Heilsa

Nokkrar staðreyndir um ofþyngd Íslendinga og áhættuþætti

Íslenska þjóðin er að þyngjast jafnt og þétt og er nú svo komið að nær fjórðungur miðaldra Íslendinga er í hópi offitusjúklinga en það eru þeir sem mælast með þyngdarstuðulinn BMI yfir 30 stigum.

60% Íslendinga eru yfir æskilegri þyngd (BMI = 25) og 20% barna og unglinga.

Þegar fólk er komið yfir 30 stig á BMI kvarðanum er dánartíðni þeirra helmingi hærri en þeirra sem eru í kjörþyngd og hætta á ýmsum sjúkdómum margfaldast. Þannig geta líkurnar á að fá ýmsar tegundir krabbameins allt að tvöfaldast, líkurnar á að fá hjarta- og æðasjúkdóma, stoðkerfisverki og slitgigt tvö- til fjórfaldast og hættan á að fá sykursýki og kæfisvefn tugfaldast.

Erfiðara er fyrir þessa einstaklinga að eignast börn því frjósemi minnkar allverulega og meðganga og fæðing er mun áhættusamari en fyrir mæður sem ekki þjást af offitu.

Andlegir erfiðleikar eru mun meiri hjá offitusjúklingum en öðrum. Þunglyndi og kvíði er mun algengara og vanmetakennd er meiri. Einnig verður einangrun þessa fólks oft mikil því í samfélaginu eru miklir fordómar í garð þessa hóps og er algengt að fólk dragi sig meira og meira í hlé. Af þeim sökum verður félagsleg þátttaka mun minni en gerist og gengur hjá fólki.

Offita er langvarandi og krónískt ástand og er gríðarlega mikilvægt að fundnar verði leiðir til að aðstoða þennan hóp fólks til betri heilsu og breytts lífsstíls. Bæði er það mikilvægt fyrir einstaklingana sjálfa til að þeir megi njóta meiri lífsgæða og eins er það gríðarlega hagkvæmt fjárhagslega fyrir þjóðfélagið að draga úr ofþyngd samfélagsins.

(Upplýsingar fengnar af vefsvæði Reykjalundar).

Previous post

Neglur

Next post

Nýrnasteinar

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *