MataræðiÝmis ráð

Að breyta um áherslur í mataræði

Oft er erfitt að breyta venjum okkar og þær eru oft sterkar og ríkjandi þegar kemur að mataræðinu. Ég heyri gjarnan raddir eins og ,,maður má nú bara ekki neitt” og ,,hvað, borðar þú þá bara gras?” Þetta hefur nú sem betur fer mikið breyst á síðustu 5 til 10 árum eða svo og er það vegna þess að fólk veit stöðugt meira um þessi mál. 

Þess vegna segi ég, þekking er til alls fyrst. Þeim mun meira sem við vitum, þeim mun auðveldara reynist okkur að breyta til. Við þurfum að læra að tengja líðan okkar við það sem við borðum og það gerum við með því að prófa okkur áfram. Byrja á því að taka út ákveðnar fæðutegundir og sjá hvaða áhrif það hefur á líðan okkar.

Mjög margir eru orðnir meðvitaðir um mikilvægi hollrar fæðu og hafa breytt miklu hvað varðar matarinnkaup og matreiðslu og er það vel. En þrátt fyrir það eru jafnvel þeir hinir sömu undirlagðir í líkamlegri og andlegri vanlíðan vegna fæðuóþols. Við þurfum því að læra að hlusta á líkama okkar og eins að trúa því að okkur geti liðið betur.

Annað sem ég heyri oft í umræðum fólks þegar talið beinist að neyslu grænmetis. Fólki verður oft tíðrætt um hvað forfeður okkar, sérstaklega hér á Íslandi, voru nú hraustir þrátt fyrir grænmetisleysið. Það væri helst að fólk hafi nartað í nokkrar kartöflur með öllu kjötátinu, fitunni og þar fram eftir götunum. Það sem ég tel að hafa beri í huga er að á þessum tíma var sykurneysla ekki í líkingu við það sem nú gerist og gengur. Það er ekki fyrr en um 1950 að hvítur sykur fer að flæða yfir allt. Þar held ég að sé kominn stærsti sökudólgurinn í gríðarlegu fæðuóþoli hjá fólki í dag. Enda er viðbættur sykur í flest öllum ,,hefðbundnum” mat. Þannig að þrátt fyrir að við séum ekki að bryðja sælgæti út í eitt þá getum við verið að fá gríðarlegt magn af sykri inn með annarri fæðu.

En þarna er oft erfiðast að byrja. Margir eru tilbúnir að henda nær því hverju sem er út úr mataræðinu nema sykrinum. ,,Ég er bara algjör súkkulaðifíkill”, ,,Ég verð bara alltaf að fá minn ís”, ,,Ég hryn bara alltaf í sykurinn í kringum blæðingar og borða þá sælgæti í kílóavís”.

Við erum oft fíkin í það sem er okkur verst. Það var merkilegt sem Inga Kristjánsdóttir, næringarþerapisti sagði mér. Hún tjáði mér að við verðum oft fíkin í mat sem við þolum ekki og það stafi af viðbrögðum líkamans. Þannig er að ef við látum eitthvað ofan í okkur sem við ekki þolum þá fara varnarviðbrögð líkamans í gang. Líkaminn byrjar að losa hormón út í kerfið sem veita vellíðan, til að draga úr sjokkinu sem líkaminn verður fyrir, þegar við neytum einhvers sem við ekki þolum. Þetta er það ástand sem við verðum fíkin í, þessi vellíðunar-tilfinning og getum þar af leiðandi bara ekki hætt að borða sykur!

Sjá einnig: Hvar á að byrja?

Previous post

Valhnetur

Next post

Fjölvítamín

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *