Vandamál og úrræði

Hárlos

Heil og sæl.
Ég er með mikið hárlos en er ekki komin með neina skallabletti. Hárið er þó orðið ansi þunnt og hárin af mér eru út um allt. Fyrir um hálfu ári síðan fór ég og lét slétta á mér hárið (eitthvað svona varanlegt eins og permanent) en það getur varla verið orsökin nú hálfu ári seinna.
Er að vona að þið getið gefið mér eitthvert ráð.
Með fyrirfram þökk, Herdís.
P.s. Til hamingju með frábæra síðu

 

Sæl Herdís.

Það hljómar þannig að þú hafir verið að missa mikið hár jafnt og þétt og þá ekki í neinum flyksum í einu. Það eru því ekki miklar líkur á að undirrótin sé neinn sjúkdómur. Ef þú ert hins vegar að missa það mikið hár að þú hafir áhyggjur skaltu leita til læknis.

Það er eðlilegt að missa um 100 hár á hverjum degi og ef þú ert mið sítt hár getur borið ansi mikið á því. En ef þér finnst hárið hafa þynnst mikið er hárlosið væntanlega umfram eðlileg mörk.

Undirrót fyrir hárlosi getur verið skortur á næringarefnum sem eru mikilvæg fyrir hárvöxt. Borðaðu fjölbreytta fæðu sem er rík af ávöxtum og grænmeti. Taktu einnig inn sojavörur í mataræði þitt þar sem þær hafa reynst vel gegn hárlosi.

Hárlos getur orsakast af skorti á lífsnauðsynlegu fitusýrunum. Hægt er að versla góðar olíur til inntöku í heilsubúðum. Ég bendi þér á greinina hennar Ingu – Enga fitufælni takk!

Ef hárlosið er nýtilkomið er ekki líklegt að sléttupermanentið hafi orsakað það. Þó getur hárlos komið vegna ofnæmisviðbragða við sterkum efnum. Notaðu eingöngu náttúrulegar hárvörur til að fyrirbyggja ofnæmisviðbrögð. Góð innihaldsefni væru bíótín, silica og Aloe Vera.

Hárlos getur stafað af B-vítamín skorti og þá aðallega af bíótínskorti. Þú færð bíótín m.a. úr ölgeri, híðishrísgrjónum, grænum baunum, linsubaunum, sojabaunum, höfrum, sólkjarnafræjum, valhnetum og bönunum. Gott er að taka inn B-Complex töflur.

Grænt te getur dregið úr hárlosi.

Vítamín C, E og Sink er gott að taka inn sem bætiefni.

Járnskortur getur valdið hárlosi. Gott er að drekka rauðrófusafa, hveitigrassafa og eins er hægt að fá járn í fljótandi formi í heilsubúðum.

Forðastu að nota hárblásara og leyfðu hárinu að þorna sjálfu. Greiddu helst hárið þegar það er orðið þurrt þar sem það er viðkvæmara á meðan það er blautt.

Konur sem eru nýbúnar að eiga barn lenda oft í miklu hárlosi. Þetta er eðlilegt og gengur yfir.

Streita getur valdið hárlosi og er þá mikilvægt að leiðrétta undirliggjandi orsakavald. Þegar jafnvægi er komið á kemst hárvöxturinn aftur í gott lag. Hómópatía getur komið þarna til hjálpar, ásamt öðrum meðferðarformum sem geta hjálpað við að draga úr streitu.

Ég vona að þetta hjálpi þér eitthvað áleiðis. Það sem að ofan greinir á við ef hárlosið er jafnt og þétt og jafnt yfir svæði höfuðsins. Ef hins vegar hárið dettur af í flyksum er rótin önnur og væri þá ráð að leita til læknis. Mörg ofangreind ráð geta þó reynst góð hjálparmeðul í þeim tilfellum.

 

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Deildu þessum upplýsingum

Previous post

Minnisleysi

Next post

Eyrnasuð (Tinnitus)

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *