Heilsa

Fréttatilkynning lyfjafyrirtækis um bóluefni

Í ágústmánuði sendi lyfjafyrirtækið GlaxoSmithKline frá sér fréttatilkynningu þess efnis, að nýtt bóluefni væri komið á markað sem verndar ungabörn gegn svokölluðum rótaveirum.

Ég sagði frá því hér um daginn að í Evrópu gilti bann við beinum samskiptum lyfjafyrirtækja við neytendur. Þetta bann tekur til dæmis til auglýsinga. Það er spurning hvort munurinn er einhver á fréttatilkynningu og auglýsingu, hvað þetta varðar.

Annað sem er varhugavert við þetta er að þarna var lyfjafyrirtæki að “auglýsa” bóluefni sem heilbrigðisyfirvöld hér á landi telja ekki að sé þörf á að gefa börnum á Íslandi.

Þessi veirusýking er þekkt hér á landi, en hún er ekki skæð. Börn sem sýkjast af veirunni verða dálítið veik, þau fá niðurgang, kasta upp og fá hita. Það er til að börn séu lögð inn vegna hennar og þá helst vegna vökvataps, en mörg börn koma heldur aldrei undir læknishendur, heldur ná sér af eigin rammleik.

Rótaveirur geta verið mjög alvarlegar í löndum þar sem fólk býr við slæmt heilbrigðiskerfi og þar sem næringarástand barna er slæmt. Þetta á aðallega við í Afríku og í öðrum vanþróuðum löndum.

Þórólfur Guðnason, yfirlæknir á sóttvarnarsviði Landlæknisembættisins segir ekki brýnt að hefja bólusetningu hér á landi gegn þessari veiru og að það séu ýmis önnur bóluefni sem væri brýnna að taka upp en þetta.

Hver er tilgangurinn með því að birta slíka fréttatilkynningu fyrir almenning? Er ekki verið að hræða foreldra að óþörfu og óbeint verið að hafa áhrif á, að fólk biðji um þetta bóluefni?

Hingað til hefur það verið í höndum heilbrigðisstarfsfólks að meta hvort þörf er á lyfjagjöfum, þar sem það er jú menntað til þess. En er nú verið að færa þessa ábyrgð yfir á almenning, sem skortir þekkingu til að taka upplýstar ákvarðanir um málið? Er verið að hvetja til notkunar á lyfjum, þar sem þörfin er ekki til staðar?

Previous post

Góð ráð við fótasvepp

Next post

Frjóofnæmi og dáleiðsla

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *