Vandamál og úrræði

Spenna í öxlum

Steinunn sendi okkur fyrirspurn um stífar axlir og spennu upp í höfuð: “Ég er svo stíf í öxlum og leiðir spennan niður í bak og upp í höfuð. Er hægt að fá ráð við því?”

Sæl Steinunn.

Það geta verið margar orsakir fyrir svona spennu og því margar leiðir til bata. Þú tekur ekki fram hvort þú hafir leitað til læknis vegna þessa en það er alltaf full ástæða til þess þegar um háls- eða bakverki er að ræða.

Algengustu orsakir svona spennuástands eru sálfræðilegir þættir, eins og streita og kvíði. Aðrar orsakir geta verið röng líkamsbeyting og er sífellt algengara að fólk þurfi að takast á við óþægindi sem orsakast af notkun tölvumúsar.

Að stunda reglulega hreyfingu getur hjálpað mikið við að takast á við svona spennu og getur oft fyrirbyggt svona ástand.

Ég tel hins vegar að áhrif mataræðis hafi lengi verið vanmetið sem orsök spennu eða vöðvabólgu. Ég vil benda þér á reynslusögu mína hér á vefnum, en ég tókst lengi á við mikla vöðvabólgu, allt frá barnsaldri, þar til ég tók til í mataræði mínu.

Inga næringarþerapisti fjallar hér að neðan um mögulegar leiðir ef orsakirnar liggja í mataræðinu og Guðný Ósk hómópati fer inn á leiðir hómópatíunnar ef undirorsökin liggur meira í andlegum eða sálfræðilegum þáttum.

Annað sem getur hjálpað ef orsök þessa ástands liggur í líkamsbeytingu eða streytu er að fara í nudd, bæði til að mýkja upp og eins að ná góðri slökun. Einnig getur höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð hjálpað, þar sem hún aðstoðar líkamann við að leiðrétta rangar stöður. Ég bendi þér á að lesa þér til um allar þær meðferðir sem er fjallað um hér á Heilsubankanum, því í raun gætu þær allar hjálpað þér á leið til bata. Þær vinna nefnilega allar að því að ná líkamanum í jafnvægi.

Það er svo mikilvægt að þú finnir það sem þú telur henta þér og svo er bara að prófa sig áfram.

Gangi þér vel, Hildur M. Jónsdóttir, ritstj.

 

Inga Kristjánsdóttir skrifar:

Miklar sveiflur í blóðsykri, sökum mikillar sykur- eða sterkjuneyslu, geta ýtt verulega undir bólguástand í líkamanum. Lykilatriðið er að koma stjórn á blóðsykurinn með því að minnka eða sleppa sykuráti og borða helst eingöngu heilkornavörur. Þá er ég að meina hýðishrísgrjón í stað hvítra grjóna, heilhveiti í staðinn fyrir hvíta hveitið, gróft heilkorna pasta í stað þess hvíta o.s.frv.

Ef líkamann vantar góða fitu, þá getur það líka leitt til bólguástands. Þá er ég að tala um lífsnauðsynlegar omega fitusýrur, sem við fáum úr ýmsum fræjum, hnetum, fiski og fleiru. Það er gott ráð að taka inn slíkar fitusýrur annað hvort í belgjum eða fljótandi formi. (Sjá einnig grein hér inni á vefnum “Enga fitufælni“).

Slæm unnin fita (t.d. transfita), sem finnst í ýmsum vörum s.s. kexi, kökum, unnum mat og skyndifæði getur ýtt undir bólgur og því er æskilegt að forðast slíka fitu.

Það er gott að auka neyslu grænmetis af öllum gerðum, það inniheldur mikið af vítamínum, steinefnum og fleiru góðu sem hjálpar líkamanum til að losa bólgurnar.

Magnesíum er þekkt fyrir að virka slakandi á vöðva og það er gott ráð að taka það inn í töflum eða belgjum. Það er líka hægt að fá blöndur af kalki og magnesíum í einu og sömu töflunni, sem gæti verið sniðugur kostur. Smá auka magnesíum til viðbótar við það sakar þó ekki.

Það er líka gott að taka inn B-vítamín, þau eru nauðsynleg bæði fyrir taugakerfið og eru líka nauðsynleg fyrir vöðva og stoðkerfi. Best er að taka inn blöndu af öllum B-vítamínunum því þau eru hópsálir og virka best saman :o)

C-vítamín virkar hreinsandi og getur hjálpað og svo er auðvitað um að gera að drekka nóg vatn eða róandi og slakandi jurtate. Það eru til allskonar skemmtilegar teblöndur sem virka vel.

Gangi þér vel.  Inga næringarþerapisti.

 

Guðný Ósk skrifar:

Hómópati tæki fulla sjúkrasögu og færi í gengum alla þætti, bæði líkamlega og andlega. Oftast myndast stífleiki í vöðvum við spennu í líkamanum. Spennan gæti verið margskonar og ekkert endilega vegna líkamlegra þátta.

Ef mikið andlegt álag og áreiti er í gangi, eitthvað mikið um að vera sem að veldur streitu, stífna axlirnar gjarnan upp og spenna sest í axlarvöðvana og myndar bólgur ef ástandið er stöðugt. Ef að andlegir þættir eru orsakavaldar þá gæfi hómópati remedíu sem að passaði ástandi og sögu einstaklingsins og við það gæti losnað um ýmsar andlegar flækjur og viðkomandi myndi styrkjast til að takast á við áreitin og bólgurnar myndu mýkjast og losna og höfuðverkir milduðust að sama skapi. Margar remedíur kæmu til greina og ráðlegt væri að hitta reyndan hómópata sem að gæti aðstoðað, ef ástæðan væri af slíkum meiði.

Aftur á móti ef að eingöngu er um að ræða líkamlega vöðvaspennu t.d. vegna rangrar líkamsstöðu eða áverka þá yrði eflaust fyrsta verk hómópatans að gefa Arnicu, sem að dregur úr bólgum og er ávallt sú sem fyrst skal taka við öllum áföllum og áverkum. Ekki er þó Arnican eina remedían sem að getur hjálpað til við auma og stífa vöðva og því er að sama skapi ráðlegt að ráðfæra sig við reyndan hómópata til að auka líkur á að rétt remedía sé valin fyrir þetta tiltekna ástand. (Sjá grein um hómópatíu)

Eins myndi hómópati eflaust gefa ráðleggingar um mjúka hreyfingu á eymslasvæði, heit böð og jafnvel benda á að fara í nudd eða í aðrar meðferðir sem að hann myndi telja henta viðkomandi. Rétt líkamsbeiting er einnig mjög áríðandi og hvíld ekki síður. (Sjá greinina: Rétt líkamsbeyting)

Kær kveðja, Guðný Ósk hómópati.

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Sýking í ennisholum

Next post

Minnisleysi

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *