FjölskyldanHeimiliðUngabörn

Brjóstagjöf og andleg líðan

Katrín E. Magnúsdóttir ljósmóðir skrifaði áhugaverða grein í Morgunblaðið um áhrif brjóstagjafar á andlega líðan móður. Ég set hér niður helstu punktana úr greininni.

Þekkt er að brjóstagjöf minnkar líkurnar á að konur þjáist af þunglyndi eftir barnsburð.

Það eru tvær ástæður fyrir þessu. Annars vegar losna ákveðin hormón við brjóstagjöfina, sem eru talin meginástæða þess að konur finna síður fyrir depurð. Hin ástæðan hefur með tilfinningar móður að gera. Það að hún finni að hún sé að gefa barninu bestu, hugsanlegu næringu, bætir líðan hennar og brjóstagjöfin sjálf eflir tengsl milli móður og barns.

Brjóstagjafavandamál geta einnig valdið þunglyndi og er mikilvægt að taka á þeim vandamálum strax og þau koma upp.

Í kjölfar þess að barn er vanið af brjósti, upplifa mæður oft á tíðum ákveðinn missi og hætta á andlegri vanlíðan getur aukist. Því yngra sem barnið er, þegar brjóstagjöf er hætt og því hraðar sem barnið er vanið af brjóstinu, því hættara er móður á andlegri vanlíðan.

Það er því mikilvægt fyrir konur sem huga að því að venja barn sitt af brjósti, að gera það eins rólega og þeim er unnt og í samvinnu við barnið.

Stundum er konum hálfpartinn þröngvað til að hætta brjóstagjöf á skömmum tíma. Vissar aðstæður virðast valda þessu.

Má þar nefna ef stíflur, bólgur eða kýli eru í brjóstum, sem eru annað hvort endurtekin eða óvenju svæsin. Móðurinni er þá talin trú um að hún væri betur sett með því að hætta umsvifalaust. Andleg líðan þessara kvenna getur verið hrein martröð í langan tíma á eftir.

Önnur ástæða er ef konur þurfa á lyfjagjöf að halda. Þetta á næstum aldrei rétt á sér, þar sem fjölbreytni í lyfjaframboði er það mikið og nær alltaf hægt að finna lausn, samhliða áframhaldandi brjóstagjöf.

Að sjálfsögðu getur frumkvæðið stundum komið frá móður, að vilja hætta brjóstagjöf. Þegar vandamál eru tengd brjóstagjöfinni, getur það litið þannig út að lausn vandans sé fólgin í að “hætta þessu bara”. Þarna er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk fræði konurnar og styrki til að forða þeim frá andlegri vanlíðan.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir, greinin birtist fyrst á vefnum í september 2007

Previous post

Hæsta fæðingarþyngd á Íslandi

Next post

Þarf ekki að sjóða

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *