutverki að brjóta niður mjólkursykurinn í meltingarvegi.

Bent skal á að mjólkuróþol og mjólkurofnæmi er sitt hvor hluturinn. Ef fólk er með ofnæmi fyrir mjólk þá er það ofnæmiskerfi þess sem bregst við ákveðnum próteinum í mjólkinni og ræðst gegn þeim eins og um óvelkominn aðskotahlut væri að ræða.

Fólk með mjólkuróþol getur ekki melt mjólkursykurinn og fer hann því ómeltur niður í ristilinn, þar sem hann gerjast og veldur óþægindum. Afleiðingarnar geta verið uppþemba, niðurgangur, magakrampar og vindgangur.

Einkenni mjólkurólþolsins koma venjulega fram um 30 mínútum eftir neyslu mjólkurafurða, en það geta liðið allt að 2 tímar.

Tíðni mjólkuróþols er mjög ólíkt eftir heimshlutum. Algengt er á sumum svæðum að 100% fólks sé ófært um að vinna á mjólkursykri en mjólkuróþol er óalgengast hér á Vesturlöndum.

Flest ungabörn framleiða yfirdrifið nóg af laktasa og er mjólkuróþol því óalgengt meðal barna á fyrstu æviárunum. En þó er það inn í myndinni og eru einkennin þá gjarnan froðukenndur niðurgangur sem veldur bleyjuútbrotum, hæg þyngdaraukning og uppköst.

Mjólkuróþol getur verið óþægilegt en það er ekki hættulegt og má á einfaldan hátt vinna á móti óþægindunum. Sneiða þarf hjá mjólkurafurðum en þó með undantekningum. Fólk getur borðað harða brauðosta, t.d. Gouda, þar sem bakteríurnar sem hleypa ostinn brjóta niður mjólkursykurinn í ferlinu. Sumir þola einnig jógúrt þar sem mjólkursykurinn hefur brotnað niður að hluta til.

Besta leiðin til að finna út hvað viðkomandi þolir, er að halda sig með öllu frá mjólkurvörum í tvær vikur og prófa svo að taka inn eina og eina tegund í einu. Byrjið á að prófa brauðostinn. Ef þið sýnið viðbrögð við honum þá eruð þið með ofnæmi fyrir mjólk en ekki eingöngu óþol og er það öllu verra og alvarlegra vandamál. Ef þið hins vegar þolið ostinn, prófið næsta dag að borða eina lífræna jógúrt og svo koll af kolli.

Sumir þola eitthvert magn af mjólkurvörum, þar sem þeir framleiða eitthvert magn af laktasa en þó í litlu mæli. Aðrir framleiða engan og þurfa því alfarið að sneiða hjá mjólkurafurðum. Hægt er að fá töflur í heilsubúðum með ákveðnu magni af laktasa, sem gerir fólki fært að neyta lítils magns af mjólkursykri. Þetta getur verið nauðsynlegt fyrir fólk sem þarf til dæmis að nota lyf sem innihalda mjólkurduft.

Í dag þarf enginn að örvænta, þrátt fyrir að vera með mjólkuróþol, því mikið framboð er af vörum sem koma í stað mjólkurvara. Í flestum búðum er nú hægt að versla sojavörur og víða er hægt að fá hrísgrjónamjólk. Ef þið eruð í vafa um hvaða vara geti komið í staðinn, leytið þá ráða í heilsuvöruverslunum.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Deildar meiningar um hollustugildi mjólkur

Next post

Glútenlaust kókoshveiti

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published.